Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 20:12:28 (7752)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[20:12]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til laga um grunnskóla. Við unnum þar með tillögur frá nefnd sem vann frumvarpið upphaflega. Reyndar var því svo lítillega breytt en ég held að það sé áríðandi að halda því til haga að það var samkomulag um það í nefnd sem Guðrún Ebba Ólafsdóttir stýrði og var formaður fyrir, nefnd sem skipuð var Gerði Óskarsdóttur, Jóni Kr. Sólnes, tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Unnari Þór Böðvarssyni og Þórði Árna Hjaltested, tilnefndum af Kennarasambandinu, og Maríu Kristínu Gylfadóttur, tilnefndri af Heimili og skóla. Þetta var sú nefnd sem vann grunninn að frumvarpinu á sínum tíma og síðan tók menntamálanefnd við. Að vísu voru gerðar örlitlar breytingar, sérstaklega í sambandi við réttarstöðu, kæruleiðir og ýmislegt annað, frá því að nefndin skilaði og þangað til það kom til nefndarinnar. Og þegar rætt er um málnotkun í frumvarpinu og annað þess háttar held ég að vert sé að það komist til skila að það var unnið á löngum tíma og það eru þá aðeins viðbæturnar núna sem við höfum haft skemmri tíma til að skoða textann sérstaklega.

Það ber líka að skoða að þetta lagafrumvarp er uppfærsla á eldri lögum. Það eru lög frá 1955 sem við byggjum á, heildarendurskoðun á lögunum. Síðan hafa verið gerðar ýmsar breytingar og m.a. það ákvæði sem var til umræðu áðan, um stjórnsýsluréttinn hvað varðar skóla sem eru sjálfstætt reknir eftir samningum frá sveitarfélögum. Ég held að það ákvæði hafi komið inn 1. janúar 2007. Kannski skýrir það að skýrslan sem hér var unnin eða réttara sagt sú ritgerð sem nefnd var áðan, hafi e.t.v. byggt á gögnum sem voru frá því fyrir þann tíma, a.m.k. ef ritgerðinni hefur verið skilað 2007 þá er það ekki ólíklegt. Þetta verður væntanlega skýrt á milli 2. og 3. umr. og við getum þá áttað okkur betur á því. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að auðvitað er mjög mikilvægt ef gerðir eru samningar um að skólar séu reknir af sjálfseignarstofnunum eða öðrum aðilum, að um þá gildi sömu lög og reglur og réttindi sem gilda almennt um grunnskóla í landinu. Að öðrum kosti á það rekstrarform ekki rétt á sér.

Í þeim lögum sem verða sett núna og það sem er meginhugmyndafræðin á bak við þau er verið að skerpa nemendaréttinn, og það er mjög jákvætt, og skerpa skyldur nemenda og foreldra og mér sýnist það hafa tekist. Það er líka verið að auka sveigjanleikann og sérstaklega skilin á milli skólastiga. Bæði með þessu frumvarpi og líka frumvarpi um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, sem kemur síðar til umræðu í þinginu, er kveðið á um sambærilega lengd náms kennara í skólum. Gert er ráð fyrir fimm ára námi eða meistaragráðu og það opnar á að það verði meira flæði á milli kennslu á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólastigi sem ég tel vera mjög jákvætt og það er einmitt andi laganna. Það er líka andi þeirra breytinga sem hafa verið í gangi á undanförnum nokkrum árum í grunnskólakerfinu að þar skapist betri sveigjanleiki á milli leikskóla og grunnskóla. Þar hafa verið unnin mjög myndarlega verkefni sem eru kölluð „Brúum bilið“ sem hafa m.a. tekið á því. Síðan hefur samstarf líka verið aukið og það er opnað á skilin á milli grunnskóla og framhaldsskóla í þessum frumvörpum öllum. Þar voru orðin nokkur vandkvæði vegna þess að framhaldsskólarnir voru farnir að sækja nemendur inn í grunnskólann og þar voru ekki skýr ákvæði um með hvaða hætti grunnskóla skyldi lokið. Tekið er á því í frumvarpinu að það eru skólastjórar sem útskrifa nemendur. Það má gera með styttra námi en tíu árum í undantekningartilfellum enda hafi nemendur þá sýnt fram á að þeir hafi kunnáttu og færni til að ljúka náminu með þeim hætti en það er skólastjórinn sem útskrifar nemendur og þeir fá pappíra um það til að fara með inn á framhaldsskólastigið. En þetta var orðið þannig að nemendur hoppuðu gjarnan yfir 10. bekk og framhaldsskólarnir voru í samkeppni um að sækja þangað nemendur.

