Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 23:10:09 (7777)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:10]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í heimabyggð minni var upphaf margra trúarbragða á Íslandi, mormóna, aðventista, hvítasunnumanna til að mynda. Fyrsta mannvirkið sem byggt er í kristni á Íslandi var í Vestmannaeyjum, kirkja. Stafkirkjan. Ég hef því alltaf verið opinn fyrir því að sinna öllum þessum þáttum. Það þýðir ekkert að snúa út úr því.

Hins vegar hefur íslenskt þjóðfélag á síðustu öldum þróast út frá kristinni fræðslu og kristnu siðgæði. Við förum ekki að sparka í þá þróun þó að við virðum kaþólskuna, heiðindóminn eða goðatrúna. Þá er það bara hluti af menningu okkar, lífi og starfi. En skjólið okkar hefur verið kristni fyrir þjóðina í heild og við skulum standa vörð um hana.