Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 11:47:12 (7676)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[11:47]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti menntamálanefndar um frumvarp til laga um leikskóla. Eins og sjá má þá hefur nefndin lagt fram fjölmargar breytingartillögur á þingskjali 1012, breytingartillögur í 23 liðum og er reynt að gera grein fyrir meginatriðum þeirra í því nefndaráliti sem ég mæli hér fyrir.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið fjölmarga gesti á sinn fund sem tilteknir eru í nefndarálitinu og þá er gerð grein fyrir því hverjir sendu nefndinni umsagnir vegna málsins.

Það má segja í upphafi til þess að ég geri að minnsta kosti tilraun til að greiða fyrir umræðunni að að ýmsu í þessu nefndaráliti sem ég mæli hér fyrir er einnig vikið í nefndaráliti menntamálanefndar um frumvarp til laga um grunnskólann þannig að til þess að vera ekki að endurtaka sömu atriðin hér í umræðunni þá mun ég vísa hluta af þeim álitaefnum og umfjöllunarefnum sem fram koma í þessu nefndaráliti til umræðunnar um frumvarp til laga um grunnskóla.

Nefndarálitið er mjög ítarlegt. Það er upp á heilar 11 síður þannig að ítarleg grein er gerð fyrir þeim atriðum sem nefndin tók til umræðu í sínu nefndarstarfi.

Ég vil byrja á því að víkja að hlutverki leikskóla og segja að mikill hluti þess starfs sem fram fer innan leikskólans snýr að umönnun barna. Menntamálanefnd er sammála um mikilvægi þess að gera umönnunarhlutverki leikskóla ekki lægra undir höfði en uppeldis- og menntunarhlutverki hans. Telur nefndin því áríðandi að það komi skýrt fram í frumvarpinu og leggur til breytingartillögu þess efnis sem hv. þingmenn geta kynnt sér á breytingartillöguskjali þar um.

Önnur grein frumvarpsins fjallar um markmið í leikskólastarfi. Leggur nefndin til breytingu á orðalagi 2. gr. þar sem lagt er til að hugtakinu kristinni arfleifð íslenskrar menningar verði fellt inn í markmiðsákvæðið. Ég mun nú óska eftir því að umræðu um það atriði verði frestað þar til við fjöllum um grunnskólafrumvarpið enda er nánari grein gerð fyrir því atriði í nefndaráliti um það frumvarp. Ég vísa að öðru leyti til þess sem fram kemur í þessu nefndaráliti.

En það er fleira varðandi 2. gr. sem nefndin leggur til. Hún telur að málörvun barna á leikskólaaldri sé afar mikilvæg og undirstrikar hlutverk leikskóla í máltöku barna. Nefndin telur enn fremur að með því að styrkja stöðu íslenskunnar og stuðla að eðlilegri færni í íslensku sé stutt verulega við börn með annað móðurmál en íslensku. Álítur nefndin að með aukinni áherslu á þetta hlutverk leikskólans sé með sem bestum hætti leitast við að tryggja að leikskólabörn fái þá málörvun sem þau þarfnast á viðkomandi aldursskeiði.

Á undanförnum áratugum hefur samfélagið staðið frammi fyrir miklum þjóðfélagsbreytingum. Breyttar neysluvenjur, aukin kyrrseta og þyngdaraukning er staðreynd í íslensku samfélagi líkt og annars staðar á Vesturlöndum. Í ljósi þessa telur nefndin mikilvægt að sporna við aukinni þróun í þessa átt með því að vekja börn, strax á leikskólaaldri, til umhugsunar um heilbrigða lífshætti. Er það álit nefndarinnar að áhersla á heilbrigðisvitund barna eigi heima í ákvæðum laga um leikskóla og leggur fram breytingartillögu þar um. Leggur nefndin jafnframt áherslu á að allir leikskólar skuli leitast við að bjóða heilnæmt fæði og taka tillit til ráðlegginga Lýðheilsustöðvar og manneldisráðs um mataræði og næringarefni.

