Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 22:06:45 (7764)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[22:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það voru örfá atriði sem ég átti eftir að gera grein fyrir í breytingartillögu minni sem mig langar til að fara um nokkrum orðum. Í fyrsta lagi get ég vitnað til orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem nefndi hér breytingartillögu mína varðandi 2. gr. um að mannréttindi komi þar inn sem sjálfstætt hugtak. Hér er um að ræða markmiðsgrein frumvarpsins þar sem ég geri þá ráð fyrir að mannréttindi verði talin upp meðal þeirra hugtaka sem eigi að móta skólastarfið.

Ég tek mjög mikið mark á umsögnum náms- og starfsráðgjafa varðandi breytingar á þessum frumvörpum, bæði frumvarpi til grunnskólalaga og ekki síður frumvarpi til framhaldsskólalaga og raunar einnig frumvarpi varðandi leikskólalögin. Félag náms- og starfsráðgjafa sendi okkur umsögn og lagði að sjálfsögðu ríka áherslu á að náms- og starfsráðgjafa yrði getið með starfsfólki skóla. Lögð var áhersla á að það væri mjög mikilvægt að grunnskólalögin skilgreindu mun skýrar stöðu náms- og starfsráðgjafar en gert er í frumvarpinu. Náms- og starfsráðgjafar leggja áherslu á að starf fagstéttar náms- og starfsráðgjafa falli undir skilgreiningu um starfslið grunnskóla, eða starfsfólk eins og við köllum greinina núna, en ekki sérfræðiþjónustu. Réttur nemenda um aðgengi að náms- og starfsráðgjöfum þurfi einnig að vera tryggari en frumvarpið mælir fyrir um. Jafnframt leggja náms- og starfsráðgjafar mjög ríka áherslu á að starfsheiti þeirra verði lögverndað.

Ég tek undir þessi sjónarmið, hæstv. forseti, og hef gert breytingartillögu sem gerir ráð fyrir því að bæði í 11. gr. og í 13. gr. séu náms- og starfsráðgjafar taldir upp með starfsfólki skóla og þess getið að nemendur eigi rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af þeim sem hafa leyfisbréf í náms- og starfsráðgjöf. Með öðrum orðum, hæstv. forseti, þá þykir mér ekki nægja sú breytingartillaga sem meiri hlutinn leggur til við greinina.

Varðandi 13. gr. þá leggur meiri hlutinn til að nemendur eigi rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af til þess bærum sérfræðingum. Þetta segir í mínum huga sannarlega ekki neitt. Þetta er kannski ákveðin viljayfirlýsing en ekki nægileg til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi Íslendinga 17. mars 2007 mælir fyrir um. Sú þingsályktun varðaði eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum. Með henni ályktaði Alþingi að fela ætti menntamálaráðherra að skipa nefnd sem kannaði gildi þess og gagn að auka náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum. Ég veit ekki betur en að þessi nefnd hafi skilað af sér og hún hafi verið ein af þeim nefndum sem starfaði samkvæmt tíu punkta samkomulaginu sem menntamálaráðherra gerði við Kennarasamband Íslands. Skólamálaþing Kennarasambands Íslands ályktaði líka fyrir skemmstu varðandi náms- og starfsráðgjöfina og stöðu náms- og starfsráðgjafar í grunnskólunum. Þar er lögð mjög rík áhersla á að lögverndun starfsheitisins verði tryggð og að nemendafjöldi á hvert stöðugildi náms- og starfsráðgjafa verði að hámarki 300. Jafnframt er lögð áhersla á að náms- og starfsráðgjafar verði hluti af starfsliði skóla en ekki hluti af sérfræðiþjónustunni.

Alþingi hefur með þingsályktun sinni í sjálfu sér viðurkennt að náms- og starfsráðgjöf sé úrræði sem vinni „aktíft“ gegn brottfalli nemenda úr skóla. Það á fyrst og fremst við um efstu bekki grunnskóla og síðan um framhaldsskólann. Ef orðin í greinargerð með frumvarpinu eiga að hafa einhverja merkingu og sömuleiðis ef orð hæstv. menntamálráðherra í framsöguræðu hennar með þessum málum eiga að hafa einhverja merkingu þá verðum við að kveða skýrar að orði varðandi náms- og starfsráðgjöf en gert er í frumvarpinu, hæstv. forseti.

