Lengd þingfundar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 11:27:04 (7666)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:27]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mér heyrist að við hv. þm. Bjarni Harðarson séum nokkuð sammála um að við erum að tala hér um tvær reglur sem felast í 10. gr. þingskapanna. Annars vegar regluna sem kveður á um sérstaka heimild forseta til að ákveða lengri þingfundi á þriðjudögum, sem er sérmál, og þar sem við hv. þm. Bjarni Harðarson erum sammála um að í dag er fimmtudagur en ekki þriðjudagur á hún ekki við. Hins vegar er almenn heimild til að ákveða, að tillögu forseta, að þingfundur standi lengur sem á við um alla daga, fimmtudaga sem aðra daga. Það er sú regla sem beitt hefur verið í dag og þeirri reglu eru engin tímatakmörk sett. Hver niðurstaðan verður hlýtur að ráðast af því hvernig umræður þróast í dag (Gripið fram í.) og hvaða efni standa til þess að halda uppi löngum umræðum. Þar verður forseti auðvitað að hafa svigrúm og meta aðstæður (Forseti hringir.) og það er ég sannfærður um að forsetar munu gera í kvöld eða nótt eftir atvikum.