Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 14:01:45 (7935)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[14:01]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um framhaldsskóla. Frumvarp til laga um framhaldsskóla og það nefndarálit sem ég mæli fyrir hér er það fjórða af frumvörpum sem hæstv. menntamálaráðherra lagði fram á síðasta ári og nefndin hefur verið með til umfjöllunar síðustu fimm eða sex mánuði.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu fékk nefndin fjöldann allan af gestum, á fjórða tug gesta hygg ég, á fund sinn, suma oftar en einu sinni. Í nefndarálitinu kemur líka fram að nefndin fékk fjöldann allan af umsögnum vegna frumvarpsins og lögðu nefndarmenn sig fram við að kalla alla þá á fundi nefndarinnar til skrafs og ráðagerða sem hugsanlega hefðu eitthvað um málið að segja eða vildu koma skoðunum sínum á framfæri.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og í frumvarpinu sjálfu er hlutverk framhaldsskóla fyrst og fremst tvíþætt, þ.e. að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Skólarnir skulu enn fremur stuðla að alhliða þroska nemenda sinna og virkri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi. Þessu hlutverki sínu skulu þeir ná fram með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að skólarnir skuli efla siðgæðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni o.fl. Telur meiri hluti nefndarinnar að rétt sé að leggja áherslu á að hlutverk framhaldsskóla skuli jafnframt vera að efla færni nemenda sinna í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, og leggur til að breyting verði gerð á málsgreininni. Er þetta álit meiri hlutans í samræmi við þau fyrirmæli sem finna má í 1. mgr. 35. gr., að kennsla í framhaldsskólum skuli fara fram á íslensku. Vill meiri hluti nefndarinnar einnig undirstrika mikilvægi jafnréttismála í þjóðfélaginu og leggur til að breyting verði gerð á málsgreininni í þá átt samkvæmt ábendingu sem fram kom frá Jafnréttisstofu.

Virðulegi forseti. Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um námskrár og námsbrautir. Skapaðist mikil umræða innan nefndarinnar um þennan kafla frumvarpsins og þær breytingar sem í honum felast. Þær felast fyrst og fremst í því að ef frumvarpið verður að lögum mun menntamálaráðuneytið einungis gefa út almennan hluta námskrár, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Hinn hluti aðalnámskrár byggist á námsbrautalýsingum, skv. 23. gr., sem skólarnir setja og hlotið hafa staðfestingu ráðherra.

Að mati meiri hlutans er mikilvægt að varpa ljósi á innihald kaflans. Í fyrsta lagi skiptist aðalnámskrá í almennan hluta og námsbrautalýsingar. Almenni hluti námskrárinnar er settur af ráðherra þar sem útfærðir eru starfshættir og markmið framhaldsskóla og skal kaflinn a.m.k. innihalda þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 21. gr. Á grundvelli 22. gr. setja framhaldsskólar sér skólanámskrá sem jafnframt skiptist í almennan hluta og námsbrautalýsingar, skv. 23. gr. frumvarpsins.

Almenni hluti skólanámskrár skal í meginatriðum innihalda sambærileg atriði og almennur hluti aðalnámskrár, skv. 2. mgr. 22. gr. frumvarpsins. Í honum skal þó einnig fjallað um hvernig viðkomandi framhaldsskóli uppfyllir skilyrði almenna hluta námskrár. Þær námsbrautalýsingar sem framhaldsskólar setja sér verða hluti af skólanámskrá viðkomandi skóla og hluti aðalnámskrár eftir að þær hafa verið staðfestar af ráðherra og verið birtar í Stjórnartíðindum. Í námsbrautalýsingum skal m.a. kveðið á um innihald og vægi áfanga, samhengi náms, vægi námsþátta og lokamarkmið náms. Þannig mun hver framhaldsskóli setja sér skólanámskrá á grundvelli almenna kafla aðalnámskrár og svo á grundvelli skólanámskrárinnar semja sínar eigin námsbrautalýsingar.