Í þessu frumvarpi er líka myndarlegur kafli þar sem fjallað er um innra og ytra mat. Sjálfur hef ég haft ákveðnar efasemdir um ytra mat og hef oft tjáð mig um það á opinberum vettvangi vegna þess að jafngott og það getur verið getur það haft hættu í för með sér. Ég rökstyð það yfirleitt með því að segja í stuttu máli að ytra mat megi aldrei verða eftirlitskerfi eða eitthvert kerfi sem kemur utan frá svipað og hið konunglega mat í Bretlandi þar sem koma utanaðkomandi aðilar sem gera úttekt á skólunum á kannski vikutíma, skólinn er meira og minna settur upp til að líta vel út fyrir matið og undirbúinn undir það. Um þetta eru skrifaðar stórar og miklar skýrslur og síðan er nánast ekkert meira gert með það annað en að skólinn er dæmdur góður eða slakur. Allt matskerfi á auðvitað að hafa það að markmiði að vera leiðbeinandi og gagnrýnið til að bæta kennsluna með hagsmuni nemenda í huga. Það á ytra matið einnig að vera og það skiptir mjög miklu máli að þetta ytra mat sé þannig að reynt sé að afla upplýsinga og fá samanburðarupplýsingar í sambandi við skóla sem skólinn getur nýtt sér í sinni eigin gagnrýni.

Til að slíkt mat sé gagnlegt þarf það að vera opinbert, þ.e. það þarf að birta það einhvers staðar og þannig hefur það raunar verið með innra mat í skólum. Í flestum skólum sem hafa tekið það upp og eru komnir með skipuleg kerfi eru unnar matsáætlanir og síðan er því fylgt eftir með því að gera skýrslur um hvað þurfi betur að fara og því svo fylgt eftir með framkvæmdaáætlunum og síðan er reynt að meta það hvort menn hafi náð því sem þeir ætluðu sér. Þannig á það að vera og inni á neti skólans, heimasíðum eða með öðrum hætti skal matið kynnt þannig að foreldrar geti fylgst með að hverju er stefnt á hverjum tíma. Þetta ytra mat á fyrst og fremst að vera um það hvort menn standi við það sem þeir hafa sjálfir sett sér og það sem lög kveða á um.

Í frumvarpinu er kveðið á um að skila eigi hinum og þessum upplýsingum til ráðuneytisins. Það er mýkt í meðförum nefndarinnar einfaldlega vegna þess að það hefur takmarkað gildi að safna upplýsingum í ráðuneytinu ef ekkert er unnið úr þeim og ekkert með þær gert. Því er reynt að milda það ákvæði og það ekki haft eins afdráttarlaust um leið og tekið er fram að það sé mjög mikilvægt að skólasamfélagið, sveitarfélögin og ríki sammælist um hvaða upplýsingar eigi að halda utan um eins og hvað varðar nemendafjölda, samsetningu nemendahópsins, hugsanlega einhverjar slíkar almennar upplýsingar sem geta myndað tölfræði fyrir okkur. En það verður að segjast eins og er að oft er verið að birta tölur sem byggja ekki á mjög góðum grunni, t.d. hafa menn stundum verið að reyna að telja tímafjölda í einstökum námsgreinum, jafnvel í skólum sem eru með samþætta kennslu og kenna ekki íslensku í sérstökum tímum heldur í bland við aðra kennslu. Ég fagna því að minnka eigi þessar upplýsingasendingar eða réttara sagt að það eru fyrirheit um að tekið verði á því hvaða upplýsingum er safnað og að eingöngu sé safnað þeim upplýsingum sem á að vinna úr og nýta í sambandi við upplýsingagjöf fyrir landsmenn alla og skólasamfélagið sérstaklega.

