135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[01:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni tengsl milli gæða skólastarfs eða árangurs og fjármuna sem ganga til skólakerfisins. Mér finnst það athyglisvert sem fram kemur í skýrslu þeirri sem ég nefndi í ræðu minni áðan frá Ríkisendurskoðun um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og grunnskólann. Þar kemur fram afar athyglisverð niðurstaða. Þar segir að ekki virðist sjálfgefið að hægt sé að bæta árangur nemenda með því að auka framlög til skólastarfs og vísbendingar séu um að vandinn liggi fremur í innri gerð skólastarfsins. Fræðimenn munu ekki vera á eitt sáttir um áhrif útgjalda til skólamála á árangur skólastarfs. Virðist hvorki vera hægt að fullyrða né hafna því að aukin fjárútlát leiði til bætts námsárangurs.

Í skýrslunni segir, hluti af niðurstöðu hennar er sá, að framlög til grunnskóla hér á landi séu há miðað við nágrannalöndin, eins og hv. þingmaður gat um í ræðu sinni, án þess að árangur íslenskra nemenda sé í fremstu röð. Það misræmi virðist eiga rætur að rekja til þess að fé sem varið er til skólamála hér á landi nýtist illa til að auka námsárangur grunnskólanema. Aukin fjárframlög til grunnskólans hafa leitt af sér minni bekkjardeildir og 40% fjölgun stöðugilda við skólana á síðustu níu árum án þess að sýnt hafi verið fram á bættan árangur. Í skýrslunni er sagt að um þessi atriði verði lítið fullyrt, enda skorti rannsóknir hér á landi á gæðum skólastarfs, á árangri nemenda og þáttum sem hafa þar áhrif.

Hæstv. forseti. Til þess að vinna meira með spurninguna um hvernig tengslum fjármuna og gæða eða árangurs í skólastarfi er háttað þurfum við að auka menntarannsóknir. Eitt það mikilvægasta sem við gerum á Alþingi Íslendinga er að tryggja að auknir fjármunir séu veittir í slíkar rannsóknir. Þá fáum við kannski niðurstöðu um orsakasamhengi fjármuna og árangurs í skólastarfi.