Ég ætla nú næst að víkja að stofnun leikskóla. Leikskólastigið er skilgreint sem fyrsta skólastigið hér á landi þótt ekki sé kveðið á um almenna leikskólaskyldu. Það er jafnframt á forræði sveitarfélaga að starfrækja leikskóla þótt menntamalaráðherra fari með yfirumsjón þeirra málefna sem gildandi leikskólalög og frumvarp þetta taka til. Í IX. kafla frumvarpsins er fjallað um stofnun og rekstur leikskóla og kemur meðal annars fram að það sé sveitarstjórnar að tilkynna ráðuneytinu þegar það stofnar eða hættir rekstri leikskóla, veitir rekstrarleyfi fyrir starfsemi leikskóla eða fellir slíkt úr gildi. Telur nefndin það skýrt að hér er einungis um tilkynningarskyldu sveitarstjórnar að ræða. Þessu til stuðnings bendir nefndin á að í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins kemur fram að ábyrgð menntamálaráðuneytis taki ekki til stofnunar, fjármögnunar eða reksturs leikskóla. Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er aftur á móti sagt að yfirstjórn menntamálaráðherra nái ekki til byggingar og reksturs leikskóla. Nefndin telur þetta orðalag ekki nægjanlega skýrt og leggur til að notað verði orðið „stofnun“ í stað byggingar þannig að ekki verði nokkur vafi á að það sé á forræði sveitarfélaganna sjálfra að stofna leikskóla en ekki einungis að annast byggingu þeirra og rekstur.

Í 25. gr. frumvarpsins er að finna heimildarákvæði um rekstur leikskóla til handa öðrum en sveitarfélögum, svo sem sjálfseignarstofnunum, hlutafélögum eða öðrum viðurkenndum rekstrarformum en slík heimild er bundin við samþykki viðkomandi sveitarfélags. Í ákvæðinu er gerð sú krafa að í rekstrarleyfi sé meðal annars kveðið á um samskipti, eftirlit og skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu. Fram kemur í greininni að leikskólar sem starfa á grundvelli slíks leyfis skuli lúta sömu lögum og reglum og aðrir leikskólar sem reknir eru af hálfu sveitarfélaganna sjálfra og að ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eiga við um þær ákvarðanir sem kæranlegar eru samkvæmt 30. gr. frumvarpsins, þ.e. um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar og um aðgang að skóla. Aftur á móti er tekið fram í greininni að ákvarðanir um gjaldtöku sjálfstætt starfandi leikskóla séu undanþegnar slíkri kæruheimild. Töluverðar umræður áttu sér stað innan nefndarinnar um þessa heimild. Lutu þær fyrst og fremst að jafnræðissjónarmiðum, hvort tryggt væri að sjálfstætt reknir leikskólar yrðu að hlíta ákvæðum frumvarpsins ásamt ákvæðum um gjaldtöku. Leggur nefndin áherslu á að þau lög og þær reglur sem eiga við um leikskóla gildi jafnframt um sjálfstætt rekna leikskóla og rekstraraðila þeirra. Samkvæmt 5. málslið 1. mgr. 25. gr. frumvarpsins eru ákvarðanir er lúta að gjaldtöku sjálfstætt starfandi leikskóla ekki kæranlegar. Enn fremur segir í 2. mgr. 27. gr. frumvarpsins að slíkir leikskólar séu jafnframt undanskildir gjaldtökuákvæði þess. Í 1. mgr. 27. gr. er lögfest sú venjuhelgaða heimild sveitarfélaga að innheimta gjald fyrir dvöl barns á leikskóla sem þó má ekki vera hærra en sem nemur meðalraunkostnaði dvalar hvers leikskólabarns. Af orðanna hljóðan má ráða að frumvarpinu sé ekki ætlað að veita sveitarfélögum vald til að hafa áhrif á gjaldtöku sjálfstætt rekinna leikskóla. Í umsögn Reykjavíkurborgar kom aftur á móti fram að slíkt væri erfitt fyrir sveitarfélög að sætta sig við og að einhver úrræði þyrfti til að setja því mörk hversu hátt slíkt gjald getur orðið. Tekur nefndin að mörgu leyti undir með sjónarmiðum Reykjavíkurborgar og telur að með því að veita sveitarfélögum vald til að hafa áhrif á fjárhæð gjaldtöku sjálfstætt rekinna leikskóla megi styrkja stoðir jafnréttissjónarmiða. Er nefndin sammála um að það eigi ekki að vera á valdsviði ríkisins hvort og þá hvernig sveitarfélög kjósa að haga sínum málum og skilyrðum fyrir veitingu rekstrarleyfa, slík umræða eigi að fara fram á sveitarstjórnarstiginu. Telur nefndin því að ekki sé rétt að útiloka sveitarfélög frá því að geta haft áhrif á gjaldtöku sjálfstætt rekinna leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi og leggur til að 25. gr. frumvarpsins verði breytt á þann hátt að sveitarstjórnum verði heimilt að gera þjónustusamning við viðkomandi skóla um hvort tveggja, fyrirkomulag þjónustu og gjaldtöku. Enn fremur telur nefndin nauðsynlegt að gera breytingar á 2. mgr. 27. gr. frumvarpsins með tilliti til þessa og leggur til að gjaldtökuákvæði 27. gr. skuli jafnframt ná til sjálfstætt rekinna leikskóla sé kveðið á um slíkt í þjónustusamningi við sveitarfélagið.

