Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 12:41:28 (7680)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:41]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör vegna þess að mig grunaði að þetta hefði verið gert með þessum hætti, af því að umfjöllun okkar í nefndinni var einmitt á þeim nótum að fara frá því að hafa leikskólann nemendamiðaðan yfir í að hafa meiri leik og störf þar inni.

Varðandi einstaka efnisþætti í breytingartillögunum þá verður hv. þingmaður að virða mér það til vorkunnar að ég er að sjá þær fyrst núna, þeim var fyrst dreift fyrir þennan fund. Ég á því eftir að gefa mér tíma til að skoða þær og mun svo sannarlega gera það með opnum huga.

En það eitt í viðbót vegna þess að í ræðu hv. þingmanns kom fram að hún vildi þrengja dálítið að heimildum á því sviði að einkaaðilar geti komið að rekstri leikskóla. Ég er dálítið hugsandi yfir þessu vegna þess að mér hefur þótt slíkt stór hluti af þróunarstarfi í leikskólanum, svo við tökum Hjallastefnuna sem dæmi. Það eru akkúrat straumar sem hafa komið utan frá og mér hefur þótt það áhugavert. Ég hefði viljað fá hv. þingmann til að rökstyðja þetta aðeins betur og kannski velta því fyrir sér, vegna þess að 29. gr. frumvarpsins um þróunarleikskóla er mjög merkileg grein, og hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að þá sé sett eitthvert pottlok á frjó sjálfstæð félög sem vilja koma að og hefja þróunarleikskólarekstur samkvæmt þessari grein. En ég eins og ég segi, þetta eru vangaveltur mínar af því að mér finnst þau sjálfstæðu félög sem hafa verið að koma inn í leikskólarekstur hafa í langflestum tilfellum verið að gera mjög góða hluti. Það sem hefur kannski helst vantað upp á og ég get nefnt eins og í mínu sveitarfélagi, Kópavogi, er almennilegt eftirlit.