Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 21:33:25 (7760)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[21:33]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Frumvarp það sem við fjöllum um núna er um grunnskóla og það mál sem mesta athygli hefur vakið, og ekki að ófyrirsynju, í umræðu um frumvarpið er spurningin um hina kristnu menningararfleifð og kristið siðgæði. Ég mun hér á næstu mínútum eingöngu fjalla um þann þátt málsins enda hefur mikið verið fjallað um önnur almenn atriði frumvarpsins. Ég get þar tekið undir orð flokksbróður míns og vinnufélaga, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, um þau atriði, sem lúta m.a. að umfjöllun um einstakar greinar, fæði í skólum og fleira sem þar er komið inn á og ég ætla ekki að orðlengja um.

Ég ætla eiginlega að halda áfram umræðunni þar sem ég skildi við hana í andsvörum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon varðandi hófsemina og trúarofstækið. Trúarofstækið birtist okkur nefnilega með ýmsu móti. Hér talar einn þeirra sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að hlyti að vera misboðið með frumvarpinu því að ég er sjálfur trúleysingi. Ég hef ekki tilheyrt íslenskri þjóðkirkju frá 18 ára aldri og er mjög sannfærður í mínu trúleysi. Mjög sannfærður um það að mér ber ekki að leggja sérstaka virðingu á þá himnafeðga umfram aðra guði sem nefndir eru í þessum heimi. Það þýðir ekki að ég vanvirði þá á neinn hátt. Ég ber mikla virðingu fyrir öllum þeim guðlegu verum sem mannkynið hefur fundið upp á í aldanna rás vegna þess að bak við þær uppfinningar er mikil hugsun, mikil heimspeki, mikil speki og miklar tilfinningar. Ef við göngum um þær tilfinningar af virðingarleysi er það upphafið að því að okkur muni ekki vel farnast.

Það sem við höfum orðið mjög vör við í umræðunni hér á Íslandi í vetur er ofstæki lítils hóps hinna trúlausu. Það eru ekki menn sem tala fyrir hinn venjulega trúlausa Íslending. Það eru ekki menn sem tala fyrir minn munn eða annarra sem hafa ákveðið að standa utan íslensku þjóðkirkjunnar. Það eru menn sem tala fyrir hönd lítils hóps sem vill gera trúleysi sitt að, ég vil segja, óbilgjörnum trúarbrögðum. Hugmyndin um það að íslenskt menntakerfi taki ekki mið af kristilegri arfleifð og kristilegu siðgæði er nefnilega algjör móðgun við íslenska menningararfleifð.

Íslenskt samfélag hefur frá upphafi verið gegnsýrt kristninni. Þó að þeir menn sem hingað komu hafi margir hverjir verið heiðnir þá vitum við að kristnir menn voru hér í landinu allt frá fyrstu dögum. Raunar má rökstyðja að ásatrúin eða heiðindómurinn sem voru virðingarverð og mjög merkileg trúarbrögð — og það er rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék hér að það væri að mörgu leyti í trúarbrögðum eins og í ásatrúnni og eins í þeim fjölgyðistrúarbrögðum sem ríkja víða í austri, sem hann vék sérstaklega að, að oft fylgja þessum trúarbrögðum minna ofstæki og minni hætta á því að trúarbrögðin gangi of langt.

Það er ákveðin hætta á því þegar eingyðistrúarbrögðin taka við að þá gæti um leið minna umburðarlyndis og það er vissulega saga kristindómsins. Umburðarlyndið í sögu kristindómsins hefur að mörgu leyti verið takmarkað.

Hér var vikið að þeim ágæta framsóknarmanni Jimmy Carter, sem ku hafa skrifað um trúarbrögð — ég hef nú ekki lesið það, hefði áhuga á að glugga ofan í þá bók. Um pólitíska afstöðu hans og hans pólitísku leið er það þó að segja að Bandaríkjamönnum hefur ekki farnast eins vel og okkur Íslendingum í því að tryggja umburðarlynt samfélag í trúarbrögðum. Í landi trúfrelsisins, þar sem ríkið tekur enga afstöðu til trúarbragðanna, hefur samt sem áður ríkt mjög lítið umburðarlyndi í mjög mörgum ríkjum. Það að ríkisvaldið segi sig einhvern veginn stikkfrí frá trúarbrögðunum er ekki uppskrift. Það er ekki hin óskeikula uppskrift fyrir því að allt gangi vel.

