Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 14:08:24 (7700)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:08]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 2. umr. frumvarp til laga um leikskóla sem er eitt fjögurra frumvarpa um menntamál sem liggja fyrir til umræðu í dag. Mig langar að fara í nokkrum orðum yfir þetta frumvarp en vil í upphafi máls míns taka undir þakkir til nefndarmanna, formanns nefndarinnar og einnig til nefndarritara fyrir sérlega gott samstarf. Nefndarritari á sérlegar þakkir skyldar fyrir vel framsett og skilmerkileg gögn.

Frumvarpið til laga um leikskóla er metnaðarfullt. Það er rammalöggjöf um leikskólann eins og frumvarp um skóla eiga að vera. Það tekur á flestum þáttum sem snúa að starfi innan leikskólans og festir í sessi að leikskólinn er fyrsta skólastig án þess þó að um skólaskyldu sé að ræða.

Það er skýrt um markmið leikskólans í 2. mgr. og stjórnskipun skólans er einnig klár samkvæmt frumvarpinu. Ég vil þó ítreka hér vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað hjá hv. þingmönnum á undan, m.a. varðandi gjaldtöku og gjaldfrelsi, að sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri leikskólans og það hlýtur að vera þeirra að taka þá ákvörðun sem að því lýtur.

Við þekkjum það að sums staðar hafa sveitarfélög ákveðið að stíga það skref að fella niður gjöld af einstökum aldurshópum innan leikskólans, veita systkinaafslátt o.s.frv., hvert eftir sínu eigin höfði. Ákveði löggjafinn að taka það skref, að binda eigi í lög að leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls, þá tel ég að fyrr þurfi að fara fram umræða á milli sveitarstjórnarmanna og ríkisins um það með hvaða hætti fjármunir eru þá fluttir frá ríkinu ef til þess kemur. Það er grundvallaratriði en ekki að binda það í lög og ætla síðan að fara í umræðu um verðmæti þess sem um ræðir.

Það er svo aftur annað mál hvort allir séu því sammála að þetta skólastig eigi að vera gjaldfrjálst. Fyrst tel ég mikilvægt að hægt sé að bjóða öllum börnum á þessum aldri, tveggja til sex ára, upp á leikskólavist í flestum sveitarfélögum áður en við veltum fyrir okkur hvort leikskólar skuli vera gjaldfrjálsir. Það skiptir máli. Leikskólastigið skiptir máli. Þar fer fram mjög virkt og skapandi starf, starf sem er vert að skoða og færa þá starfshætti sem gilda í leikskólum inn í yngstu bekki grunnskólans sem víða er verið að gera. Það skiptir meginmáli í mínum huga í þessari umræðu allri um skólamál að virða hvert skólastig og það frelsi sem skólastigin hafa og það sem þar fer fram.

Ég vil gera tvennt að sérstöku umræðuefni hér hvað varðar þetta frumvarp: Það er annars vegar mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs og síðan sérfræðiþjónusta við börn á leikskóla. Ég held að það sé afar mikilvægt sem sett er inn í þetta frumvarp í VII. kafla um mat og eftirlit, bæði hvað varðar markmiðin í 17. gr. og innra matið í 18. gr. og ytra mat í 19. gr. Það sem ég hef í huga hér er að þetta mat muni skila sér í úrbótum í hverjum og einum leikskóla, að spurt sé í hverjum skóla: Hvert er markmiðið? Hvert er starfið? Hvernig náum við markmiðum? Hvernig er líðan barna á leikskólum? Hvernig er líðan starfsfólks í þessu starfsumhverfi? Og nýti sér svo niðurstöðurnar til þess að vinna betur að innra starfi.

Hvað varðar ytra mat sveitarfélaganna þá þurfa sveitarfélögin einnig að vinna að því að gera gott skólastarf enn betra, hafi þau gert ytra mat. Ég hræðist ekki mat skólafólksins, barnanna og foreldranna eða sveitarfélaganna. Ég veit að á þessum stöðum er faglegt og gott starf unnið og sveitarfélögin eru metnaðarfull í því. Þau veita þar góða og ábyrga þjónustu.

Ég fagna því jafnframt sem fram kemur í þessum frumvörpum að hægt er nú að reka saman leikskóla og grunnskóla. Mér finnst það spennandi kostur. Það getur verið afar vænlegur kostur í mörgum minni sveitarfélögum á landsbyggðinni þó að stærri sveitarfélögin hér á suðvesturhorninu nýti sér það jafnvel frekar í þróunarskyni. Það gæti verið hagkvæmt fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni að fá formlegt leyfi löggjafans til þessa.

Það fylgja því margir kostir að geta rekið saman leikskóla og grunnskóla. Það er margt sem hvort stig getur lært af hinu og þannig ættu og gætu gagnvirk samskipti og aðferðir, kennsluaðferðir og nálgun endurspeglast, einkum á yngri stigum sem ég tel að sé til hagsbóta fyrir börnin í leikskólanum og nemendur í fyrstu bekkjum grunnskóla.

Ég fagna því sem hér kemur fram um skipulag sérfræðiþjónustunnar og framkvæmd hennar af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi er það hlutverk leikskólastjórans að samhæfa þá sérfræðiþjónustu sem þau börn sem á leikskólanum eru þurfa á að halda. Það er afar mikilvægt hvort heldur er um sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins að ræða eða sérfræðiþjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Það er afar mikilvægt að sérfræðiþjónustan sé á hendi leikskólastjórans þannig að þjálfunin fari fram í vinnutíma barnsins, ef við getum orðað það svo, en ekki utan þess tíma sem barnið dvelur í leikskólanum.

Í mörgum tilvikum er hægt að veita þá þjónustu innan leikskólans og það er æskilegt að svo sé. Það getur í ýmsum tilvikum einfaldlega verið betra að þjónustan sé veitt utan leikskólans, séu aðstæður í sveitarfélögunum með þeim hætti. Það er þá leikskólastjórans að samræma og stilla strengi þannig að það sé innan leikskólans og hluti af því starfi sem þar fer fram.

Virðulegi forseti. Ég vil einnig láta í ljós ánægju mína með 29. gr. þar sem um er að ræða þróunarskólana. Það er afar spennandi verkefni. Það hefur svo sem verið þannig í gegnum tíðina að skólar hafa verið nefndir þróunarskólar og farið hefur fram mjög öflugt þróunarstarf í leikskólastarfi vítt og breitt um landið þar sem ólíkar stefnur eru og ólík nálgun.

Þar hefur oftar en ekki komið að hinn sjálfstæði leikskóli eða hinn einkarekni leikskóli sem er nú alltaf dálítið skondið orð. Hann er rekinn af einhverjum öðrum en fær fjármuni frá sveitarfélaginu þannig að þetta er frekar einhvers konar samrekstur. En hvað um það. Það eru mörg spennandi verkefni í þeim skólum og má þar nefna líklegast fremstan ágætan frumkvöðul, Margréti Pálu, sem rekur Hjallastefnuna vítt og breitt um landið, ef svo mætti að orði komast og stefnan jafnframt komin inn á grunnskólastigið.

Hæstv. forseti. Þetta leikskólafrumvarp er að mínu mati spennandi. Það er hluti af fjórum metnaðarfullum frumvörpum sem hér eru til umræðu. Ég lýsi ánægju minni með leikskólafrumvarpið og fagna því að það er fram komið.