Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 14:39:15 (7713)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér afar mikilvægt viðfangsefni sem er leikaskólahald í landinu og löggjöf um það og þetta er fyrsta málið af nokkrum sem hér eru undir á dagskrá þessa vorþings og varða skólamál. Það er að sjálfsögðu strax til bóta að ræða þetta nú aðskilið en ekki í einni spyrðu eins og gert var við 1. umr. málsins og gefst þá rýmri tími til þess að tala um hvert skólastig fyrir sig. Það er nú þannig að upphafið veldur miklu, það skiptir geysilega miklu máli hvernig til tekst strax í fyrstu skrefunum þegar ungt fólk er að þroskast og leggja af stað út í lífið og leikskólinn er að mörgu leyti ein allra mikilvægasta undirstaða velferðarsamfélags okkar og uppeldis- og menntakerfis.

Ég get að sjálfsögðu tekið undir allt sem kom fram í máli talsmanns okkar, Kolbrúnar Halldórsdóttur, og styð þær breytingartillögur sem hún flytur og eru í anda okkar stefnu, að sjálfsögðu. Við höfum tekið málefni leikskólans mjög upp á okkar arma alveg frá stofnun flokksins Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og settum á dagskrá í íslenskum stjórnmálum gjaldfrelsi leikskóladvalar með myndugum hætti, sérstaklega með áherslum okkar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga árið 2002 og síðan aftur í alþingiskosningum ári síðar og eftirleiðis. Þegar við hófum þessa baráttu tóku kannski ekki margir undir með okkur, a.m.k. ekki í stjórnmálaheiminum, og það voru fyrst og fremst leikskólakennarar og samtök þeirra sem lögðust strax á þessa sveif og höfðu haft þau sjónarmið uppi áður og vissulega ber að geta þess að í einstöku sveitarfélögum höfðu stöku sveitarstjórnarmenn reifað svipaðar hugmyndir en ég held að það verði ekki frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tekið að við vorum fyrsti flokkurinn og lengi sá eini sem hafði þetta sem einart stefnumál og börðumst fyrir því að fyrsta skólastigið, leikskólinn, ætti að sjálfsögðu að vera gjaldfrjáls rétt eins og það sem við tekur, grunnskólinn.

Ég vil segja, m.a. vegna umræðunnar áðan, að ég held að það eigi að snúa því við og færa sönnunarbyrðina yfir á þá sem ætla að reyna að halda því fram að gjaldtaka sé eðlileg. Hvers vegna í ósköpunum ætti gjaldtaka að vera eðlileg og réttlætanleg í leikskóla — þó að vissulega sé þar ekki um skyldunám að ræða — en síðan ekki til staðar í grunnskóla? Er það ekki ankannalegt að fjölskyldur borgi hundruð þúsunda á ári fyrir leikskóladvöl barna en síðan falli gjöldin niður þegar þau koma upp í grunnskólann? Hvort tveggja er verkefni sveitarfélaganna og þar af leiðandi eru rökin ekki fólgin í því, að mínu mati, að það varði einhvern sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga sérstaklega að mega ákveða gjaldtöku í leikskólunum, hvað þau ekki mega að lögum í grunnskólanum. Auðvitað er það hið opinbera, löggjafinn, sem mótar útlínur menntastefnunnar og uppeldisstefnunnar og setur um það lög og að sjálfsögðu er það einfaldlega pólitískt ákvörðunaratriði hvort löggjafinn kýs að ganga þannig frá málum að þessi mikilvæga undirstöðuþjónusta skuli standa fjölskyldunum í landinu til boða án gjaldtöku. Að sjálfsögðu fylgja því síðan breytingar eða það hefur afleiðingar, það verður að skilgreina rétt foreldranna, jafnræði þeirra í þessum efnum og skyldur sveitarfélaganna þar með og þessu fylgja útgjöld. Það höfum við aldrei dregið neina dul á, enda frá upphafi lagt málið þannig upp að hér hljóti að þurfa að verða um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga að ræða.

