Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 12:43:33 (7681)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég vék að í máli mínu er það mitt sjónarmið að við höfum verulega þörf fyrir fjölbreytt leikskólastarf. Ég tel að fjölbreytnin rúmist innan kerfisins, sérstaklega þegar við í auknum mæli viljum gera einstaka skóla sjálfstæða og sjálfstæðari. Ég tel að hugmyndafræði kraftmikilla einstaklinga og félagasamtaka geti mjög vel komið þar inn og gengið í efnasamband við skóla í sveitarfélögum vítt og breitt um landið þótt þeir séu reknir með hugmyndafræði sveitarfélaganna og samábyrgðarinnar.

Ég tel eins og ég sagði áðan að það kunni að vera sáluhjálparatriði fyrir ákveðna foreldra að setja börnin sín í einkarekna skóla. En eftir því sem ég hef greint málið sýnist mér ágreiningurinn fyrst og síðast standa um, eins og ég nefndi í máli mínu, starfsmannalögin, lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Mér finnst það mjög undarlegt ef fólk er tilbúið að reka skólana undir annarri löggjöf sem ég nefndi, stjórnsýslulög eða upplýsingalög, sem mér sýnist fólki ekkert vera í nöp við — fólk vill hafa eftirlit með þessum stofnunum og vill ekki að þetta verði einkareknir skólar sem lokist af — að þá séu starfsmannalögin eini ásteitingarsteinninn. Og hvers vegna er það? Er það til þess að viðkomandi einkaaðilar hafi tök á að yfirborga fólk eða borga ekki samkvæmt þeim réttindum sem opinberir starfsmenn hafa? Mér finnst það mjög alvarlegt ef starfsmannalögin verða eini ásteitingarsteinnin, því að við erum algjörlega sammála um að það eigi vera til sjálfstæðir skólar, það eigi að vera fjölbreytni í skólastarfi og margar uppeldisstefnur við lýði. Ég tel að þetta sé orðin þræta um starfsmannalögin fyrst og síðast og tel það vera alvarlegt.