Í 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði er varðar gerð leikskólahúsnæðis og þá kröfu um að húsnæðið og aðbúnaður þess skuli tryggja öryggi og vellíðan barna, svo sem varðandi húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Nokkur umræða um þessa grein átti sér stað innan nefndarinnar. Eru nefndarmenn sammála um að jafnframt verði að hafa öryggi og vellíðan starfsfólks leikskóla að leiðarljósi hvað varðar leikskólahúsnæði og aðbúnað þess.

Í næsta kafla þessa nefndarálits er vikið að mati og eftirliti með gæðum leikskólastarfs en um það eru ítarleg ákvæði í frumvarpinu sjálfu og í greinargerð með því. Nefndin leggur til ákveðnar breytingar á þeim kafla frumvarpsins en fram komu athugasemdir frá sveitarfélögunum um að ákvæði frumvarpsins leiddu til of mikillar skriffinnsku og — ja, hvað eigum við að segja — þunglamalegs kerfis vegna þess að frumvarpið gerði ráð fyrir að leikskólarnir sem eru fjölmargir, meðal annars í Reykjavík, þyrftu að senda slíkar skýrslur árlega til ráðuneytisins. Undan þessu kvörtuðu sveitarfélögin og, ég held ég leyfi mér að segja, að nefndin hafi komið til móts við sjónarmið þeirra að því leyti að gera breytingar á ákvæðum þess kafla sem hefur það að markmiði að létta alla stjórnsýslu og skriffinnsku í kringum þetta matskerfi allt saman sem frumvörpin kveða á um, þ.e. að skólanum verði ekki skylt að senda þessar skýrslur árlega til ráðuneytisins til yfirferðar þar.

Ég ætla næst að víkja að starfsfólki leikskóla. Staða starfsfólks leikskóla og hlutverk þess var eitt af meginumræðuefnum innan nefndarinnar. Hélst sú umræða í hendur við umræður um 9. og 20. gr. frumvarps til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Ég ætla að leyfa mér að geyma hluta þeirrar umræðu til umfjöllunar minnar um nefndarálit menntamálanefndar vegna frumvarpsins um menntun og ráðningu sem er á dagskrá hér síðar í dag en víkja þá örlítið að öðrum þáttum sem varða starfsfólk leikskóla, en að málefnum þeirra er vikið í 6. gr. frumvarpsins.

