Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 20:28:07 (7753)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[20:28]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það ber að taka undir með þeim sem hér hafa talað að á endanum ríkti nokkuð víðtæk sátt um meginatriði þess frumvarps sem hér ræðir um, um grunnskóla. Það er ástæða til þess að þakka formanni menntamálanefndar, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, fyrir mjög góða vinnu í sambandi við frumvarpið og lipurð að afgreiða þau mörgu ágreiningsmál sem upp komu þó að ekki tækist að jafna þau að öllu leyti.

Það liggur hins vegar fyrir sameiginlegt nefndarálit frá menntamálanefnd um meginatriði þess frumvarps sem hér er um að ræða og breytingartillögur við það. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur fyrirvara og flytur breytingartillögur og jafnframt er hv. þm. Höskuldur Þórhallsson með fyrirvara. Ég stend með honum varðandi þær breytingartillögur sem við gerum sameiginlega, þ.e. að í 2. mgr. 25. gr. komi kristinfræði inn í en ég mun lýsa því sérstaklega síðar. Af því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er nú kominn í salinn ætla ég að ítreka þakkir til hans sem formanns menntamálanefndar fyrir lipurð í störfum við að koma frumvarpinu í það form sem hér um ræðir.

Ég vil aðeins vísa til þess sem sett var upp sem athugasemdir við frumvarp þetta sem ég tel vera meginatriði sem hafa verður í huga. Það er það að börnum á skólaskyldualdri séu búnar kjöraðstæður til náms og þroska og grunnskólar komi til móts við ólíkar þarfir barna. Ábyrgð allra er að grunnskólastarfi koma sé skýr og sköpuð séu skilyrði til að mæta kröfum um þekkingu og færni nemenda og menntun þeirra standist alþjóðlegan samanburð.

Hér er talað um að sköpuð séu skilyrði fyrir því að móta fjölbreytilegt nám. Kjöraðstæður skulu vera til náms og þroska og taka skal tillit til ólíkra þarfa. Þrátt fyrir að við séum með ákveðin meginatriði er samt sem áður verið að gefa einstaklingsbundið svigrúm vegna þess að við erum ekki öll steypt í sama mót. Við erum mismunandi einstaklingar, höfum mismunandi þarfir, mismunandi langanir og það ber að taka tillit til þeirra sjónarmiða.

Það er hins vegar mikilvægt í nútímaþjóðfélagi að allir geti notið ákveðinnar grunnmenntunar, fái ákveðna uppfræðslu, ákveðna menntun sem þeir geta búið að og til þess að geta verið og starfað í þjóðfélaginu. Þetta eru að mínu viti gríðarlega mikilvæg atriði taka tillit til. Þau eru ákveðinn grunnur að því sem ég mun víkja hér að síðar varðandi þá breytingartillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni.

Áður en að því kemur vil ég aðeins víkja að greinum í IV. kafla frumvarpsins sem varðar nemendur, þ.e. rétt nemenda og ábyrgð og síðan grein varðandi nemendur með sérþarfir. Það er undirstrikað að grunnskólinn er vinnustaður nemenda og allir nemendur grunnskóla eigi rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi, eins og það er orðað.

Í þeim breytingartillögum sem menntamálanefnd leggur fram segir að nemendur eigi rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er. Þarna skilgreinum við almennan rétt nemenda þar sem nemandinn hefur möguleika á að koma með athugasemdir og það ber að taka tillit til sjónarmiða nemandans. Þetta verður að hafa í huga. Það má að sjálfsögðu skýra með sama hætti að taka verður tillit til sjónarmiða forráðamanna viðkomandi nemenda þegar um slíkt er að ræða.

Þetta verður að hafa í huga þegar við komum síðan inn á lagaskýringar varðandi kristindómsfræðslu og þann norska dóm sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vék að í framsöguræðu sinni fyrir frumvarpinu. Ég get að mörgu leyti get tekið undir með honum en er ekki algjörlega sammála þeim lögfræðilegu niðurstöðum sem hann dró af þeim norska dómi sem hann vísaði til og ég mun víkja að því frekar á eftir.

En þetta ber að undirstrika og jafnframt það sem kemur fram sem meginatriði í 14. gr. frumvarpsins, að nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri o.s.frv. Þetta er líka atriði sem skiptir verulegu máli og jafnframt 17. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um að nemendur eigi rétt á því að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskólum án ágreinings, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Þessi sjónarmið eru meginatriði. Hafa verður þetta í huga þegar metin eru að öðru leyti önnur atriði sem koma til skoðunar varðandi frumvarpið.

