135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:06]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska þeim fimm stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar sem eru í salnum til hamingju með daginn því að eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar er í dag. Þeir geta þá væntanlega haldið upp á það, virðulegi forseti, með því að byrja að níðast á stjórnarandstöðunni. Það væri kannski til marks um það hvernig ríkisstjórninni kemur til með farnast og hvernig hún ætlar að halda áfram verkum sínum.

Ég vil skora á forseta miðað við þær óskir sem fram eru komnar, sérstaklega frá framsóknarmönnum sem hafa beðið um sérstaklega lengda umræðu, að miðað verði við að ljúka umræðum um grunnskólafrumvarpið og slíta síðan þingfundi. Ég hef hins vegar lýst því yfir að í sjálfu sér eiga menn að klára vertíðina sem um er að ræða, en það er allt annað mál að þegar einn stjórnarandstöðuflokkur fer fram á slíka hluti þá finnst mér eðlilegt að verða við því en ganga ekki lengra en það.