Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 12:37:45 (7678)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:37]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og gott samstarf um þetta mál í menntamálanefnd. Ég held að við séum öll sammála um það í nefndinni að við séum að stíga rétt og góð skref í leikskólamálum með þessari lagasetningu.

Það sem vakti helst fyrir mér með því að koma hingað upp var að eiga orðastað við hv. þingmann um ákveðna þætti sem ég er ekki sammála í breytingartillögum hennar og kveiktu síðan líka hjá mér ákveðnar vangaveltur. Það er sérstaklega 3. töluliður í breytingartillögunum um nýjan kafla sem beri heitið Nemendur. Ég er á þeirri skoðun að við eigum ekki að kalla börn í leikskólum nemendur vegna þess að leikskólastarf er svo margt margt annað en bara nám og það er út af því t.d. sem eingöngu er talað um börn í frumvarpinu.

Sömuleiðis kom það skýrt fram í umsögnum frá bæði Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands, Kennaraháskóla, um leikskólafrumvarpið að þeim fyndist ef eitthvað er að verja þyrfti leikskólann frá því að hugmyndafræði grunnskólans flyttist um of niður á það skólastig. Og einmitt í því ljósi gerði nefndin öll ákveðnar breytingar á frumvarpinu í þá veru, t.d. að eitt af markmiðum skólanna sé umhyggja ekki síður en kennsla, fræðsla o.s.frv.

Um þetta vildi ég fyrst og fremst eiga orðastað við hv. þingmann og spyrja hvað hún sé að fara með því að taka svona eigum við að segja sterkan nemendakafla inn í leikskólalögin.