Varðandi 2. gr. frumvarpsins, markmið, þá kom upp ágreiningur um með hvaða hætti það skyldi vera. Um það var fjallað að ekki skyldi vísað til kristilegra gilda í frumvarpinu og var það ekki gert þegar það var lagt fram af hálfu menntamálaráðherra. Fram kom breytingartillaga frá menntamálanefnd þar sem 2. málsliður 1. mgr. er umorðaður þannig:

Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti og lýðræðislegu samstarfi.

Ég féllst á að þetta orðalag yrði tekið inn til málamiðlunar og fannst það í sjálfu sér koma vel til móts við sjónarmið okkar sem töldum eðlilegt að vísa til kristinnar trúar sem mikilvægs atriðis sem inntak skólastarfs. Ég tel að það hafi tekist vel til varðandi orðalag á þessari grein, þ.e. 2. málslið 1. mgr., og sætti mig algjörlega við það.

Ég leyfi mér að vísa til þess að þegar hæstv. menntamálaráðherra fylgdi frumvarpi þessu úr hlaði á sínum tíma þá sagði hún, með leyfi forseta:

„Í skólum landsins á að fara fram fræðsla, uppeldi og menntun. Skólarnir okkar ganga út á það og það erum við sammála um. Hins vegar verður trúarbragðafræðsla að vera mjög sterk og öflug og við þurfum að kynna börnum okkar trúarbrögð. Þar leikur kristnin að mínu mati lykilhlutverk.“

Þetta sagði menntamálaráðherra þegar hún fylgdi þessu frumvarpi úr hlaði.

Ég er sammála menntamálaráðherra hvað þetta varðar vegna þess að við sem kristin þjóð í meira en þúsund ár — sú arfleifð og sá hlutur menningar okkar sem kristnin hefur í raun og fylgir þjóðmenningunni verða ekki aðskilin. Þetta er hluti sem við verðum og eigum að leggja rækt við. Fyrir utan þær siðfræðilegu og siðferðilegu skírskotanir sem um er að ræða þá skiptir miklu máli, til þess að ekki verði um að ræða rof í þekkingu á sögu og menningu þjóðarinnar, kristileg uppfræðsla og það er mikilvægt að menn viti hvað þar er verið að fjalla um.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og ég gerum tillögu um breytingu þannig að í 2 mgr. 25. gr. komi viðbót í námskrá þar sem rætt er um markmið náms, þar komi inn orðið kristinfræði. Vegna þeirrar lagaskýringar sem þar er um að ræða langar mig að vekja athygli á eftirfarandi orðum í 25. gr. sem fjallar almennt um aðalnámskrá. Þar segir: Skal kveðið á um meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms. Í greininni segir að öðru leyti: Nemendur skulu eiga þess kost að uppfylla námsmarkmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti. Ég vek athygli á þessu orðalagi. Nemendur skulu eiga þess kost að uppfylla námsmarkmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti.

Hvað er verið að segja hér? Það er verið að segja að ekki sé ætlast til að hverjum einasta nemanda beri skylda til þess í öllum tilvikum að uppfylla námsmarkmið einstakra námsgreina eða námssviða með sama hætti. Þegar jafnframt er talað um að setja skuli ákvæði um inntak og skipulag náms í lokamálsgrein 25. gr. um aðalnámskrá þá gerum við hv. þm. Höskuldur Þórhallsson þá breytingartillögu að inn komi orðið kristinfræði á eftir samfélagsgreinum og undan orðinu lífsleikni.

Af hverju vísum við til þess? Menntamálanefnd er sammála um að í 2. málslið 1. mgr. skuli talað um að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi, kærleika og kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Hvernig í ósköpunum eiga menn að vita um kristna arfleifð eða kunna skil á kristinni arfleifð ef þeir hafa enga möguleika á því að fá einhverja fræðslu í kristinfræði? Ég átta mig ekki á því hvernig það getur gerst og tel í raun að með breytingartillögunni sem menntamálanefnd gerir á 2. málslið 1. mgr. 2. gr. sé eiginlega sjálfsagt mál að samþykkja þá breytingartillögu sem við hv. þm. Höskuldur Þórhallsson leggjum til.

Í ræðu sinni vék hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, að þeim norska dómi sem hér hefur töluvert verið fjallað um og vísað til. Hann varð til þess að upphaflega var frumvarpið sett fram með þeim hætti af hálfu menntamálaráðherra að felld var út skírskotun til kristinna gilda eða kristilegrar siðfræði eða annarra slíkra hluta. Á sínum tíma var miðað við kristilegt siðgæði. Þar var talað um dóm Mannréttindadómstóls í Evrópu í málinu Folgerø og aðrir gegn Noregi. Í því máli voru málavextir þeir, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vísaði til, að í norskri námskrá fyrir grunnskóla vorið árið 1997 voru sameinaðar tvær greinar, kristinfræði og lífsleikni.

