Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 21:56:30 (7763)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[21:56]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir mjög svo þarft innlegg í þessa umræðu. Það er einfaldlega þannig að trúleysingjar þessa lands hafa nokkrir hverjir komið fram og þóst tala fyrir munn allra, sem þeir gera ekki. Bjarni Harðarson rakti það mjög vel, að mér fannst, að kristinfræði og kristið siðgæði væri kannski eitthvað meira en það að maður gæti tekið það sem lítilfjörlegan hlut. Nóg um það.

Til að leiðrétta hér misskilning vegna þess að ég er með breytingartillögu um að orðið kristinfræði verði tekið inn í 25. gr. þá er breytingartillagan þannig að kristin- og trúarbragðafræði verði skeytt saman. Það var eingöngu tæknilegs eðlis að breytingartillagan segir bara að inn komi orðið kristinfræði en þarna á líka að vera trúarbragðafræði. Ég tel að þetta eigi mjög vel saman en um leið og við setjum orðið kristinfræði inn erum við kannski að sýna fram á að grunnskólastarfið mótist af kristnum trúararfi þjóðarinnar eins og lagt er til í 2. gr. frumvarpsins.

Í 46. gr. frumvarpsins er að finna undanþáguákvæði varðandi heimakennslu. Sveitarfélagi er heimilt að veita undanþágu frá skólaskyldu barna ef foreldrar óska þess að kenna börnum sínum heima að hluta eða öllu leyti. Aftur á móti er þeim börnum sem njóta heimakennslu skylt að þreyta könnunarpróf samkvæmt frumvarpinu og lúta reglulega eftirliti og mati. Það kom mikil og hörð gagnrýni á þetta ákvæði og menn höfðu áhyggjur af að börn yrðu einfaldlega tekin út úr skólastarfi og það yrði lítið eftirlit með þeim.

Í máli fulltrúa menntamálaráðuneytisins sem kom fyrir nefndina kom fram að heimakennsla í tilraunaskyni hafi fyrst verið heimiluð árið 2002 eftir ítrekaðar óskir frá áhugasömum, íslenskum kennaramenntuðum foreldrum sem búið höfðu erlendis og kennt börnum sínum heima, nánar tiltekið í Noregi. Hefur ráðuneytið jafnframt gefið út ítarlegar og strangar reglur um leyfisveitingu til heimakennslu þar sem heimildin er skilyrt því að að a.m.k. annað foreldrana hafi kennararéttindi.

Það kom jafnframt fram í máli fulltrúa ráðuneytisins að ekki hafi komið upp vandamál tengd heimakennslu og ekki sé kunnugt um félagslega einangrun barna af þessum sökum. Það kom fram í skýrslunni að ekki beri á öðru en að foreldrar sem kenna börnum sínum heima leggi í það metnað og skapi börnum sínum góðan vettvang til náms og þroska. Því miður kom einnig fram að eftirliti sveitarfélaga sem og ríkisins hafi verið ábótavant, sér í lagi með tilliti til námsmats og sjálfsmats foreldra. Ég tel að þarna séu þó nokkrir veikleikar. Álit nefndarinnar er að þetta geti verið réttmætur og raunhæfur kostur í einstökum tilvikum en ítrekar þó að þröng skilyrði verði að vera fyrir veitingu undanþágunnar og eftirliti háttað eins og best verður á kosið. Því leggur nefndin ekki til breytingar á ákvæðinu.