Að áliti meiri hlutans er með þessum breytingum mælt fyrir auknu frelsi, svigrúmi og ákvörðunarrétti framhaldsskólanna við að móta starf sitt og námsframboð. Geta framhaldsskólarnir á grundvelli þessa brugðist við breyttum þjóðfélagsaðstæðum og þörfum atvinnulífsins. Aftur á móti er það álit meiri hlutans að hugtökin kjarnaáfangar, valáfangar og skyldunám brautar, sbr. 2. mgr. 23. gr., geti verið hamlandi, t.d. þegar einstaklingar velja ólíka sérhæfingu innan sömu brautar. Er því lagt til að 4., 5. og 6. málsl. 2. mgr. falli brott. Eftir sem áður verður uppbygging námsbrautar skilgreind í almennum hluta aðalnámskrár og er frumvarpsgreinin óbreytt að öðru leyti, m.a. hvað varðar heimild ráðherra til að setja sérstakar reglur um flokkun og þrepaskiptingu náms í samræmi við færni og lokamarkmið námsins. Heimild ráðherra til að gefa út viðmiðunarnámskrá, skv. 1. mgr., helgast af því að það kann að taka einstaka skóla einhvern tíma að byggja upp eigin námskrár eins og 1. mgr. 23. gr. gerir ráð fyrir að hver skóli geri.

Í 25. gr. frumvarpsins er fjallað um starfsgreinaráð. En miklar umræður urðu innan nefndarinnar um hlutverk starfsgreinaráðanna. Komu enn fremur fram miklar athugasemdir í umsögnum starfsgreinaráða sem töldu að störfum þeirra og hlutverki síðustu ára væri gert lágt undir höfði með því að færa störf þeirra meira í átt að ráðgjafar- og umsagnarhlutverki. Á grundvelli gildandi laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, bera starfsgreinaráðin ábyrgð á þróun, eftirliti og mati á þörfum starfsgreina fyrir menntun og þjálfun í formlegu skólakerfi framhaldsskólans. Þau útfæra starfslýsingar og leggja mat á og greina færnikröfur starfa. Jafnframt lýsa þau uppbyggingu og markmiðum starfsnáms, svo sem lokamarkmiðum, námskröfum, uppbyggingu náms, skiptingu náms í áfanga, áfangamarkmiðum, tilhögun náms og kennslu og námsmati auk þess að lýsa aðstöðu og búnaði, sbr. 28. og 29. gr. laganna. Í 25. gr. frumvarpsins er fjallað um hlutverk starfsgreinaráða.

Á grundvelli ákvæðisins skulu þau setja viðmið fyrir skiptingu náms í skóla- og vinnustaðanám og gera tillögur að uppbyggingu og inntaki prófa í einstökum starfsgreinum. Einnig gera þau tillögu um námsbrautalýsingar sem framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar. En ég legg áherslu á að þeim er það ekki skylt. Starfsgreinaráð veitir einnig umsagnir um námsbrautalýsingu starfsnáms sem einstakir framhaldsskólar leita eftir staðfestingu á til ráðherra. Var því sjónarmiði jafnframt hreyft fyrir nefndinni að með þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir væri þeirri hættu boðið heim að iðn- og starfsnámsnemendur öðluðust minni þekkingu og færni en nú er þar sem ekki væri tekið tillit til álits, krafna og reynslu móttökuaðilans, þ.e. atvinnulífsins.

Meiri hlutinn áréttar að mikið og gott starf hefur verið unnið af mörgum starfsgreinaráðum frá gildistöku laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Er það álit meiri hlutans að undirstrika þurfi það hlutverk starfsgreinaráða, samkvæmt frumvarpinu, að vera ráðgefandi fyrir ráðherra um starfsnám í framhaldsskólum. Er það í samræmi við ákvæði gildandi laga. Við nánari afmörkun á hlutverki starfsgreinaráða þykir skýrara að draga fram einstök viðfangsefni sem þeim er ætlað að veita umsögn um eða gera tillögur um til ráðherra. Leggur meiri hlutinn því til breytingar á 25. gr. frumvarpsins þar sem hlutverk starfsgreinaráða er tilgreint. Jafnframt eru lagðar til breytingar á 24. gr. frumvarpsins um fjölda fulltrúa í starfsgreinaráðum og kemur það til móts við athugasemdir umsagnaraðila.