Í fjölda umsagna voru gerðar athugasemdir við heiti III. kafla og greinarinnar. Nefndin er sammála þeim athugasemdum sem gerðar voru um að nota orðið starfsfólk leikskóla í stað starfslið leikskóla og leggur til að því verði breytt og samræmt í ákvæðum frumvarpsins.

Í 2. mgr. 6. gr. er kveðið á um að leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólakennarar skuli hafa menntun leikskólakennara, samanber lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Telur nefndin rétt að undirstrika í ákvæðinu, líkt og gert er í gildandi lögum, að heimilt verði að ráða starfsfólk sem hafi reynslu og ákveðna þjálfun í störfum innan leikskólans. Þetta er í fullu samræmi við 1. mgr. 9. gr. og 20. gr. frumvarps til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Leggur nefndin því til að á eftir 2. málslið 2. mgr. 6. gr. komi nýr málsliður sem kveður á um heimild starfsfólks sem ekki hefur leikskólakennaramenntun til að taka þátt í að annast uppeldi og menntun barna, enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins.

Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um rétt leikskólastjóra og leikskólakennara til símenntunar. Þau sjónarmið komu fram hjá einstökum nefndarmönnum að eðlilegra væri að ákvæði um símenntun ættu almennt heima í kjarasamningum en ekki í lagaákvæðum enda sé um samningsatriði að ræða. Hins vegar komu umsagnir í þá átt að tryggja þyrfti að til staðar væri sambærilegur símenntunarsjóður fyrir leikskólakennara og til er fyrir grunnskólakennara og jafna þannig stöðu þeirra frekar. Enn fremur kom fram hörð gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni um stöðu annars starfsfólks leikskóla en leikskólakennara og rétt þeirra til símenntunar. Telur nefndin rétt að árétta að ekki sé hægt að skipta starfsfólki leikskóla í tvo hópa með þessum hætti. Mikill hluti starfsfólks í leikskólum landsins hefur ekki leikskólakennaramenntun en nefndin telur að mikilvægt sé að veita því starfsfólki möguleika til að þróa sig og styrkja í starfi. Ekki sé hægt að greina svo á milli starfsfólks leikskóla að einungis hluti þeirra eigi kost á símenntun. Fyrir því séu gild jafnræðissjónarmið. Leggur nefndin til þá breytingu á frumvarpinu að ekki einungis leikskólastjórar og leikskólakennarar eigi kost á símenntun heldur allt starfsfólk leikskóla.

Fleiri atriði í nefndaráliti eru nefnd varðandi starfsfólkið og vísa ég til umfjöllunar um 5. gr. en vík nú að 6. gr.

Í 3. mgr. 6. gr. er að finna nýmæli þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að ráða til starfa á leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga, en í kaflanum er fjallað um kynferðisbrot. Er þar jafnframt kveðið á um að við ráðningu skuli liggja fyrir sakavottorð viðkomandi einstaklings eða heimild til handa leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá.

Á bls. 7, 8 og 9 í nefndarálitinu er gerð býsna nákvæm grein fyrir sjónarmiðum nefndarinnar og þeim umræðum sem fóru fram um þennan þátt málsins innan nefndarinnar. Ég ætla almennt að vísa til þeirrar umfjöllunar og hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér þá umfjöllun. Ég hygg að nefndin sé sammála um að það sé rétt stefna að haga löggjöf með þeim hætti að þeir einstaklingar sem hafa gerst brotlegir við kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga og hlotið dóm fyrir, að ekki sé æskilegt að þeir starfi á leikskólum, ég held að allir nefndarmenn geti tekið undir þetta. Það voru auðvitað sjónarmið uppi um leiðir að þessu markmiði. Nefnt var að í núverandi barnaverndarlögum er gengið skemur en frumvarpið gerir ráð fyrir þar sem tiltekið er að starfsmenn barnaverndarnefnda megi ekki hafa brotið gegn þeim ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga sem beinast að börnum. Í æskulýðslögum sem samþykkt voru hér á síðasta kjörtímabili er gerð sambærileg krafa að einstaklingar sem brotið hafa gegn löggjöf um ávana- og fíkniefni eru jafnframt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum útilokaðir frá því að starfa með ungu fólki samkvæmt þeim lögum.

