Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 16:06:47 (7728)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Nú þykir mér vera að færast fjör í leikinn. Hv. þm. Guðni Ágústsson kemur hér inn á mjög veigamikil atriði sem skipta verulegu máli í þessari umræðu, matvælalöggjöfin kemur líka upp í hugann og við eigum auðvitað eftir að ræða áfram um hollustufæði og hollustu.

Þar sem tími minn er knappur, hæstv. forseti, ætla ég að vinda mér í það sem ég á eftir að fjalla um í síðari ræðu minni. Það er auðvitað mjög mikilvægt að umræðan sem hér fer fram fari á spjöld þingsögunnar því að við erum að ræða um mjög miklar breytingar á skólakerfinu. Leikskólafrumvarpið gerir ráð fyrir mjög miklum breytingum á leikskólakerfinu, við erum að tala um skólastig þar sem vinna á sjötta þúsund starfsmenn við uppeldi og menntun barnanna okkar í u.þ.b. 270 leikskólum vítt og breitt um landið og þeim fjölgar stöðugt, þannig að við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað hér er nálægt okkur sem snertir marga, hér er um að ræða hluta af grunnþörfum samfélagsins.

Í þeim töluðu orðum kemur auðvitað upp í hugann að nú er það svo að það er mjög erfitt að setja rammalöggjöf, eins og umrædd löggjöf er, ef hún á að ná til allra. Það sem ég hef sérstakar áhyggjur af í þessu frumvarpi eru fötluð börn. Mér þykir vanta talsvert upp á að réttinda þeirra sé gætt svo nægilegt geti talist. Í því sambandi langar mig til að vitna hér til umsagna sem við fengum í menntamálanefnd, annars vegar umsagnar frá Öryrkjabandalagi Íslands og hins vegar frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Ég tel mjög mikilvægt að breytingartillögur sem ég hef lagt fram á þingskjali sem ég talaði fyrir fyrr í dag nái fram að ganga hvað þetta varðar.

Öryrkjabandalag Íslands segir að það veki sérstaka athygli að það sé ekki að finna sérstakan kafla í frumvarpinu sem fjalli um réttindi nemenda í leikskóla, t.d. nemendur með sérþarfir og nemendur með annað móðurmál en íslensku. Úr þessu reyni ég að bæta í breytingartillögum mínum. Sömuleiðis nefnir Öryrkjabandalagið sérstaklega mikilvægi þess að réttinda heyrnarlausra barna sem tala táknmál og eiga það sem fyrsta mál eða móðurmál, að réttinda þeirra sé verulega gætt. Miðað við þá reynslu sem Öryrkjabandalagið segir vera af núgildandi lögum og af aðalnámskrá leikskóla þá tryggi þau ekki rétt heyrnarlausra barna til máls og hefur málþroski þeirra á táknmáli ekki náð að uppfylla það viðmið sem gengið er út frá að heyrnarlausir nemendur hafi náð við upphaf skólagöngu í grunnskóla og fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla.

Undir þetta tekur Samskiptamiðstöð heyrnarlausra. Í umsögn þeirra kemur fram að staða barna sem tala táknmál og eiga það sem sitt fyrsta mál eða móðurmál sé afar ólík stöðu allra annarra barna og mikil hætta er á að máltaka þeirra verði veik ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir og að réttur þeirra til máls sé skýlaust tryggður. Það er dregið sérstaklega fram í dagsljósið í þessari umsögn að börnin sem um ræðir eiga í flestum tilfellum ekki foreldra eða fjölskyldu sem talar þeirra eigið mál heldur eiga þau foreldra eða fjölskyldu sem talar íslensku. Það þarf að huga sérstaklega vel að þessum börnum vegna þess að við erum ekki að tala um réttindi umfram aðra heldur lágmarksréttindi. Þegar heyrnarlaus börn hefja grunnskólanám er gert ráð fyrir því að þau hafi náð ákveðinni færni í táknmáli og námskrá grunnskólans byggir á því að börnin hafi fengið eðlilega málþróun og málörvun á leikskólaaldrinum því að í grunnskóla er táknmál kennslumál barnanna. Til þess að tryggja þetta þegar upp í grunnskólann er komið verðum við að breyta þessu atriði í leikskólafrumvarpinu. Það þarf að tryggja að máltaka og málþroski heyrnarlausra barna í leikskólum sé með þeim hætti að þeim sé sköpuð samfella á milli leikskólastigsins og grunnskólastigsins hvað þetta varðar. Þetta verður ekki of oft undirstrikað, hæstv. forseti.

Mig langar líka til að gera hér að umtalsefni minnisblað sem menntamálanefnd var að berast frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Nú hefur Samband ísl. sveitarfélaga kynnt sér breytingartillögurnar sem liggja fyrir hér á skjölum og nokkrar breytingartillagnanna valda sambandinu ákveðnum áhyggjum og sambandið gerir athugasemdir til nefndarinnar, annars vegar um 6. gr. og hins vegar um sérfræðiþjónustuna og húsnæði leikskóla. Þar er verið að tala 21., 22. gr. og 12. gr. Það sem sambandið hefur mestar áhyggjur af hvað þetta varðar eru auknar skyldur sem menntamálanefnd leggur með breytingartillögum sínum á sveitarfélögin að þjónusta við fötluð börn fari fram innan leikskólans. Sveitarfélögin hafa áhyggjur af því að þetta geti verið íþyngjandi fyrir sveitarfélögin, geti verið of mikill kostnaðarauki og það geti verið sérstaklega erfitt fyrir smærri sveitarfélög að uppfylla þessar skyldur.