Virðulegi forseti. Í 28. gr. frumvarpsins er fjallað um vinnustaðanám. Byggist greinin á 32. gr. gildandi laga, nr. 80/1996, og er ákvæðið í samræmi við þá grein að frátöldu einu nýmæli. Í frumvarpinu er farin sú leið að auka ábyrgð framhaldsskóla á námi nemenda sinna á þann hátt að skólarnir verði að tryggja nemendum vinnustaðasamning til að ljúka námi. Er ábyrgð á gerð slíkra samninga því færð af herðum nemenda sjálfra og yfir á skólana. Er það álit meiri hlutans að um góða breytingu sé að ræða sem auki rétt nemenda og öryggi enda geti nemandi treyst því að hann geti lokið námi þegar krafist er starfsþjálfunar. Áréttar meiri hlutinn þó að undanfarin ár hefur sú framkvæmd komist á að umsýsla með námssamningum hefur færst í hendur Fræðsluskrifstofu atvinnulífsins í nánum tengslum við starfsgreinaráð í viðkomandi grein. Telur meiri hlutinn að mikilvægt sé að tryggja að þekking, reynsla og gæðaviðmið um vinnustaðanám, starfsþjálfunarsamninga, þjónustu nemaleyfisnefnda o.s.frv., sem eru til staðar hjá fræðsluskrifstofum í iðn- og starfsnámi, nýtist.

Um langt árabil hefur menntamálaráðuneytið átt farsælt samstarf við fræðsluskrifstofur og fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um aðkomu atvinnulífsins að starfsnámi. Hefur ráðuneytið með þjónustusamningum falið þessum aðilum ákveðna umsýslu með framkvæmdinni. Ábyrgð á gerð og staðfestingu samninga um starfsþjálfun liggur hins vegar hjá ráðuneytinu og ef upp hefur komið ágreiningur vegna slita á námssamningi hefur verið unnt að leita með hann til fulltrúa ráðuneytisins. Umboðsmaður Alþingis hefur nýlega bent á að hér þurfi skýrari lagagrundvöll og er í samræmi við það lagt til að þessi breyting verði gerð á frumvarpinu. Með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til verður málsmeðferð skýrari og réttur nemanda ljós til þess að leita aðstoðar og fá skorið úr ágreiningi um framkvæmd umsýsluaðila. Enda ber skóli ábyrgð á gerð sérstaks samnings um vinnustaðanám, sbr. 2. mgr. 28. gr.

Virðulegi forseti. Mjög ítarleg umræða fór fram í nefndinni um IV. kafla frumvarpsins og þá sér í lagi um 15. gr., um námseiningar, og 18. gr., sem fjallar um stúdentspróf og mikilvægi þess að frumvarpið leiði ekki til skerðingar á gildi stúdentsprófs. Í frumvarpinu er reynt að ná utan um þróun síðustu ára með því að skilyrða lágmarkskjarna, setja reglur um viðmið og þrepaskiptingu náms auk almennra skilyrða um kröfur svo sem í 18. gr. frumvarpsins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Stúdentspróf miðar m.a. að því markmiði að undirbúa nemendur undir nám á háskólastigi. Við mat á námsbrautalýsingu til stúdentsprófs og staðfestingu ráðherra á henni skal það vera tryggt að prófið uppfylli almennar kröfur háskóla um undirbúning fyrir nám á háskólastigi.“

Þá segir í kaflanum um stúdentspróf í greinargerð frumvarpsins m.a., með leyfi forseta:

„Þess er að vænta að framhaldsskólar, við gerð námsbrautalýsinga til stúdentsprófs, muni kappkosta að tryggja að meginkostum stúdentsprófsins sé við haldið“