Það sem gerðist var að kærendur í málinu sem voru meðlimir í félagi húmanista í Noregi óskuðu eftir því að börn þeirra fengju undanþágu frá allri kennslu í þessari nýju kennslugrein og þeirri beiðni var hafnað. Beðið var um undanþágu en undanþágubeiðninni var hafnað. Foreldrarnir töldu að brotið hefði verið á sér og vísuðu til 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um hugsun, samvisku og trúfrelsi í 2. gr. og á það var fallist.

Ef um það hefði verið að ræða að beiðnin um undanþágu frá þessari almennu kennslu hefði verið samþykkt þá hefði í sjálfu sér ekki verið um brot að ræða. Þá hefði dómur mannréttindadómstólsins ekki verið með þeim hætti sem hann var.

Vísað er til þess í dómnum að jafna yrði ójafnvægi milli stöðu kristinna og annarra trúarbragða. Varðandi synjunina á undanþágunni tel ég — miðað við það sem ég hef rakið varðandi frumvarpið þar sem við undirstrikum möguleika einstaklingsins til þess að nálgast námið með þeim hætti sem honum hentar — að við séum í raun að opna á möguleikana á því að undanþágur frá ákveðnum greinum í aðalnámskrá séu virtar. Ég vísa aftur til þess sem segir varðandi 25. gr. í 1. mgr.:

Nemendur skulu eiga þess kost að uppfylla námsmarkmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti.

Ég tel því einsýnt að í öllum tilvikum mundi verða fallist á, eins og að veita undanþágu frá því að sækja t.d. nám í kristinfræðum eða námsgreinum þar sem einhverjar siðaskoðanir eða sjónarmið standa á móti því að viðkomandi forráðamaður eða nemandi vilji sinna því, þá mundi það verða gert á grundvelli þeirra meginreglna sem kveðið er á um í þessu grunnskólafrumvarpi. Ég get því ekki séð að það sé neitt sem hamli því eða sé andstætt að tekin séu inn þau orð sem við höfum vísað lagt til. Þvert á móti tel ég það mjög eðlilegt og í samræmi við það sem ég vísa hér til. Ekkert hefur komið fram sem sýnir fram á að það sé með einum eða öðrum hætti óréttmætt.

Einhver kann að spyrja: Er þá ekki eðlilegt að við tölum frekar um kristin- og trúarbragðafræði? Það kann vel að vera og ég er tilbúinn til þess að samþykkja að slík málamiðlun geti náð fram að ganga vegna þess að trúarbragðafræði hefur ekki bara skírskotun til trúarbragða. Hún skírskotar líka til mjög mikilvægara sjónarmiða varðandi almenna þekkingu, m.a. þekkingu á hugmyndafræði og heimspeki. Það má ekki aðskilja hvaða gildi og þýðingu það hefur fyrir einstakling og sérstaklega einstaklinga í grunnskóla að læra og tileinka sér óefnislega hugsun. Hugsun sem er mjög mörgum framandi ekki síst á þessum aldri sem að mínu viti getur orðið til þess að skerpa víðsýni og auka möguleika einstaklinganna til að bregðast við nýjum og ólíkum aðstæðum.

Þess vegna þætti mér alveg koma til greina að setja inn í 2. mgr. 25. gr. orðin kristin- og trúarbragðafræði. En breytingartillaga okkar hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar lýtur að þessum sjónarmiðum.

Ég tel tvímælalaust að kennsla í trúarbragðafræði og kristni skipti gríðarlega miklu máli og sé til þess fallin að efla skilning á sögu þjóðarinnar og til að skýra hvernig á því stendur að við höfum byggt upp eitt mannúðlegasta og besta samfélag í veröldinni. Það er vegna þess — og reyndar eins og fjallað er um í ákveðnu ágætu ensku dagblaði í dag sem vill að vísu þakka það að miklu leyti til konum í íslensku samfélagi. Því skal alls ekki mælt í mót og sennilega er meginatriðið það hversu íslenskar konur bera af öllum öðrum konum í veröldinni. Það er ekki spurning um það.

En hitt er líka sjónarmið að þær voru af keltneskum uppruna og báru því með sér þau kristilegu sjónarmið sem urðu til þess að þjóðin náði þeim fullþroska sem hún náði til þess að skapa mannvænsta og besta þjóðfélag í heimi.