Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 21:55:02 (7762)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[21:55]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég bið þingheim forláts á því, en kenni dálítið um stuttum ræðutíma, að hafa ekki getað komið því alveg skýrt fram þar sem á 20 mínútum er mjög erfitt að gera einhverja grein fyrir jafnviðamiklu máli og kristindómsfræðslu í skólum, það þyrfti í rauninni mun lengri tíma til. (Gripið fram í.) Ég vísa því á bug að ég hafi þess vegna fjallað um lítinn hluta frumvarpsins. (Gripið fram í.) Ég tel mig í rauninni, miðað við stuttan tíma, hafa fjallað um mjög stóran hluta frumvarpsins en ég skal lofa hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni því að ég mun koma oftar upp í þessari umræðu og fjalla þá meira um þennan eina þátt, ég veit ekki hvort ég kemst yfir í aðra. Svo það sé alveg skýrt styð ég heils hugar þá tillögu og ég styð einnig breytingartillögu á þskj. 1057 frá hv. þingmönnum Höskuldi Þórhallssyni og Jóni Magnússyni um að inn í ákvæði 2. mgr. 25. gr. um samfélagsgreinar komi orðið kristinfræði, sem ég hefði reyndar viljað að væru gerð stafavíxl á og þar stæði orðið kristnifræði.