Hin óskeikula uppskrift ef hún er til, hún er auðvitað aldrei til í pólitík, en ef við getum á einhvern hátt nálgast hana þá felst hún í, og nú bið ég hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að hlusta vel, þessari hófsömu framsóknarhugsun. Þessari hófsömu stefnu sem segir að við vöðum ekki á skítugum skónum yfir tilfinningar annarra. Og það er einfaldlega þannig að menningararfleifð okkar hefur byggst upp á kristnum gildum í meira en þúsund ár. Þar með erum við ekki að segja að við réttlætum á neinn hátt að skólar séu notaðir til trúarinnrætingar. Það er allt annar hlutur og það er algerlega andstætt stjórnarskránni. Við getum alveg ófeimin sett inn í lagabálka okkar hugtak eins og kristið siðgæði og kristin menningararfleifð án þess að óttast að það stuðli að því að skólarnir verði misnotaðir.

Það sem getur aftur á móti orðið til þess að við sköpum hér óþolandi ástand er að við göngum einmitt í hina áttina, útilokum kristindóminn út úr lagabálkum um menntamálin vegna þess að innan kristindómsins eru stöðug átök. Þar eru átök eins og alls staðar milli hinna hófsömu og hinna öfgafullu. Ef við viljum rétta hinum hófsömu hjálparhönd gerum við það best með því að ráðast ekki á hina kristnu menningararfleifð, heldur með því að virða hana og með því að vinna með henni án nokkurrar innrætingar, án þess að líða það á nokkru stigi að sá sem kemur af heimili múslima eða hindúa hér á landi verði fyrir aðkasti vegna þess eða verði fyrir því að bornar séu í skólum brigður á trú forfeðra hans. Það er alls ekki meiningin með þeim ákvæðum sem hér eru í lögunum.

Mig langar að þessu loknu að koma aðeins inn á hina praktísku nauðsyn þess að þessi ákvæði séu inni. Þau eru ekki bara tilfinningaleg. Þau eru ekki bara þessi þó það sé kannski það mikilvægasta að til að stuðla að því að íslensk þjóðkirkja verði áfram sú hófsama og góða kirkja sem hún er — því að það er hún í mínum huga og þess vegna hef ég verið stuðningsmaður þjóðkirkjunnar einmitt í því formi sem hún er. Meðal annars vegna samanburðarins sem við höfum hér á landi við lönd þar sem ekki eru þjóðkirkjur eins og t.d. Bandaríkin sem er samfélag að mörgu leyti mjög líkt okkar, landnemasamfélagi úr nýja heiminum.

Það er einfaldlega þannig að ef við setjum trúmálin öll á altari samkeppninnar með frjálsum söfnuðum verður andrúmsloftið í þessum efnum allt annað og ekki eins afslappað og gott og það er í hinni íslensku kirkju í dag. Því það get ég fullyrt við hinn háa þingheim — þó að ekki sé nú margt í salnum núna, en mér finnst rétt samt að þetta allt komi fram og mun ekki láta af — að okkur sem erum heiðin, sem höfum enga sannfæringu fyrir tilvist himnafeðganna, sem höfum enga sannfæringu fyrir því að neitt meira sé til en það sem við sjáum, að okkur líður mjög vel í hinni íslensku þjóðkirkju, í hinu hófsama og afslappaða andrúmslofti þar sem allir geta verið.

Sjálfur get ég líka sem fulltrúi heiðingja — hafandi átt fjögur börn í grunnskóla, sem eru nú flest búin með þann pakka, það yngsta er að klára sitt síðasta ár í grunnskóla, og hafandi fylgst með þeirri kristindómsfræðslu sem hefur verið í skólanum — fullyrt að afskaplega hóflega og með afskaplega hófsömum og eðlilegum hætti hefur verið farið í kristindómsfræðsluna.

