Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 12:59:51 (7685)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:59]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi svör og upplýsist þá um afstöðu hennar til málsins. En varðandi það að þessi umræða eigi að eiga heima á sveitarstjórnarstigi þá finnst mér þetta vera pínulítið að kasta boltanum frá sér vegna þess að það er alveg ljóst að lögin gera ráð fyrir því að heimilt sé að taka gjöld fyrir leikskóladvöl og löggjafinn er því í raun og veru að segja að það sé eitthvað sem sé ásættanlegt og þar með er gefin út ákveðin lína því löggjafinn ber jú ábyrgð á löggjöfinni.

Hitt er svo annað mál að með eins stórt verkefni og leikskólann og hugsanlegt gjaldfrelsi í honum er þá á umræðan, að mínu mati, auðvitað að fara fram á sveitarstjórnarstigi og hefur sannarlega gert það og sveitarfélögin hafa verið í forustu í umræðum um leikskólamálin og leikskólastigið og eiga að sjálfsögðu að vera það. Það breytir ekki því að hér er um stórt verkefni að ræða sem ég hygg að þeim sé mjög erfitt að taka yfir eða að gera leikskólann að fullu gjaldfrjálsan — a.m.k. ef það á að vera almenna reglan yfir öll sveitarfélög landsins — án þess að það verði gert með fjárhagslegri þátttöku ríkisvaldsins. Mér er mjög kunnugt um það vegna þess að sjálfur kom ég að þessum málum á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur, ég vann að því í ágætu samstarfi við flokksfélaga hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur að hefja gjaldfrjálsan leikskóla. Að sjálfsögðu gerðum við okkur grein fyrir því að það væri jafnvel fyrir Reykjavík, sem er tiltölulega sterkt sveitarfélag, býsna stór biti og fyrir smærri sveitarfélög það alveg áreiðanlega. Ég veit að við fengum það viðhorf frá mörgum sveitarfélögum að við værum að ryðja braut sem öðrum yrði ófært að koma á eftir. Það er auðvitað ekki gott og því held ég að það verði ekki hægt að koma þessu á almennt öðruvísi en að ríkisvaldið komi þar að málum og hefði gjarnan viljað sjá það gerast í þessu frumvarpi sem nú er til afgreiðslu og vek athygli á breytingartillögu frá Kolbrúnu Halldórsdóttur einmitt þar að lútandi.