Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 14:26:00 (7705)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:26]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að víkja hér að öðru máli sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gat um í ræðu sinni sem varðar 29. gr. frumvarpsins og þróunarleikskóla þar sem hún fjallaði m.a. um að hún teldi það mjög jákvætt mál að efna til þróunarleikskóla með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég vil síst gera lítið úr því. Ég tel að það sé einmitt mikilvægt að styrkja þróunarstarf og efla það enn frekar í leikskólum.

Ég vil samt geta þess að mér finnst ekki mega gleyma því að um langt skeið hefur farið fram mjög öflugt þróunarstarf á vettvangi leikskólanna. Settir hafa verið fjármunir bæði af hálfu ríkisins og sveitarfélaganna til þess að fara í þróunarvinnu í leikskólum og einstakir leikskólar hafa sett upp þróunarverkefni, ákveðnar stefnur sem þeir hafa aðhyllst og innleitt þær. Slíkt hefur verið til staðar í leikskólunum um langt skeið án þess að það hafi verið sérstaklega fjallað um það í leikskólalögum undir heitinu þróunarleikskólar.

Kennarasamband Íslands og Félag leikskólakennara fjalla einmitt um þetta mál þar sem þau vekja m.a. máls á því að hingað til hafi lagaramminn alls ekki komið í veg fyrir að til séu skólar sem geti kallast þróunarleikskólar þó að þeir hafi ekki beinlínis gert það að lögum. Vísað er til þess að greinargerðin gefi ekki vísbendingar um nauðsyn þessa heldur leggja félögin beinlínis til að þessi grein verði felld út.

Mig langar bara að heyra af þessu tilefni hvaða umræða fór fram um þetta mál á vettvangi nefndarinnar og hvernig Kennarasamtökin gerðu þá grein fyrir sjónarmiðum sínum. Hvaða sjónarmið höfðu nefndarmenn varðandi þetta atriði og hvað telja menn að fáist til viðbótar með þessari grein við það sem hefur verið í dag?