Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 14:18:31 (7701)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni eitthvað á þá leið að hún teldi mikilvægara að tryggja öllum börnum pláss á leikskóla en að gera leikskólastigið gjaldfrjálst.

Þetta er alveg sjónarmið sem hv. þingmaður getur fært rök fyrir. Mér finnst mikilvægt að við fáum að heyra aðeins nánar um þetta vegna þeirra breytingartillagna sem ég flyt hér við þetta frumvarp og umræðunnar sem nú þegar hefur átt sér stað um þá hugmynd að gera leikskólastigið gjaldfrjálst.

Ég kom að því í máli mínu að það væri verulegt ójafnræði sem foreldrar byggju við hvað þetta varðaði. Samkvæmt fréttum núna í þessari viku getur það munað gríðarlega háum upphæðum hvað foreldrar þurfa að greiða meira fyrir börnin sín á leikskólum í sveitarfélögum úti á landi en í sveitarfélögum hér á þéttbýlissvæðinu.

Okkur sem tölum fyrir gjaldfrjálsum leikskóla finnst óviðunandi að þetta ójafnræði þurfi að ríkja. Ég vil því gjarnan heyra hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með okkur, að það sé og eigi að vera sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að finna leið til þess að gera leikskólastigið gjaldfrjálst.

Í öðru lagi held ég að hv. þingmaður þurfi aðeins að átta sig líka á því að Hjallastefnan, sem er frábær hugmynd sem náð hefur mikilli og skemmtilegri útbreiðslu vítt og breitt um landið, er þess eðlis að hana er auðvitað alveg hægt að reka sem uppeldisstefnu innan hins opinbera kerfis. Eða er hv. þingmaður mér ósammála um það?