Þá vil ég nefna hér tillögur mínar varðandi gjaldfrjálsa grunnskólann. Þar geri ég tillögur um breytingu varðandi 23. gr. þar sem ég óska eftir að Alþingi taki afstöðu til þess að málsverður sá sem gert er ráð fyrir í greininni — sem börnum verði séð fyrir á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið — verði nemendum og foreldrum þeirra að kostnaðarlausu. Sömuleiðis geri ég ráð fyrir því í breytingartillögum mínum við 33. gr. að lengd viðvera og tómstundastarf samkvæmt þeirri grein verði nemendum að kostnaðarlausu. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að það tómstundastarf sem fer fram innan skólans sjálfs og sömuleiðis frístundastarf eða lengda viðveran — þ.e. heilsdagsskólinn eða selið eða hvað það heitir, það heitir ýmsum nöfnum í ólíkum skólum — verði nemendum líka að kostnaðarlausu því að þetta sé sjálfsagður hluti af þeim skóladegi sem börn í nútímaskólasamfélagi þurfa að búa við.

Síðan vil ég nefna hér til sögu 10. tölulið í breytingartillögum mínum á þskj. 1070. Þar tölum við um 42. gr. Hún fjallar um sérúrræði, þ.e. þegar sú staða kemur upp að sveitarfélög þurfi að grípa til sérúrræða innan grunnskólans til þess að tryggja að nemendur sem þurfa sérhæft umhverfi til náms í lengri eða skemmri tíma fái úrræði við hæfi ef ekki er hægt að finna það innan hins almenna grunnskóla. Ég geri ráð fyrir að greinin orðist með öðrum hætti en í frumvarpinu og raunar með öðrum hætti en meiri hlutinn leggur til.

Ég geri ráð fyrir því að greinin orðist svo, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög skulu sjá nemendum fyrir sérúrræðum innan grunnskóla eða stofna til reksturs sérskóla þegar almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum eða hag nemenda.“

Það er að segja að það sé ekki einungis valkvætt að sveitarfélögin geti beitt sér fyrir því að stofna slík sérúrræði heldur sé þeim lögð sú skylda á herðar þegar búið er að kveða upp úrskurð um að innan hins almenna grunnskóla séu ekki úrræði fyrir viðkomandi sem henta. Ég kveð hér skýrar að orði en gert er ráð fyrir í tillögum meiri hlutans.

Hæstv. forseti. Ég hefði gjarnan viljað fara örlítið í fjármögnun grunnskólans. Tilefni þess er skýrsla sem Ríkisendurskoðun skilaði af sér sem varðar stjórnsýsluúttekt sem gerð var af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í janúar 2008. Það er afar athyglisverð lesning vægast sagt sem leiðir í ljós að sá mikli munur sem er á kostnaði við rekstur grunnskólans eftir sveitarfélögum og sem jafna á í gegnum jöfnunarsjóð, þar er pottur brotinn eða ýmislegt sem mætti betur fara. Þó svo að framlög jöfnunarsjóðs dragi úr því misvægi sem sveitarfélögin búa við hvað þetta varðar má samt sem áður segja að nettóútgjöld sveitarfélaga með fámenna skóla séu að meðaltali um það bil tvöfalt hærri en hinna sem reka stóra skóla. Misvægið milli fjölmennari sveitarfélaganna og hinna fámennu er svo ógnvænlegt. Það er svo mikið samkvæmt þessum tölum sem við fáum í þessari skýrslu að það verður ekki séð að það sé hægt að búa við það öllu lengur. Það er ljóst að sum sveitarfélög verja svo háu hlutfalli af tekjum sínum til grunnskólans að það er afar lítið eftir til annarrar starfsemi. Þegar tekið hefur verið tillit til framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verja þau sveitarfélög sem best standa um 78% af útgjöldum sínum til annarra málaflokka á meðan þau sem lakast standa verja einungis 28% til annarra útgjalda. Þetta er mjög alvarlegt, (Forseti hringir.) sýnir mjög alvarlega stöðu. Það er ekki hægt að skilja við þetta mál án þess að ræða þetta og því miður náðist ekki (Forseti hringir.) umræða um þetta atriði í menntamálanefndinni.