Tengt þessu mati eru auðvitað samræmdu prófin. Þau eru lögð af í þessu frumvarpi og gert ráð fyrir könnunarprófum í 10. bekk. Könnunarprófum sem eru í 4. og 7. bekk er haldið inni og ég er sjálfur mjög hlynntur því, ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir skóla að fá samræmdar upplýsingar um það hvernig mál ganga. Gallinn við 10. bekkjar prófin var sá að að þau voru orðin ansi stýrandi og þrátt fyrir ákvæði um að vera ætti val í skólum um allt að þriðjung stundaskrár létu menn það gjarnan víkja, val í list- og verkgreinum, til að geta náð betri árangri í þessum samræmdu prófum og í þeim samanburði sem oftast fylgdi af hálfu fjölmiðla. Í sjálfu sér voru prófin ekki vandamálið heldur notkun upplýsinga sem prófin gáfu. Þarna hefur verið horft til þess og það kemur fram í umfjöllun um framhaldsskólafrumvarpið, held ég, að menn hafi aðeins horft til þess að uppi hafa verið hugmyndir um að reyna að vinna matskerfi á netinu þar sem hægt væri að leggja fyrir nemendur ákveðin færnipróf og kunnáttupróf til að kanna stöðu þeirra þannig að þetta mat geti orðið einstaklingsmiðaðra og hægt sé að ljúka ákveðnum áföngum á mismunandi tíma, þ.e. hver og einn nemandi. Því ber að fagna og það á auðvitað að vinna áfram að því að slíkt sé hægt í þeim greinum þar sem það á við.

Einn af stóru köflunum í þessum breytingum, og það er líka styrkt í umfjöllun nefndarinnar, er sérfræði- og stoðþjónustan, þetta markmið sem skóli án aðgreiningar er í allri lagasetningunni, þar sem komið er til móts við þörf aukinnar sérfræðiþjónustu. Skilgreiningin var víkkuð út, það hafa verið svolítil vandamál með skilgreiningar, sérstaklega á ADHD-nemendunum sem falla ekki undir lög um málefni fatlaðra. Þarna er það afdráttarlaust tekið með að vinna á með börn með þroskahömlun og þá sem falla undir þessi ákvæði. Það er líka reynt að taka af skarið í kaflanum að vitna til alþjóðasamþykkta. Ég tel mjög brýnt að við reynum að fylgja því eftir að sú vinna sem fer fram í skólum taki mið af mannréttindayfirlýsingum, barnasáttmálum og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra.

Þá er líka mjög skýrt ákvæði um að reynt sé að hafa þjónustu við fatlaða og þá sem þurfa sérþjónustu innan skólans. Menn gerðu athugasemdir við það og það kom fram í umræðunni að það yrði ekki alltaf hægt. Þurfi nemendur að sækja þjónustu annars staðar í þjálfun, eins og iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun eða annað slíkt, verði reynt að koma því svo fyrir að það falli inn í stundaskrá og reynt að sjá fyrir flutningi að og frá slíkri þjónustu ef hún er í tengslum við skólann, þannig að ekki sé um að ræða viðbótarkostnað eða fyrirhöfn fyrir foreldra í sambandi við það.

