Lengd þingfundar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 11:21:27 (7662)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:21]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hef lifað tímana tvenna í þinginu og man langt aftur í tímann og hef verið hér alllengi. (Gripið fram í.) Ég held að þetta teljist tímamótaþing sem við höfum lifað hér í vetur. Það var mikið samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um breytingu á þingsköpunum, að vísu voru Vinstri grænir andvígir, þeir eru málþófsflokkur og vilja tala lengi og mikið. (Gripið fram í.) Niðurstaðan varð sú að þeim var breytt. Þess vegna held ég að hér megi enginn níðast á öðrum, næturfundir eiga að heyra fortíðinni til, ekki bara út af fjölskyldumálum heldur líka út af þeirri virðingu sem okkur ber að hafa fyrir þessum vinnustað. Við eigum ekki að þrasa hér á nóttunni og sýna þjóðinni þann skilning að við vinnum þegar aðrir vaka.

Þess vegna er ekki hægt, hæstv. forseti, að halda því fram að heil dagskrá verði kláruð á þessum degi. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. forseta að lýsa því yfir að þingfundur standi ekki fram yfir miðnætti og það verði meginregla þingsins héðan í frá.