Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 17:53:15 (7740)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[17:53]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langaði að leggja örfá orð í belg um það frumvarp sem við ræðum hér, leikskólafrumvarpið, og tjá mig aðeins um stefnu Framsóknarflokksins í því máli. Það hafa fleiri gert hér en mig langar að koma inn á nokkur önnur atriði í leiðinni.

Við höfum lagt mjög mikla áherslu á skóla án aðgreiningar og hefur sérstaklega verið komið inn á það í ályktun okkar um menntakerfið sem við samþykktum á flokksþingi í febrúar á síðasta ári. Við höfum líka undirstrikað að skólaskyldan eigi að hefjast við fimm ára aldur, við höfum viljað efla menntun sérkennara og einnig höfum við talað um að tryggja þurfi nemendum með annað móðurmál en íslensku kennslu í íslensku allt frá leikskóla og aðlögun að íslensku samfélagi — ég tel það mjög mikilvægt og mun koma betur inn á það síðar.

Í ályktun okkar um leikskólastigið segir að markmiðið sé að leikskólinn sé fyrsta skólastigið og eigi að vera uppeldis- og menntastofnun þar sem börn þroskist og læri í starfi og leik. Leikskólarnir eigi að starfa með þarfir nemenda sinna og samfélagsins að leiðarljósi og mikilvægt sé að tryggja öllum börnum aðgang að gjaldfrjálsri kennslu en talsvert hefur verið komið inn á það hér í ræðum annarra þingmanna.

Varðandi leiðir hefur Framsóknarflokkurinn nokkra punkta fram að færa. Fyrsti punkturinn er sá að skólaskyldan hefjist við fimm ára aldur í leikskóla. Annað áhersluatriði er að gjaldfrjáls kennsla í leikskóla fylgi skólaskyldu fimm ára barna, það sé fyrsta þrepið. Í þriðja lagi að koma á aukinni samvinnu leikskólakennara og kennara í yngri deildum grunnskóla. Í fjórða lagi að auka hlutfall fagmenntaðra starfsmanna á leikskólum en verið er að stíga skref í þá átt með frumvarpi sem verður rætt síðar á þessum fundi. Í síðasta punktinum er talað um að auk leikskólakennara skuli gefa íþrótta-, tónmennta- og listkennurum tækifæri til að vinna í leikskóla.

Að lokum segir í ályktun Framsóknarflokksins um leikskólastigið að fyrstu skrefin séu þau að ríkið hefji viðræður við sveitarfélög um gjaldfrjálsan leikskóla og að settar verði skýrari reglur um hvernig samstarfi kennara milli skólastiga geti verið háttað. Í þessari stefnu kemur skýrt fram að það er markmið Framsóknarflokksins til framtíðar að leikskólinn verði gjaldfrjáls, að það sé það markmið sem við viljum ná í framtíðinni. Að sjálfsögðu mun það kosta fjármuni að koma því á og því eðlilegt að farið verði í viðræður við sveitarfélögin um hvernig þrepa eigi slíkt inn. Það er ljóst að ríkið þarf væntanlega að taka á sig greiðslur í því sambandi.

Við teljum eðlilegt að leikskólinn sé gjaldfrjáls eins og grunnskólinn og framhaldsskólinn eru í dag, þetta sé bara skólastig eins og þau skólastig eru í dag. Það yrðu þá almennir skattar sem mundu bera uppi slíkt skólastarf í framtíðinni. Ég tel að það sé tímaspursmál hvenær þetta skref verður stigið. Nánast öll börn eru á leikskóla, það er nútíminn, og þau eru langflest í langri vistun, þ.e. í fullri vistun, eru allan daginn. Foreldrar eru á vinnumarkaði, yfirleitt báðir foreldrar, og konur hafa mælst í mjög háu hlutfalli á vinnumarkaði. Nútíminn er bara þannig að leikskólastigið er að verða eins og almennt skólastig í landinu.

Mig langar í þessari ræðu að geta um reynslu Norðmanna varðandi leikskólann, af því að framsóknarmenn hafa sérstaklega ályktað um að tryggja eigi nemendum með annað móðurmál en íslensku kennslu í íslensku allt frá leikskóla og aðlögun að íslensku samfélagi. Það er mjög mikilvægt fyrir nýbúa sem koma hingað til lands að þetta sé undirstrikað. Í leikskólanum gefst afar gott tækifæri til að sinna góðu uppeldi gagnvart börnum og það tækifæri eigum við alveg sérstaklega að nýta gagnvart börnum nýbúa, hlúa vel að því. Börn eru mjög fær í tungumálanámi á leikskólaaldrinum, málþroski þeirra er þannig.