Niðurstaða nefndarinnar var að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu og við rökstyðjum þá niðurstöðu okkar í þessum kafla, göngum út frá því sjónarmiði að nauðsynlegt sé að tiltaka allan kynferðisbrotakaflann vegna þess að fram komu m.a. efasemdir um að ef farin væri sú leið sem kveðið er á um í barnaverndarlögunum væri hugsanlegt að hlutir eins og barnaklám, varsla barnakláms, féllu utan garðs ef svo má segja, ef ákvæðið væri túlkað þröngt. Nefndin taldi að það væri hreinlega ekki á það hættandi og betra að taka stærra skref í þessu samhengi en styttra og útiloka þá sem hafa gerst sekir um vörslur barnakláms, þ.e. þeir séu jafnframt útilokaðir frá því að vinna á leikskólum og annast umönnun barna. Ég held að ég þurfi ekkert að gera neitt frekari grein fyrir þeim sjónarmiðum. Þetta eru sjónarmið sem ég hygg að allir skilji og hafi skilning á.

Á bls. 9 í nefndarálitinu er fjallað um sérfræðiþjónustu. Þar segir:

„Samfélagslegt gildi menntunar er ótvírætt en hún er líka mikilvæg forsenda þess að einstaklingur geti fótað sig í nútímasamfélagi og getur skipt sköpum um möguleika hans til að sjá sér og sínum farborða og njóta annarra grundvallarréttinda. Í mörgum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að er fjallað um mikilvægi menntunar og rétt til menntunar. Sem dæmi má nefna mannréttindayfirlýsingu og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Evrópu, alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og Salamanca-yfirlýsinguna. Jafnframt er vinna hafin við að fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Það sem er sameiginlegt með þessum samningum er jafn réttur allra einstaklinga til menntunar. Enn fremur er í stjórnarskránni kveðið á um rétt allra til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi, sbr. 2. mgr. 76. gr. Í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, er jafnframt fjallað um rétt fatlaðra einstaklinga til þjónustu ríkis og sveitarfélaga og sérstaklega tekið fram í 7. gr. að ávallt skuli leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Ef aftur á móti kemur í ljós að viðkomandi einstaklingur þarf á slíkri þjónustu að halda að henni verður ekki fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Þótt börn eigi ekki skýlausan rétt á leikskóladvöl, þar sem leikskóli er ekki skyldubundinn líkt og grunnskóli, þá eiga fötluð börn rétt til leikskóladvalar til jafns á við önnur börn á leikskólaaldri, sbr. 19. gr. laga nr. 59/1992. Í gildandi lögum um leikskóla, nr. 78/1994, má finna í VI. kafla ákvæði um rétt leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar. Þar er í 15. gr. fjallað um rétt barna á leikskólaaldri, og þar segir að börn sem vegna „fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eiga rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga“. Í 16. gr. laganna er jafnframt kveðið á um að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta sveitarfélaga skuli veita foreldrum barna og starfsfólki leikskóla nauðsynlega ráðgjöf og þjónustu. 17. gr. laganna setur enn fremur þá skyldu á rekstraraðila leikskóla að þeir skuli byggðir og reknir þannig að þeir geti sinnt fötluðum börnum. Í VIII. kafla frumvarpsins er fjallað um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla. Í 21. gr., sem byggð er á 16. gr. gildandi laga, er kveðið á um stuðning sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leikskólabörn og foreldra þeirra sem og við starfsemi leikskóla og starfsfólk hans. Í 22. gr., sem byggð er á 15. gr. gildandi laga, má sjá að börnum er tryggður réttur til handleiðslu sérfræðinga í þeirri aðstoð og þjálfun sem viðurkenndir greiningaraðilar telja þau þurfa. Í ákvæðum frumvarpsins er mælt