Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 14:34:38 (7710)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:34]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka eingöngu það sem ég sagði áðan um gjaldfrjálsan leikskóla, að áður en sú umræða verði tekin eða sett í lög að slíkt verði gert, þá fari fram umræða á sveitarstjórnarstiginu og við ríkið um hvað pakkinn kostar. Við munum það sjálfsagt mörg þegar grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaganna og því fylgdu fjármunir kom í ljós, og margir ræddu það réttilega eða ranglega, að ekki hefði fylgt nægilegt fjármagn við yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna á þeim tíma. Þess vegna tel ég að kostnaðargreina þurfi alla þessa þætti áður en fest er í lög að leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls. Ég tel að þar þurfi að byrja. Ég er hins vegar ein þeirra sem ekki hafa gert upp hug sinn, eins og ég sagði áðan, vegna þess að ég er ekki alltaf á því að þjónusta eigi að vera gjaldfrjáls fyrir einstaklinga. Ég held að menn þurfi að velta þessu töluvert fyrir sér og skoða með hvaða hætti og þá af hverju og setja þetta kannski í annað og meira samhengi.

Sveitarfélögin hafa rætt það að innra og ytra mat kunni að hafa í för með sér kostnaðarauka. Það verður einfaldlega að koma í ljós, en ég bendi á að innra mat leikskólanna er fyrir hendi og mörg sveitarfélög eru með ytra mat einnig þannig að mörg þeirra eru ágætlega í stakk búin til að taka enn frekar við því verkefni sem hér á að setja í lög.