Ég held reyndar að hv. þingmaður sem hér var í andsvari áðan hafi kannski verið aðeins of svartsýnn þegar hann áætlaði kostnaðinn í þessum efnum. Þegar við fluttum tillögu okkar um gjaldfrjálsan leikskóla, einu sinni sem oftar, sem reyndar heitir Samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla, og uppfærðum upplýsingar í greinargerð, síðast þegar hún var flutt á árinu 2006–2007 studdumst við við niðurstöður úr endurskoðuðum ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2004 sem þá lágu fyrir, þá er þar upplýst að kostnaður við rekstur leikskóla í landinu nam 11,8 milljörðum á árinu 2004 og upp í það komu tekjur gegnum leikskólagjöld upp á 3,3 milljarða. Þetta rímar nokkuð vel við þetta hlutfall sem hefur verið rokkandi á milli 25 og 35% af því sem foreldrarnir greiða.

Nú er augljóst að þessar tölur hafa hækkað, þjónustan hefur aukist, fólki hefur fjölgað og það hafa verið byggðir nýir leikskólar þannig að við getum gróft áætlað að þessi tala sé nú komin í 15 eða sennilega upp fyrir 15 milljarða og leikskólagjöldin þá væntanlega 4–4,5 milljarðar, eitthvað af þeirri stærðargráðu. Það væri þá spurningin um bitann sem menn væru þarna að axla eða byrðina, það er sem sagt það sem kemur inn í tekjur, því að öðru leyti er rekstur leikskólanna auðvitað gjaldfrjáls í þeim skilningi að hann er að stærstum hluta nú þegar borgaður af tekjum sveitarfélaga en ekki borinn uppi af notendagjöldum eða þjónustugjöldum, hvað sem við köllum það nú.

Við höfum bent á leiðir í þessum efnum eins og hér kom fram, t.d. þær að ríkið taki að sér greiðslu húsaleigubóta. Fyrir því eru bæði kostnaðarleg rök, að ríkið taki við því verkefni, sveitarfélögin axli þessa skyldu í staðinn að hafa leikskólann gjaldfrjálsan, en það eru líka pólitísk rök fyrir því. Við teljum að stuðningur við húsbyggjendur og leigjendur eigi að vera á einum stað og á einni hendi í samræmdum húsnæðisbótum, í skattkerfinu, þannig að vaxtabætur og húsaleigubætur færist saman undir einn hatt og verði stórauknar. Við skulum hafa það í huga að það verður að sjálfsögðu líka að meta metnað manna til þess að veita þessa þjónustu og hve umfangsmikil hún á að vera og af hvaða gæðum.

Það er þannig að frá því að hreyfing fór að komast á þessi mál upp úr aldamótunum og þegar við settum þetta á dagskrá á árunum 2001–2002 hefur orðið mjög ánægjuleg þróun í þessum efnum og fjölmargir leikskólar í landinu eru núna gjaldfrjálsir, t.d. fjögurra til sex tíma dvöl á síðasta árinu. Það er orðið mjög víða, hér í Reykjavík og víðar, að umtalsverður afsláttur er nú veittur af leikskólagjöldunum, t.d. á síðasta árinu, og gleðilega litu fyrstu alfrjálsu leikskólarnir dagsins ljós fyrir um tveimur árum síðan þegar Súðavíkurhreppur reið á vaðið og gerði sinn leikskóla gjaldfrjálsan.

Það er út af fyrir sig hárrétt sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir hér, þetta er verkefni sveitarfélaganna, þó að það sé ekki skylduverkefni, ef ég veit rétt, en það er óumdeilt að það er á þeirra verksviði og eðlilega að sjálfsögðu, annað kemur ekki til álita. Það eru ýmsir kostir við t.d. samþættingu leikskóla- og grunnskólahaldsins, það er jákvætt skref stigið í þessu frumvarpi í þá átt að gera slíkt betur mögulegt. Það má auðvitað færa sömu rök fyrir t.d. samþættingu grunnskóla- og tónlistarskólahalds sem sums staðar er gert með glæsilegum árangri, t.d. á Húsavík þar sem tónlistarskólinn er til húsa inni í grunnskólanum og það er auðvitað það albesta fyrirkomulag sem fyrirfinnst.