Það eina sem ég get fundið að varðandi þennan þátt í skólakerfinu eins og það er, er að kristindómsfræðslan hefði mátt vera meiri. Þá kem ég að hinum praktísku þáttum þess hvers vegna svo ætti að vera. Því þá er ég hættur að tala um það hvers vegna ég telji endilega — það er mér mikið hjartans mál, að við, eins og þingheimur hefur sjálfsagt orðið var við, berum þessa virðingu fyrir okkar kristindómi og okkar kristnu menningararfleifð. Þetta eru líka praktísk sjónarmið fyrir alla þá sem ætla yfirleitt að taka þátt í mannlífinu, sem ætla yfirleitt að skilja vestrænar bókmenntir, skilja umræður, skilja pólitíska umræðu, skilja söguna — og yfirleitt skilningur á mannlífinu hvar sem okkur ber niður. Grundvöllur þess er í stóru og smáu að við þekkjum til þeirra grundvallarsagna sem kristin menningararfleifð byggist á. Allt okkar dæmasafn, öll okkar orðtæki taka meira og minna mið af þessu.

Ef við ölum börnin upp án þess að þau þekki sögurnar um Jósep og Lasarus, örkina hans Nóa og ferðina yfir Rauðahafið, selina sem urðu til þegar Egyptarnir drukknuðu í Rauðahafinu og (Gripið fram í.) og vatnið og vínið sem framkallast að nýju á hverju ári í Öxará á Þingvöllum. Við skulum ekki vanvirða að allt er þetta lifandi fyrir okkur ef við viljum það viðhafa.

En aðalatriðið er … (Gripið fram í: … reis upp frá dauðum.) Ég minntist á Lasarus áðan ef ég man þessi fræði rétt — ég var mjög heppinn að því leytinu til að ég fékk mjög góða kristindómsfræðslu í mínum barnaskóla. Mikið jafnvægi var í þeirri fræðslu. Það voru tvær mjög merkilegar og eftirminnilegar persónur sem voru leiðandi í menntamálum í Biskupstungum á þeim árum. Það var prestsfrúin Anna Magnúsdóttir heitin, mikil ágætismanneskja sem kenndi okkur kristindóminn og lét okkur fara með bænir á hverjum morgni, og mér varð aldrei meint af því og hélt mínu trúleysi í gegnum allt það bænahald, sakaði mig aldrei á neinn hátt. Síðan höfðum við fulltrúa annarra skoðana — þetta var á kaldastríðsárunum miðjum. Við höfðum þarna fulltrúa hinnar vestrænu menningar í prestsfrúnni, fulltrúa hinnar kristnu lífsskoðunar, og síðan höfðum við með skólastjóranum, Þórarni heitnum Magnússyni, frá Vestmannaeyjum, sem var einhentur maður og afskaplega merkilegur, fulltrúa sósíalismans í heiminum. Hann hélt að okkur þeirri lífsskoðun að tveir staðir í heiminum stæðu framar öllu öðru: Það voru Sovétríkin og Vestmannaeyjar. Ég skal viðurkenna að alla tíð síðan renna þessir staðir svolítið út í eitt fyrir mér. Mér finnst ég alltaf vera kominn inn í eitthvert alþýðulýðveldi þegar ég kem til Vestmannaeyja af minningunni um þennan mikla skólamann.

En með þessu móti vorum við alin upp í jafnvægi kaldastríðsáranna þar sem við fengum skammt af báðum skoðunum, fengum kristindóminn og kommúnismann. Ekki í sama manninum eins og börnin við Djúp þar sem séra Baldur Vilhelmsson, vinur minn, predikaði hvort tveggja úr sama munninum, gallharðan stalínisma og kristindóm. Hann trúði því að þeir væru í rauninni andlegir bræður Jósep Stalín og Jesús Kristur. Þannig var það ekki í mínum skóla heldur voru þetta tvær ólíkar persónur sem ég held að hafi verið heilnæmara fyrir okkur vegna þess að hitt hefði nú verið ansi þungur pakki að kyngja fyrir unglinga að sjá það fyrir sér sem sömu skoðunina Jesú Krist og Jósep Stalín.

En þetta var nú smávegis útúrdúr úr umræðunni um gildi kristindómsins. Ég vil aðeins halda áfram með þann möguleika sem við höfum heyrt hjá fáum, og sem ég endurtek hér í ræðustól, ofstækisfullum talsmönnum trúleysisins á þessum vetri og í rauninni í nokkur ár á Íslandi. Það að hin kristna menningararfleifð sé hluti af skólanámskrá grunnskóla og leikskóla einnig, sem ég tel líka mikilvægt, sé á einhvern hátt móðgun við þá sem hafnað hafa trúarjátningunni og hinni kristnu lífsskoðun sem trúarskoðun.