fyrir um skyldu sveitarfélaga til að ákveða fyrirkomulag sérfræðiþjónustu en jafnframt stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskólans. Enn fremur er það í höndum leikskólastjóra að samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra barna og eiga samráð við foreldra og félagsþjónustu sveitarfélaganna sé þess þörf. Nefndin telur að með þessum breytingum og víðari hugtakanotkun sé réttur barns betur tryggður en í gildandi lögum. Í umsögnum sveitarfélaga eru gerðar athugasemdir um þessar auknu skyldur sem þessi kafli frumvarpsins setur á þau og meðal annars bent á að ýmis sú þjónusta sem leikskólabörn eiga rétt á sé á höndum ríkisins en ekki sveitarfélaganna sem hafi ekki skipulagsvald yfir öllum þeim sérfræðingum sem börn eiga rétt á handleiðslu frá. Í athugasemdum við 22. gr. kemur aftur á móti fram að sá réttur sem barn hefur til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar lýtur sömu viðhorfum og gert er ráð fyrir í dag samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og lögum um almannatryggingar. Telur nefndin því að undirstrika verði að þótt sveitarfélög skuli stuðla að því að þjónustan geti farið fram innan leikskóla þurfa sumir einstaklingar slíka þjálfun að ekki er mögulegt að þjálfa viðkomandi í skólahúsnæðinu. Aftur á móti ítrekar nefndin að sveitarfélög skuli stuðla að því að þjónustan geti farið fram innan leikskólans. Það er svo í höndum leikskólastjóra að samræma sérfræðiþjónustu sem barni er veitt. Með ákvæðinu er verið að styrkja forstöðuhlutverk leikskólastjóra og er því ætlað gera leikskólastjóra kleift að samræma sérfræðiþjónustu viðkomandi barns við stundaskrá og vikuáætlanir þess og gera vinnuviku barnsins sem heildstæðasta. Í því skyni er nauðsynlegt að samhæfa þá sérfræðiþjónustu sem veitt er af sérfræðiþjónustu sveitarfélags og öðrum sérfræðingum, t.d. á heilbrigðissviði, sem annast viðkomandi barn. Fram hefur komið í máli fulltrúa menntamálaráðuneytisins að starfandi sé nefnd á vegum ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að skilgreina betur störf og þjónustu við fötluð börn í leik- og grunnskólum, óháð því hver veitir þjónustuna. Í starfi þeirrar nefndar hefur áhersla verið lögð á að leik- og grunnskólar gegni lykilhlutverki í samræmingarvinnu á þessu sviði og að sérfræðiþjónustan geti farið sem mest fram innan skólanna sjálfra. Telur nefndin rétt að árétta að þessi skylda leikskólastjóra nær til samræmingar á störfum þeirra sem sjá um hvert einstakt barn innan leikskólans. Enn fremur er það álit nefndarinnar að kveða þurfi skýrar á um að sé þess þörf skuli leikskólastjóri hafa samráð við félagsþjónustu sveitarfélaga vegna málefna einstakra barna. Vill nefndin jafnframt árétta að eðlilegt sé að leikskóli samræmi störf á sviði sérfræðiþjónustu leikskóla, þrátt fyrir að rekstur leikskóla sé ekki skyldubundið hlutverk sveitarfélaga, þar sem allt að 95% barna á aldrinum 4–5 ára eru í leikskóla. Leggur nefndin því til breytingar á 22. gr. frumvarpsins.“

Mér þótti nauðsynlegt að fara ítarlega yfir þessi ákvæði um sérfræðiþjónustuna vegna þess að í frumvarpinu og í þeim frumvörpum sem við ætlum að ræða í dag um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er verið að reyna að stíga eins stór skref og möguleg eru til að auka sérfræðiþjónustu við þau börn sem hana þurfa. Ég held að ég megi segja að í þessum frumvörpum öllum komi fram mjög virðingarverð viðleitni til þess að koma til móts við sérþarfir þeirra barna sem starfa og vinna í skólakerfinu. Það á við um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og það er algjörlega óháð því í hverju þessi sérfræðiþjónusta er fólgin, það á sem sagt það sama að gilda yfir alla.

