Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 13:57:03 (7693)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[13:57]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að ung börn séu frædd um arf okkar hver sem hann er. Í tilviki okkar Íslendinga er hann kristilegur. Minnst var á ásatrúna, að víkingarnir hefðu upphaflega komið með hana. Ég vil minna á að mjög stuttu eftir landnám tókum við kristni, árið 1000, og hún er þjóðararfur okkar.

Við ræðum oft um það hvernig koma eigi í veg fyrir fordóma. Ég held að það sé langbest að uppfræða börn og ungmenni og þar sem rætur okkar liggja í kristninni — hún hefur verið lútersk í u.þ.b. 500 ár, er eðlilegt að tekið sé mið af því.

Mannréttindi nútímans eru fyrst og fremst sprottin út af kristnu siðgæði. Engin önnur trúarbrögð geta státað sig af því. Einnig má bæta því við að ekki var gerða krafa um — í upphaflega frumvarpinu var rætt um að taka yrði tillit til þess fjölmenningarsamfélags sem Ísland er að verða. Ég held að það sé rétt. En hins vegar eru 90% allra innflytjenda kristinnar trúar og þá spyr maður sig: Af hverju að breyta einhverju sem enginn hefur sérstakan áhuga að sé breytt og er í rauninni ekki til hagsbóta fyrir einn né neinn? Ég vona að ég hafi svarað spurningunni.