Ég geri því ekkert lítið úr því að það er mikilvægt að sveitarfélögin séu hér í forsvari og að þetta sé allt saman unnið með þeim eða á þeirra forsendum, en ég ætla að segja hitt að það er ekki heldur gott að undirstöðuvelferðarþjónusta af þessu tagi sé veitt á eitthvað mjög mismunandi forsendum hvað varðar gjaldtöku eða aðgengi eða gæði þjónustunnar í landinu. Það er mjög óheppilegt og það er gallinn við að hafa hluti af þessu tagi um of ákvarðaða á hverjum einstökum stað en í of litlum mæli að stefnan sé fastmótuð og bundin í lög.

Ég get nefnt þar dæmi, víti til varnaðar. Það var þegar mönnum voru svo mislagðar hendur við upptöku húsleigubótakerfisins á sínum tíma að það var valkvætt fyrir sveitarfélögin hvort þau greiddu húsaleigubætur eða ekki. Auðvitað varð það smátt og smátt óþolandi ástand og óþolandi mismunun sem af því hlaust að sum sveitarfélög tóku upp húsleigubætur en önnur ekki í byrjun. Þetta er víti til að varast og við skulum ekki láta slíkt henda okkur í þessum efnum. Þess vegna er það svo gríðarlega mikilvægt að menn haldi áfram baráttunni fyrir gjaldfrjálsum leikskóla vegna þess að það er besta tryggingin fyrir því að allir sitji við sama borð og fái sömu þjónustuna alls staðar í landinu. Þá þarf að sjálfsögðu að koma til móts við sveitarfélögin með nægjanlegum tekjum — þarf þess auðvitað hvort sem er vegna núverandi verkefna þeirra — og það er ekki ofvaxið greiðslugetu þjóðarbúsins að þessu leyti að fella niður þessa gjaldtöku upp á eitthvað sem ég giska á að séu núna 4–4,5 milljarðar kr. og standa undir því með sameiginlegum tekjum sem nú eru til staðar fyrir ríki og sveitarfélög í landinu sem þau mundu þá skipta milli sín á nýjum forsendum í ljósi þessa.

Hugum bara að fréttum undanfarinna daga. Ég ætla nú bara fyrir kurteisi sakir — og kannski af því að í báðum tilvikum er um sveitarfélög í mínu kjördæmi að ræða — að sleppa nöfnunum enda skipta þau ekki máli, en hugum bara að þeirri stöðu sem foreldrar eru settir í þegar í ljós kemur að vegna leikskóladvalar tveggja barna í ellefu mánuði á ári þurfi foreldrar að borga jafnvel tæpum 60 þús. kr. meira á mánuði en foreldrar annars staðar í landinu, talsvert á fjórða hundrað þús. kr. á ári, og það jafnvel í byggðarlögum þar sem við vitum að framfærslukostnaður er einnig hár, af öðrum ástæðum, þ.e. vöruverð er kannski hærra og síðan koma flutningskostnaður og ferðalög og margt sem fólk víða í byggðum landsins ber umfram þá sem njóta þjónustunnar t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það þarf ekki að fara svona langt, það þarf ekki að fara norður eða austur í land, herra forseti. Þegar við vorum að afla gagna í þingsályktunartillögu okkar á sínum tíma skoðaði ég gjaldskrár fyrir leikskóladvöl í allmörgum sveitarfélögum. Það þurfti ekki að fara lengra en suður í Reykjanesbæ til þess að sjá sláandi mun á gjaldskrám borið saman við Reykjavík þar sem gjaldskráin var mun flatari þar syðra og minni systkinaafslættir veittir. Það er sérstaklega hvað varðar að tekið sé til tillit til fjölskyldustærðarinnar sem mismununin læðist aftan að vegna þess að það má Reykjavíkurborg eiga og auðvitað fleiri sveitarfélög, mjög mörg, að þau hafa tekið nokkuð myndarlega á því og hafa myndarlega systkinaafslætti, þ.e. það er strax verulega minni gjaldtaka fyrir barn númer tvö og jafnvel sáralítil eða næstum engin fyrir barn númer þrjú. Þetta er sums staðar gert myndarlega en annars staðar hafa menn ekki gáð nógu vel að þessu og/eða ekki talið sig hafa efni á því, sem auðvitað gæti vel verið tilvikið og ég þykist einfaldlega vita að sé aðalástæðan hjá þeim sveitarfélögum sem nefnd hafa verið að undanförnu að þar hefur verið erfiður fjárhagur og menn hafa einfaldlega ekki talið sig í góðri aðstöðu til að fara neðar með þessa tekjustofna — sem þetta auðvitað eru — inn í rekstur sveitarfélaganna. Á þessu þarf að taka, þetta er þar með orðið að jafnréttismáli í landinu og spurningu um að mönnum standi til boða sambærileg þjónusta án tillits til búsetu.

