Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 12:55:52 (7683)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:55]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar bara hér í stuttu andsvari við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að velta upp atriði sem hún gerði að umtalsefni í máli sínu og varðar gjaldtöku í leikskólum. Nú er ljóst að það hefur verið stefna margra stjórnmálaflokka, m.a. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um langt skeið og ég hygg Samfylkingarinnar og að því ég best veit Framsóknarflokksins einnig, að leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls. Hann hefur verið að þróast á undanförnum má segja tveimur áratugum mjög í þá veru að vera raunverulega hið fyrsta skólastig, sem er áréttað í þessu lagafrumvarpi hér, og jafnvel þó að þar sé ekki skólaskylda er engu að síður, leyfi ég mér að fullyrða, yfir 90% barna á leikskólaaldri sem sækir leikskólann. Þetta hefur verið stefnumál, eins og ég segi, margra flokka, síst og alls ekki Sjálfstæðisflokksins. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hún og félagar hennar í Samfylkingunni eru sáttir við að við endurskoðun leikskólalaganna núna skuli ekki vera tekin raunveruleg skref í þá átt að gera leikskólann gjaldfrjálsan eins og stefna þeirra og okkar fleiri kveður á um. Ég leyfi mér að fullyrða að það væri pólitískur meiri hluti fyrir því á Alþingi ef á það yrði látið reyna, a.m.k. ef menn fylgdu sannfæringu sinni og flokksstefnum.

Ég vil því heyra frá hv. þingmanni hvort hún sé sátt við að það skuli ekki vera tekin nein skref í þá átt að gera leikskólann gjaldfrjálsan með þessu lagafrumvarpi.