Í Noregi, þar sem ég þekki talsvert til, hefur þetta verið mjög til umræðu varðandi börn nýbúa og leikskólastigið. Í Noregi var á sínum tíma tekin ákvörðun um að greiða foreldrum sérstaklega fyrir það ef börnin komust ekki inn á leikskóla. Foreldrar fengu þá heimagreiðslur og voru þá heima, langoftast móðirin, með börn sín í íbúðinni eða húsinu þar sem viðkomandi fjölskylda bjó. Börnin fóru mun minna út til að hitta önnur börn, norsk börn, og til að ræða við þau og voru ekkert í leikskólanum, þau voru heima. Þetta var sett á á sínum tíma í Noregi vegna þess að það var biðlisti eftir því að komast inn á leikskóla. Norðmenn höfðu ekki byggt upp nógu marga leikskóla þannig að biðlistinn var langur. Þetta var svar norskra stjórnmálamanna við þessum biðlista. Foreldrunum sem voru heima með börnin var borgað þar sem leikskólar höfðu ekki verið byggðir nógu hratt.

Runnið hafa tvær grímur á Norðmenn með þessa stefnu. Reyndin er sú að því miður hefur allt of stór hluti nýbúabarna verið heima í litlum tengslum við norskt samfélag að öðru leyti og þau hafa ekki fengið að þroska mál sitt á norsku eins og þau börn nýbúa sem hafa farið í leikskólann. Nú eru Norðmenn að velta því fyrir sér að taka þessar greiðslur af og reyna að koma öllum, þá líka börnum nýbúa, inn á leikskólana þar sem þau geta þá samlagast jafnöldrum sínum og lært góða norsku. Tungumálið er undirstaða þess að geta verið virkur þátttakandi í samfélagi þó að aldrei sé hægt að gera kröfu um að allir tali einhverja fullkomna innlenda mállýsku í hverju tilviki fyrir sig, það er bara útópía að halda því fram. En tungumálið skiptir alla vega geysilega miklu máli þannig að Norðmenn eru að hverfa frá þessu og hafa verið að reyna að vanda sig upp á síðkastið við að reyna að byggja upp leikskóla til að geta tekið á móti börnum nýbúa í auknum mæli og eru að ræða um að taka þessar greiðslur út.

Ég held að þetta sé líka mjög mikilvægt fyrir okkur. Hlutfall nýbúa í samfélaginu hefur verið vaxandi og ég tel að það sé af hinu góða. Við berum ríkar skyldur gagnvart því að gera nýbúum kleift að taka þátt í samfélaginu. Háar greiðslur fyrir leikskólastigið geta haft áhrif á að fjölskyldur, þar á meðal nýbúafjölskyldur, setji ekki börn sín á leikskóla. Því mæla afar mörg rök með því að leikskólastigið verði gjaldfrjálst í framtíðinni og að því vill Framsóknarflokkurinn stefna. Við gerum okkur, eins og ég sagði áðan, grein fyrir því að slíkt kostar fjármagn. Líklega kostar þetta engar sligandi upphæðir ef horft er á hlutina í heildarsamhengi varðandi fjárlög ríkisins. Það væri miklu eðlilegra að hafa það þannig að þessir stóru hópar sem eru á stofnunum — leikskólar eru auðvitað stofnanir eins og venjulegir grunnskólar og framhaldsskólar — fái að vera þar gjaldfrjálst. Það yrði þá greitt fyrir það í gegnum almenna skattkerfið að fá að vera virkur þátttakandi á þessum uppeldisstofnunum sem nútímasamfélag byggist á og við teljum að eðlilegt sé að það byggi á. Það er ljóst að við munum ekki fara til baka í gamla tímann á næstu árum og áratugum, við munum ekki sjá þróun í þá átt að börnum á leikskóla fækki, ég held að það sé algjörlega útilokað. Þróunin er einmitt í hina áttina, fleiri og fleiri börn eru á leikskóla og þau eru lengri og lengri tíma, þ.e. þau eru jafnlengi og foreldrarnir eru að vinna.

Ég vildi undirstrika það, virðulegur forseti, að mörg rök eru fyrir því að leikskólinn verði gjaldfrjáls og framsóknarmenn vilja stefna að því.