Ég vil segja það hér að menntamálanefnd er sér meðvituð um nákvæmlega þessa þætti sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur áhyggjur af. Við gerum okkur grein fyrir því að það verður erfitt fyrir öll sveitarfélögin að uppfylla þessa skyldu en ég tel algjörlega ljóst, og það var einhugur um það í menntamálanefndinni, að það yrði að tala skýrt í lagatextanum — eins og raunar hefur verið gert í lagatexta hingað til — til þess að sveitarfélög og félagsþjónusta sveitarfélaga átti sig á því hvað það er sem löggjafinn vill sjá í umhverfi fatlaðra barna og foreldra þeirra. Við teljum ekki ásættanlegt, eða öllu heldur svo ég segi þetta nú kannski með jákvæðum formerkjum, við teljum eðlilegt að allt sé gert til þess að auðvelda foreldrum fatlaðra og fötluðum börnum skólagöngu. Eitt af því er að tryggja að sú meðferð sem börnin þurfa og sú aðstoð sem fötluð börn þurfa til þess að geta nýtt sér allt það nám sem til boða stendur og allan þann leik sem til boða stendur sé það að meðferðin og námið fari eins og frekast er kostur fram á einum stað. Í öllu falli, ef hluti þjónustunnar þarf að fara fram á öðrum stað en í leikskólanum þurfi sveitarfélög og félagsþjónusta að finna leiðir til þess að tryggja að séð sé fyrir flutningi viðkomandi barns, akstri, sem er þá á vegum félagsþjónustunnar eða leikskólakerfisins.

Auðvitað þurfa sveitarfélög og ríki að tala saman um þessa þjónustu. Auðvitað þurfa menn að koma sér saman um það þannig að sveitarfélög geti tryggt þetta umhverfi sem menntamálanefnd er svo einhuga um að þurfi að tryggja. Þetta langar mig til að segja varðandi athugasemdirnar sem koma frá sveitarfélögunum núna um breytingartillögurnar, sem auðvitað er mjög fínt að fá á þessu stigi og við getum tekið þær til skoðunar hér við 2. umr. og mögulegt er að málin verði tekin aftur inn í nefndina milli 2. og 3. umr. og þá verði hægt að koma þeim sjónarmiðum sem sveitarfélögin hafa sent okkur sérstaklega á framfæri.

Þá vil ég nefna hér, hæstv. forseti, að við höfum fengið ábendingar um það frá Félagi leikskólakennara að það sé bagalegt í fleiri en einu tilliti á hvern hátt greinargerðin í frumvarpinu stangast á við ákveðin ákvæði í frumvarpinu sjálfu. Það mun hafa gerst þannig að eftir að nefndin sem samdi frumvarpið skilaði af sér voru gerðar talsverðar breytingar á frumvarpinu í menntamálaráðuneytinu. Þær breytingar margar speglast hins vegar ekki í greinargerðinni. Þetta er auðvitað hvimleitt og þetta er ekki samkvæmt þeim reglum sem við höfum gefið út um vandaða meðferð eða vandaða samningu lagafrumvarpa og ég minni hér á nýútkomna handbók um lagafrumvörp og hvernig eigi að bera sig að við að semja slík skjöl. Þetta frumvarp er ekki eitt af þeim vandaðri sem hafa komið hingað inn og það er auðvitað nöturlegt að þurfa að láta benda sér á það mikla ósamræmi, því að það er talsvert mikið ósamræmi á milli greinargerðarinnar og ákveðinna hluta í frumvarpstextanum sjálfum.

Hæstv. forseti. Enn er ég að renna út á tíma, tími minn leyfir sem sé ekki að ég fari náið ofan í þau atriði sem hér um ræðir. Kannski get ég gert það í fimm mínútna ræðunum sem ég á eftir eða kannski koma einhverjir aðrir nefndarmenn og gera frekar grein fyrir þeim. En þetta er eitthvað sem við lagatæknilega og sem löggjafi verðum að átta okkur á að ræður okkar hér eru lögskýringargögn og til þeirra kann að verða vitnað ef það verður einhver ágreiningur um framkvæmd þessara laga. Þess vegna er mikilvægt að við þessa umræðu komi fram sem víðust skírskotun og þau atriði sem skipta hér verulegu máli séu nefnd. Auðvitað eru þau eðli málsins samkvæmt mörg í jafnviðamiklu máli og hér um ræðir.

Hæstv. forseti. Ég segi ekki mikið meira á tveimur sekúndum (Forseti hringir.) en boða endurkomu mína í ræðustól í fimm mínútna ræðu.