Lengd þingfundar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 11:30:41 (7669)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:30]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Frú forseti. Þetta er orðin þó nokkur umræða. En því miður kalla hinar ötulu ferðir hv. þm. Birgis Ármannssonar á nokkur andsvör þannig að ég sé mig knúinn til að svara þeim.

Hann vísaði í 10. gr. þingskapalaga. Ég vil taka það fram að meginreglan er að reglulegir þingfundir samkvæmt starfsáætlun skuli ekki standa lengur til klukkan 8 síðdegis. (Gripið fram í.) Það er meginreglan. Síðan kemur undantekning. Frá því má þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingið samþykkir, samanber 67. gr. (Gripið fram í.) Eins og lögmenn almennt vita, og Birgir Ármannsson, þá á að túlka undanþágureglur þröngt. Hún hlýtur því að miðast að því sem kemur hér á eftir og sagt er um þriðjudagskvöld. Þar er gerð önnur undantekning og sagt að þingfundur eigi að standa til miðnættis. Það er einmitt það sem við erum að (Forseti hringir.) fara fram á, að það sé einfaldlega — (Forseti hringir.) að forseti gefi það upp hvort það eigi að fara hér fram yfir miðnætti. (Forseti hringir.)