Lengd þingfundar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 11:25:38 (7665)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:25]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég kem upp út af umræðunni um lengd fundarins og sérstaklega til að vekja athygli hv. þm. Birgis Ármannssonar á því að samkvæmt Morgunblaðinu sem ég hef á borðinu hjá mér er fimmtudagur í dag en ekki þriðjudagur og undanþáguákvæðið um tímann til klukkan tólf á miðnætti á þriðjudögum hefur þess vegna ekkert inn í þessa umræðu að gera, það er þessu máli algerlega óviðkomandi. Við hljótum því að taka það sem svo að tillaga forseta um að fundur yrði lengri styðjist við eitthvert meðalhóf. Ég vek athygli á því að stjórnarandstaðan hefur verið mjög samningafús í þessum efnum, það vill svo til að stjórnarandstaðan er heldur duglegri við að mæta í þingsal og þannig hagaði til í þingsalnum þegar þessi tillaga var borin upp af forseta að stjórnarandstaðan var í meiri hluta í salnum en hún beitti ekki þeim meiri hluta fyrir sig. (Forseti hringir.) Ef stjórnarliðar vilja að þingið fari í þann farveg að stjórnarandstaðan beiti (Forseti hringir.) sér með þeim hætti verður þeir alla vega að fara að mæta betur.