Ég vil líka nefna enn annan þátt í þessu og taka þar undir orð sem hér féllu áðan. Ég hygg að það hafi verið hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, talsmaður okkar, sem vék að því að það er auðvitað staðreynd að það eru fjölskyldur hundruðum og jafnvel þúsundum saman í þessu landi sem veigra sér við eða beinlínis verða að neita sér um að senda börnin sín á leikskóla af efnahagsástæðum. Það liggur alveg fyrir enda þarf ekki annað en að skoða þessar tölur til að sjá að það eru ekkert allar fjölskyldur sem reiða fram þessa fjármuni, 40 til 60 þús. kr. á mánuði eða jafnvel meira bara sisvona. Það kallar á tekjur upp á eitthvað á annað hundruð þús. kr. á mánuði þegar búið er að greiða af þeim skatta, að standa bara undir leikskólagjöldunum í hverjum einasta mánuði. Ég er ekki í neinum vafa um það, enda þykist ég muna rétt, að það hafi komið fram í könnunum að það er t.d. einn hópur þarna sem við þurfum að huga sérstaklega að og sá sem síst skyldi og síst má við því að hafa ekki efni á að senda börnin sín í leikskóla og það eru innflytjendur eða nýir Íslendingar. Hafi einhver börn virkilega þörf fyrir það að komast í samneyti við önnur börn og taka þar að hluta til út málþroska sinn, fá þá fræðslu og þjálfun sem í leikskólunum er veitt eru það ekki síst þessi börn, hygg ég, og það er því náttúrlega alveg sérlega meinlegt ef af kostnaðarástæðum svo er ekki.

Maður heyrir sögur um, þó að það sé alltaf leiðinlegt að ræða slíka hluti í einhverjum gróusögustíl, að reknir séu hálfgildings leikskólar inni á heimilum þar sem safnað er saman börnum frá nokkrum fjölskyldum sem eru í tengslum eða kunnugar og þar séu þau í einhvers konar dagvistun, þó að auðvitað geti verið allt í besta lagi með það í sjálfu sér þá er það alveg augljóst mál að það er ekki það sama og að blanda geði við önnur börn og fá þá fræðslu, örvun og þjálfun og öðlast þá færni sem leikskólinn með glæsilegum árangri almennt hjálpar til við í uppeldi og þroska barna okkar. Hafi ég ekki sagt það áður vil ég fá að segja það sem foreldri að mín reynsla af leikskólum, sem auðvitað hefur fyrst og fremst verið hér í Reykjavíkurborg, er glæsileg. Ég tel að þetta sé starf af afar háum gæðum og unnið og veitt af miklum metnaði, þessi þjónusta, almennt talað og að við höfum verið mjög gæfusöm í þeim efnum Íslendingar. Það hefur verið lítið um áföll, ef svo má að orði komast, enda eftirlit gott og almennt reynt að fyrirbyggja að það verði slys í þessu efni.

