Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 23:17:52 (7784)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:17]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Ég minntist í ræðu minni á það sem mér þykir best við kristnina, hún er svona eins og vatnið, hún er alls staðar, hún kemst alls staðar, hún er óáreitin, hún er hlutlaus og þess vegna hefur hún verið okkur Íslendingum svo mikilvæg. Hún hreykir sér ekki og hún er ekki öfgafull og við höfum í rauninni frið fyrir kirkjunni ef við viljum en við leitum til hennar á öllum stórum stundum.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hv. þingmaður er náttúrubarn, um skólastarfið og atvinnulífið, á lengd skólanna. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að þessi mikla lenging hér í okkar stutta og mikilvæga sumri muni skapa skólaleiða bæði hjá börnum og kennurum. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því? Hvernig eiga börn að (Forseti hringir.) kynnast atvinnulífinu? Ég veit að það er mikið af vettvangsferðum í skólanum, sem eru auðvitað mikilvægar, (Forseti hringir.) en þetta er stór hluti af íslenskri sögu.