Hér er líka getið um að það hafi verið vandamál varðandi börn sem vistuð eru á fósturheimilum um landið. Það eru til samtök fósturforeldra og þau vöktu athygli á því, og það er lagfært í tillögunum í frumvarpinu, að tryggja þurfi þegar börn fara í fóstur á önnur svæði að skólar geti ekki neitað þeim um kennslu. Það eru einhver dæmi um þetta, menn hafa borið fyrir sig að fagþekkingu skorti eða að peninga vanti. Reynt er að taka á því að slíkt sé ekki hægt og eins því ef forræði barna er skipt og foreldrarnir búa hvort á sínum staðnum og börn geta þurft að sækja skóla á tveimur stöðum að þá sé tryggt að þau fái skólaþjónustu.

Ýmis önnur ákvæði koma fram í þessu frumvarpi og í sjálfu sér er ekki ástæða til að fara mjög ítarlega yfir þau. Ég held að í heildina sé góð sátt um frumvarpið þó að fram séu komnar nokkrar breytingartillögur. Ég sé að hér er talað um að bæta við og halda inni kristinfræði og trúarbragðafræði. Ég tel alveg nóg að tala um trúarbragðafræði vegna þess að mér finnst það vera óþarfa hógværð ef menn telja kristni ekki með trúarbragðafræðinni. Þegar menn voru að ræða um í fyrri tillögunum, það er nú verið að breyta því aftur, að taka út kristið siðgæði var hugmyndin að hindra að menn stundi trúboð í skólum sem er þó óvíða ef nokkurs staðar gert. En ég held að það sé ástæða til að gæta þess að skilja á milli þess að veita upplýsingar, veita fræðslu, kenna kristin gildi og menningu, það er alveg sjálfsagt í grunnskólanum en það þýðir ekki að við getum boðað trú í fjölþjóðasamfélagi, enda held ég að enginn hafi uppi hugmyndir um slíkt. Ég tel enga ástæðu til að nefna þarna kristinfræði sérstaklega, ég tel afdráttarlaust að trúarbragðafræði fjalli einnig um kristnina.

Það kemur fram í breytingartillögum, m.a. frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að verið er að skerpa á starfs- og námsráðgjöf og fleiri atriðum sem hv. þingmaður gerði grein fyrir áðan. Mér sýnist fátt af þessu vera afgerandi breytingar og sumt af því beinn misskilningur. Mig langar aðeins, ef hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kemur aftur í ræðustól, en hún var með fullyrðingar um að þessi nýju lög hvettu til breytts rekstrarforms, að hún benti á hvaða ákvæði um rekstrarform hafi bæst við í þessu lagafrumvarpi sem ekki voru áður í lögunum. Ég held að þær breytingar sem hv. þingmaður vitnar til hafi verið gerðar á síðasta ári, 2007, og í framkvæmd höfum við fylgst með hvernig Hjallastefnan hefur unnið og fleiri skólaform sem hér hafa verið við lýði, m.a. var Landakotsskóli nefndur. Það hafa ekki verið neinar hugmyndir uppi um að leggja þessi form af og það eru engar viðbótarheimildir í þeim breytingum sem hér eru gerðar frá því sem var í lögunum áður. Mér finnst mikilvægt að því sé haldið til haga þannig að ekki sé verið að gefa í skyn að verið sé að bæta við heimildum um einkaskóla.

Að öðru leyti fagna ég því að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Ég tel sjálfur að grunnskólar á Íslandi séu í afar háum gæðaflokki og hafi ýmis sérkenni sem erlendir skólar hafa ekki. Oft er horft um of á svokallaðan námsárangur og þá til mjög þröngra skilgreininga. Við búum við skólakerfi sem elur upp afar myndarleg dugleg og góð börn en það má alltaf gera betur. Hér er reynt að bregðast við breyttum aðstæðum í samfélaginu, skerpa lögin, taka á ýmsum nýjum þáttum, skilgreina skyldurnar betur, bæði fyrir nemendur og foreldra, styrkja matskerfið og eftirlitskerfið að hluta og ég held að þetta standi allt til bóta.