Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 23:04:57 (7773)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:04]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir þessi orð. Ég trúi því að það sem hann sagði í upphafi ræðu sinnar, sem tók reyndar í sama setningarhluta trúleysingja og stjórnleysingja, hafi verið einhvers konar mismæli því trúleysingjar eru og þaðan af síður stjórnleysingjar verra fólk en aðrir. Mér þykir vænt um að það er skilningur hv. þingmanns.

Hvort meginmáli skipti um kristindómsfræðslu í skólum að stór hluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni, þá er ég ekki viss um að það sé réttur skilningur. Það sem meginmáli skiptir um gildi kristindómsfræðslunnar í skólum er að menningararfleifð okkar er kristin. En við eigum ekki að nota hana til þess að boða trú og sjálfur er ég ekki hrifinn af því að við notum skólana til trúboðs (Forseti hringir.) og hef raunar trú á því að hæstv. menntamálaráðherra, sem er því miður (Forseti hringir.) fjarverandi, sé mér sammála og nær mínum (Forseti hringir.) skoðunum, trúleysingjans, en skoðunum hv. þm. Árna Johnsens. (Gripið fram í.)