Þetta byggist á þeim misskilningi að það séu trúarbrögð að vera trúlaus. Það er ekki svo. Það getur ekki verið svo. (Gripið fram í.) Hér grípur hv. þm. prestssonurinn Árni Páll Árnason fram í fyrir mér og segir að það sé hreinn heiðindómur. Ég hef sjálfur alltaf gert ákveðinn greinarmun á heiðindómi og trúleysi þar sem við höfum vanist því að kalla þá menn heiðna sem aðhyllast fjölgyðistrúarbrögð. Þannig töluðum við um að ásatrúarmenn væru heiðnir og með sama hætti eru hindúar heiðnir enda er nú margt sem bendir til þess að hindúisminn og ásatrúin séu ein og sömu trúarbrögðin sem hafa þróast úr sama trúkerfinu. Ég ætla ekki að fara mjög djúpt ofan í það vegna þess hve tíminn er stuttur. En annars væri full ástæða til að rifja það aðeins upp hér í ræðustól Alþingis hvernig þeir Visnú og Loki og allir þessir félagar eru úr einu og sömu fjölskyldunni.

En það er munur þarna á. Það er munur á því að aðhyllast ásatrúna, sem nokkur hópur Íslendinga gerir í dag, og við skulum bera virðingu fyrir því, og sú lífsskoðun er alls ekki órökréttari en aðrar trúarskoðanir, og margt sem bendir til að þeir gætu haft rétt fyrir sér. Sú afstaða aftur á móti að vera trúlaus er auðvitað afstaða efasemdarmannsins. Hún getur ekki verið afstaða þess sem trúir á tómið. Því það að trúa því að guð sé ekki til er einhvers konar hroki. Hroki kannski svipaður þeim sem telur sig hafa höndlað hina æðstu visku. Í raun og veru hefur hinn trúlausi ekki leyfi til annarrar afstöðu en efasemda. Þeirra efasemda að hann viti ekki hverjir hafa með stjórn almættisins að gera. Enda dugar okkur oftast að vita bara hverjir eru í ríkisstjórn á hverjum tíma og það er nú nóg að fylgjast með þeim í hverju landi fyrir sig.

Ég get ekki skilið þá afstöðu að telja að það að kristinni menningararfleifð sé haldið að ungdómi landsins sé móðgun við þá sem ekki aðhyllast þessa kristnu lífsskoðun. Flestallt fólk sem hefur haft hæst um þetta að undanförnu er þó af þeim ættum að ég reikna með að það sé komið einmitt af fólki sem aðhylltist kristindóminn. Það var einfaldlega svo lögboðin og undantekningarlaus skoðun hér fyrir liðlega hundrað árum að ekkert undanfæri gafst. Það var á þeim tíma sem við viljum ekki endurtaka. Það var á þeim tíma þegar hér ríkti ekki trúfrelsi sem er afskaplega mikilvægt. Það er afskaplega mikilvægt að þetta frelsi ríki. En við varðveitum ekki þetta frelsi ekki með ofstæki. Við rekum þetta samfélag inn í ófrelsið með ofstæki.

Svo að ég endurtaki það: Það sem við gerum með því að traðka á hinni kristnu menningararfleifð og traðka á þeim grundvelli að við menntun barna okkar verði þeim kennt um menningararfleifð forfeðra sinna — ef við ætlum að henda því út, ef við ætlum að henda hinum kristilega grunni út úr menntuninni erum við að rétta trúarofstækismönnum vopnin upp í hendurnar. Það er það sem við skulum aldrei gera. Það er það sem við skulum varast. Það er það sem vestrænar þjóðir hafa uppskorið einmitt í löndum þar sem engin trúarbrögð eru viðurkennd inni í stjórnskipulaginu eins og víða í Bandaríkjunum þar sem umburðarlyndi í trúmálum er víða sorglega lítið. Svo að ég vitni enn og aftur í það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist hér á að Jimmy Carter, sá mikli trúmaður og mikli stjórnmálamaður, hefði lagt áherslu á að ekki væri blandað saman trúarbrögðum og pólitík. (Forseti hringir.) Það er einmitt að halda pólitíkinni utan við trúarbrögðin, að halda óbreyttri stöðu, (Forseti hringir.) að hér sé hlúð að (Forseti hringir.) kristinni menningararfleifð.