Ég vil taka það sérstaklega fram að eftirliti sveitarfélaga, hafi því verið ábótavant, verði að fylgja mjög eindregið eftir og að ríkið og menntamálaráðuneytið fylgi því eftir. Ég tel það vera á vissan hátt hættulegt ef hugsanlega kunni einhverjir foreldrar sem tilheyra sértrúarsöfnuði, eins og þekkist víða erlendis, að vilja taka börnin sín út úr skólastarfi. Ég tel algjörlega óásættanlegt að það sé gert algjörlega eftirlitslaust.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur komið með breytingartillögu þar sem hún leggur til að skólamáltíðir í grunnskólum verði fríar. Ég vil taka undir þá breytingartillögu, ég tel að það sé mjög brýnt að grunnskólinn sé allur gjaldfrjáls og að þessi hluti hans verði það einnig alveg eins og að skólaakstur er gjaldfrjáls og það má segja að þar gildi algjörlega sömu rök og mikilsvert er að öll börn fái holla og góða máltíð í hádeginu. Það hefur borið á því og maður hefur heyrt um það að sumir foreldrar hafi einfaldlega ekki efni á því að borga skólamáltíðir fyrir börnin sín og þau hafi lent í því að sitja úti í horni í mötuneytum og einstaka kennarar hafi séð aumur á þessum börnum og jafnvel borgað fyrir þau skólamáltíðir. Ég tel að við eigum að koma í veg fyrir svona lagað, þetta skapar óþarfa særindi og ég get vel ímyndað mér að það sé afar þungbært fyrir börn sem hafa lent í þessu að koma í grunnskólann og geta ekki greitt fyrir mat og það geti stuðlað að einelti og óánægju barnsins. Ég vona að tekið verði á þessu í framtíðinni og okkur lánist að gera grunnskólann algjörlega gjaldfrjálsan.

Í 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um hlutverk skólastjóra. Í umsögn Kennarasambands Íslands er lögð mikil áhersla á aðkomu kennara að stjórnun að skipulagningu á innra starfi skólans og leggur sambandið ríka áherslu á að í lögunum þurfi að vera skilgreind ákvæði um kennarafundi. Menntamálanefnd tók að miklu leyti undir þessar áherslur og leggur til breytingar á 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins í þá veru. Áréttar nefndin að í breytingartillögunni sé bæði kveðið á um að skólastjóri boði til kennarafunda sem og sérstakra starfsmannafunda svo oft sem hann telur þörf á.

Mér finnst ekki vera gengið nógu langt þarna og ég hefði viljað sjá einhvers konar ákvæði þess efnis að hluti kennara gæti boðað til kennarafunda ef skólastarf er í uppnámi. Við getum ímyndað okkur mjög slæmt tilfelli þar sem skólastjóri hefur misst tökin á skólastarfinu og kannski tengsl við kennara og þá væri hægt að krefjast þess að kennarafundur yrði haldinn þannig að hægt væri að ræða málin á yfirvegaðan og málefnalegan hátt en skólastjóri hefði ekki neitunarvald eins og mér finnst felast í 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Einn af fyrirvörum mínum lýtur einmitt að þessu atriði.

Í 29. gr. frumvarpsins er fjallað um skólanámskrá og starfsáætlun. Menntamálanefnd taldi að hlutverk skólaráðs við gerð starfsáætlunar væri ekki nægilega skýrt og áréttaði því mikilvægi starfsáætlunar og að samráðs við gerð hennar yrði gætt og því var lögð til breytingartillaga sem kveður á um skýra skyldu og ábyrgð skólastjóra til að gera árlega skólanámskrá og starfsáætlun og að samráðs við vinnslu þeirra sé gætt.

Ég fór mjög skilmerkilega yfir þær breytingar eða nýmæli sem koma fram í 3. mgr. 11. gr. og eru samhljóða þeim sem eru í frumvarpi til leikskólalaga og fjalla um að óheimilt sé að ráða til starfa við grunnskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn XII. kafla almennra hegningarlaga en í þeim kafla er fjallað um kynferðisbrot. Það er mjög ítarlega fjallað um þetta í nefndarálitinu og ég vísa í fyrri orð mín og nefndarálitið hvað það varðar.

Það eru örfá atriði sem ég vildi koma inn á aftur og ég óska því eftir, þar sem tími minn er útrunninn, að verða settur aftur á mælendaskrá.