Lengd þingfundar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 11:14:54 (7656)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:14]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að búið er að samþykkja að hafa fund fram eftir kvöldi, við gerum ekki athugasemd við það enda vill maður greiða fyrir þingstörfum núna á lokasprettinum. Við ætlum að hætta á fimmtudaginn hér í þinginu samkvæmt starfsáætlun og það er stuttur tími eftir.

Hins vegar er það þannig að við viljum líka fara eftir þeim reglum sem við höfum sjálf sett um að stytta þingið þannig að við séum ekki að vinna inn í nóttina eins og var nokkuð algengt í fyrri tíð. Við höfum þar vísað til fjölskyldumála þannig að ég tek undir þá beiðni sem hér hefur komið fram að það væri mjög æskilegt að forseti mundi tilkynna núna hvenær þingfundi ljúki. Ég tel það afar óheppilegt ef við förum fram yfir miðnætti. Ég held að það sé alveg útilokað. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur beðið um tvöfaldan ræðutíma um framhaldsskólafrumvarpið. Ég held að ekki sé hægt að bjóða upp á að sú umræða hefjist t.d. um miðnætti og fari inn í nóttina. Það væri algerlega fráleitt, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.