Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 15:31:12 (7720)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:31]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð var við að hv. þm. Einar Már Sigurðarson kveinkar sér undan því að vakin sé athygli á því að ekki er fjallað um gjaldfrjálsan leikskóla eða nein skref í þá átt í frumvarpinu sem hér er til umræðu. Það er eðlilegt að við höfum tekið þetta sérstaklega upp og fjallað um það. Þingmaðurinn getur ekki kvartað undan því. Þetta eru málefnalegar ástæður fyrir því. Þetta eru málefni sem þingflokkur okkar hefur flutt hér í þinginu á nokkrum undanförnum þingum og ber þau fyrir brjósti. Við höfum stuðlað að þeim þar sem við höfum haft tök á í sveitarstjórnum eins og hér hefur verið bent á. Samfylkingin hefur líka gert það í sveitarstjórnum, m.a. í samstarfi við okkur og sett fram í kosningastefnuskrá.

Við söknum þess að Samfylkingin skuli ekki að minnsta kosti með einhverjum hætti hafa komið inn á þetta mál nú þegar um er að ræða heildarendurskoðun á því og að farið verði að undirbúa slíkt mál. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, nefndi hér t.d. að ráðherra sveitarstjórnarmála sem kemur úr röðum Samfylkingarinnar hefði að minnsta kosti getað gefið einhverja yfirlýsingu um að farið yrði í samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga, að einhver nefnd hefði það með höndum að skoða kosti þess og galla, kostnað o.s.frv. En ekkert slíkt er á ferðinni.

Það er þetta sem við söknum og það eru málefnalegar ástæður sem við færum hér fram. Það er engin sýndarmennska af okkar hálfu. Þetta er mál sem við berum mjög fyrir brjósti og höfum fært fyrir því ágætis rök. Ég held að innst inni sé enginn ágreiningur um þau mál milli okkar, mín og hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar. Hann kýs bara við þessar aðstæður að fylgja þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið og ég skil alveg stöðu hans í þessu máli. (Forseti hringir.)