Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 14:01:25 (7695)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:01]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Árni Þór Sigurðsson séum svona 99% sammála um þetta. Auðvitað þarf uppfræðslan alltaf að eiga sér stað. Við þurfum að halda uppi umræðu hvort sem hún er um trúmál eða innflytjendur eða hvað það er sem beinist að þjóðinni á hverjum tíma.

Hv. þingmaður sagði: Kærleikurinn umber allt. Við erum umburðarlynd þjóð. Við erum líka friðelskandi þjóð og hér er best að búa og mestur friðurinn. Ég tel að það sé kannski vegna þess að okkur hefur lánast í trú okkar og kirkju að hún sé fyrir alla alltaf. Svo að ég taki það sem dæmi — það er nú kannski ekki alveg það sem hv. þingmaður var að fjalla um — þá hefur þjóðkirkjan okkar veitt öllum, sama hvaða trúar þeir eru, aðgang að þjónustu sinni sem ég tel að sé til mikillar fyrirmyndar.

Það er alveg rétt að við megum ekki bara horfa á okkar eigin hagsmuni. Þá vil ég benda á að það áttu sér stað svipaðar umræður í breska þinginu. Þar var þingmaður sem var hindúatrúar, ef ég man rétt. Hann varaði einmitt við því að svona ákvæði um kristið siðgæði skyldi tekið þar út úr lögum vegna þess að hann sagði að það væru einfaldlega aðrar þjóðir í heiminum að berjast fyrir því að fá sömu mannréttindi og við Evrópubúar erum svo lánsöm að eiga.