Lengd þingfundar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 11:22:53 (7663)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:22]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal að ég held að við ættum að reyna að snúa okkur að dagskrármálunum og ræða þau frekar en að endurtaka umræðu hér hvað eftir annað um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.) Spurt er af hverju ég sé þá kominn hérna. Það er til að svara hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni vegna þess að mér fannst hann misskilja tiltekið ákvæði þingskapa gersamlega. Í ákvæðinu segir:

„Reglulegir þingfundir samkvæmt starfsáætlun skulu ekki standa lengur en til kl. 8 síðdegis. Frá því má þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingið samþykkir. Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara.“

Þarna er ekki verið að setja nein takmörk á því hversu lengi fundur getur staðið og hann getur þess vegna staðið fram yfir miðnætti ef þörf krefur. Síðan kemur síðasti málsliðurinn:

„Þá getur forseti ákveðið að þingfundur standi til miðnættis á þriðjudagskvöldum.“

Það er alveg skýrt að það er sérregla sem á við um þriðjudagskvöldin (Forseti hringir.) en hins vegar eru engin takmörk í þessari grein á því hversu lengi þingfundur geti staðið ef samþykkt er (Forseti hringir.) að halda þingfundi lengur áfram.