Ég sakna þess svolítið, herra forseti, að hafa ekki heyrt meira um gjaldfrelsisþáttinn frá talsmönnum Samfylkingarinnar. Nú er forseti að vísu í þeim hópi en situr í forsetastóli og á ekki hægt um vik. Ég verð nefnilega að fá að segja það — og hv. formaður nefndarinnar getur kannski upplýst okkur hér og hjálpað til í umræðunni með það — að ég sakna þess mjög, mér finnst það eiginlega dapurlegt að þess skuli ekki sjást stað með einhverjum hætti hér í málinu og auðvitað þá líka í fjárlögum eða með öðrum hætti, að Samfylkingin hafi a.m.k. sýnt lit í að standa við kosningaloforð sín í þessum efnum. (SKK: Ég get nú ekki svarað fyrir það.) Ja, hv. þingmaður getur upplýst okkur um það hvort fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni hafi barist þar með kjafti og klóm fyrir því að fá gjaldfrelsisákvæði inn í frumvarpið, það á ekki að vera neitt ríkisleyndarmál. Hér er annar nefndarmaður viðstaddur sem hristir hausinn og það veldur mér þá enn meiri vonbrigðum ef það er til staðfestingar á því að svo hafi ekki verið, einfaldlega vegna þess að Samfylkingin — og það var vel — gekk í lið með okkur á árunum eftir 2002–2003, svona í ákveðnum skrefum og tók smátt og smátt undir áherslur okkar um að leikskólinn ætti að vera gjaldfrjáls. Þess má sjá stað t.d. í samþykkt á landsfundi Samfylkingarinnar 14. apríl 2007 þegar hún gekk frá kosningaáherslum sínum. Á forsíðu plaggsins, stjórnmálaályktunarinnar, stendur, herra forseti, með leyfi:

„Samfylkingin vill stuðla að gjaldfrjálsri menntun frá leikskóla að háskóla. Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu“ o.s.frv.

Hvorugt hefur verið efnt og það er öllu alvarlegra að þess sér engan stað hér í stjórnarfrumvarpi um málið á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar að Samfylkingin ætli að reyna að setja mark sitt á þetta með einhverjum hætti. Hvar er skírskotunin til gjaldfrelsis eða a.m.k. aukins gjaldfrelsis í þessu frumvarpi sem hér er flutt og á að fara að afgreiða á ábyrgð Samfylkingarinnar sem stjórnarfrumvarp þó að flutt sé af ráðherra Sjálfstæðisflokksins? Ekki er það í gjaldtökugreininni sérstaklega nema síður sé. — Ég get róað hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur með því að ég er hér aðeins að ræða um kosningaáherslur Samfylkingarinnar þannig að hv. þingmaður þarf ekki að hafa stórar áhyggjur.

Í velferðarstefnu sinni segir Samfylkingin meira að segja að skólamáltíðirnar eigi að vera ókeypis, væntanlega þá í leikskólanum, eða hvað? Hlýtur að vera. Hvar eru þá áherslurnar í þessu frumvarpi, hvar er framtíðin boðuð í þeim efnum að Samfylkingin ætli að setja mark sitt á þetta? Voru slíkar efnahagsþrengingar þegar verið var að ganga frá fjárlögum eða taka þetta frumvarp hér inn í þingið? Vall ekki út úr ríkissjóði peningur á síðasta ári og menn lokuðu fjárlögunum með gríðarlegum afgangi, bókhaldslegum að vísu — sem er nú sýnd veiði en ekki gefin — á þessu ári? Ekki getur það verið fyrir fátæktar sakir og eymdar ríkissjóðs sem þess sér engan stað að Samfylkingin ætli að þoka þessu máli eitthvað áfram. Það eru mikil vonbrigði því hér gefst tækifæri til þess þegar verið er að endurskoða og setja nýja heildarlöggjöf um leikskólastigið.

Auðvitað áttu þá að koma þar inn einhvers konar áherslur að lágmarki, einhvers konar skírskotun, einhvers konar vísun í átt til gjaldfrelsis þó að það væri ekki allt í höfn í einu. Eða lét Samfylkingin þetta bara falt, gafst hún bara upp? Var það þá Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð á móti því eða var kannski ekki einu sinni reynt? Þetta eru allt saman brennandi spurningar, herra forseti, sem óhjákvæmilegt er að fá svör við í þessari umræðu.