Í 16. gr. frumvarpsins, frú forseti, er að finna nýmæli um skyldu sveitarstjórna til að koma á gagnvirku samstarfi milli leikskóla og grunnskóla. Meginforsendan fyrir þessari skyldu er að tryggja að samstarf og samvinna ríki á milli þessara skólastiga svo að aðlögun og undirbúningur leikskólabarna fyrir nám í grunnskóla verði sem allra best.

Þetta er í algjöru samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem frumvörp um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla byggja á, þ.e. að auka samfellu í skólastarfi milli skólastiga og á þeim grundvelli byggir sú nálgun sem fram kemur í frumvarpinu varðandi upplýsingagjöfina, að upplýsingar um barn gangi á milli einstakra skólastiga. Hins vegar telur nefndin að mikilvægt sé að líta til þeirra meginsjónarmiða sem lög um meðferð persónuupplýsinga kveða á um, að mörkuð sé sú stefna að ekki sé um að ræða upplýsingagjöf sem getur talist annað en nauðsynleg. Við leggjum til að upplýsingagjöfinni verði þannig háttað að á milli skólastiganna fari upplýsingar um einstök börn sem nauðsynlegar eru vegna stöðu þeirra innan skólakerfisins.

Ég vil að lokum, frú forseti, vekja athygli á síðasta kafla nefndarálitsins sem varðar foreldra leikskólabarna. Ég ætla ekki að lesa upp það sem þar stendur en þar koma fram meginsjónarmið nefndarmanna til 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins og einnig er vikið að 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins þar sem er kveðið á um rétt foreldra sem ekki tala íslensku eða nota táknmál innan leikskólakerfisins. Við reynum að hnykkja á þeim rétti og tryggja réttarstöðu þessara hópa, það er gert í frumvarpinu og nefndin reynir að árétta þau réttindi í nefndaráliti sínu.

Ég vil að lokum, frú forseti, segja að undir nefndarálitið rita allir fulltrúar stjórnmálaflokkanna í menntamálanefnd, fyrir utan hv. þm. Paul Nikolov sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Kjartan Eggertsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi í stað hv. þm. Jóns Magnússonar og er hann samþykkur álitinu. Hv. þingmenn Einar Már Sigurðarson, Pétur H. Blöndal, Guðbjartur Hannesson, Höskuldur Þórhallsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir rita öll undir nefndarálitið, Kolbrún Halldórsdóttir og Höskuldur Þórhallsson með fyrirvara sem þau munu gera hér grein fyrir.

Ég verð í lokin að þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf um þetta mál og ég leyfi mér að segja að vel hafi tekist til við að leiða saman og samræma sjónarmið einstakra nefndarmanna burt séð frá því hvaða stjórnmálaflokkum þeir tilheyra. Ég vil meina að í nefndarstarfinu hafi verið gengið býsna langt, eins langt og mögulegt var til að sætta sjónarmið og einnig til þess að verða við þeim fjölmörgu athugasemdum sem við fengum við meðferð málsins í nefndinni. Ég vil því þakka nefndarmönnum fyrir samstarfið við vinnslu málsins og ekki síður þeim sem að málinu komu og að lokum ritara nefndarinnar, Unni Kristínu Sveinbjörnsdóttur, sem vann alveg geysilega fínt starf fyrir þá sem sæti eiga í nefndinni, frú forseti.