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„ … ljóst er að þörf er á stöðugri samræðu milli framhaldsskóla og háskóla um það, hvernig undirbúningi nemenda fyrir nám á háskólastigi verði best háttað. Af hálfu háskóla hefur sú afstaða komið fram, að undirbúningur fyrir háskólanám eigi að felast í góðu almennu námi. Því til viðbótar þurfi staðgóða þekkingu á þeim sviðum og í greinum sem tengdar eru þeim námsgreinum sem nemendur innrita sig í. Þau sjónarmið þarf að leggja til grundvallar framhaldsskólanámi.“

Af þessu, virðulegi forseti, má ráða þann skýra tilgang þessa frumvarps að styrkja stoðir stúdentsprófs sem undirbúnings undir nám á háskólastigi. Áréttar meiri hluti menntamálanefndar sérstaklega mikilvægi þess að nám til stúdentsprófs sé ekki skert með frumvarpi þessu. Ekki er kveðið á um fjölda eininga til stúdentsprófs í gildandi lögum og telur meiri hlutinn að ekki sé þörf á slíku í frumvarpi þessu.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á það sem ég nefndi hér, ekki síst í ljósi nefndarálits minni hluta menntamálanefndar sem hv. þingmenn Höskuldur Þór Þórhallsson og Kolbrún Halldórsdóttir rita undir. Á blaðsíðu fjögur í kaflanum Skerðing náms til stúdentsprófs segir í því nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Það er mat minni hluta menntamálanefndar að stytting náms til stúdentsprófs sé innbyggð í það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Það byggist á þeirri staðreynd að frumvarpið tilgreinir hvorki einingafjölda né námstíma til stúdentsprófs.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Til þess að tryggt verði að frumvarpið leiði ekki til skerðingar náms til stúdentsprófs þyrfti a.m.k. að tilgreina lágmarkseiningafjölda sem gert væri ráð fyrir að nægði til stúdentsprófs.“

Í ljósi þessa sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans og hefur verið nokkuð til umræðu í opinberri umræðu, meðal annars í plöggum sem okkur þingmönnum hefur borist frá formanni og varaformanni Félags framhaldsskólakennara, sem fram hafa komið einnig í greinum sem birtar hafa verið í fjölmiðlum, þá vil ég taka það alveg sérstaklega fram — og það verður að liggja fyrir í þessari umræðu vegna þeirrar kröfu að inn í lagatextann sé kveðið á um einingafjölda til stúdentsprófs — að í núgildandi lögum er ekki kveðið á um fjölda eininga til stúdentsprófs. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir í þeirri umræðu sem við stöndum í núna. Það er líka mjög mikilvægt að menn hafi það í huga sem segir í meirihlutanefndaráliti okkar sem að því stöndum og ég las áðan og ég ætla að endurtaka hér fyrir hv. þingmenn og sérstaklega þá sem hafa látið til sín taka í umræðunni um einingar og það að verið sé með frumvarpi þessu að stytta námstíma til stúdentsprófs en í nefndarálitinu segir skýrt, með leyfi forseta:

„Af þessu má ráða þann skýra tilgang þessa frumvarps að styrkja stoðir stúdentsprófs sem undirbúnings undir nám á háskólastigi. Áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að nám til stúdentsprófs sé ekki skert með frumvarpi þessu.“

Ég sé að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er kominn í salinn og því ætla ég að endurtaka það sem ég sagði áðan, með leyfi forseta:

„Ekki er kveðið á um fjölda eininga til stúdentsprófs í gildandi lögum og telur meiri hlutinn að ekki sé þörf á slíku í frumvarpi þessu.“

Ég vona að ég hafi komið þessu sjónarmiði rækilega til skila og að til þess sjónarmiðs verði tekið tillit í umræðunni um þetta frumvarp á hinu háa Alþingi (Gripið fram í.) vegna þess að í opinberri umræðu, í umræðu í nefndinni og víðar hefur því verið haldið fram að þetta sé algerlega nauðsynlegt til að koma megi í veg fyrir það að stjórnvöld séu með þessu frumvarpi að stytta námstíma til stúdentsprófs. (Gripið fram í.) Svo er ekki. Stúdentsprófið mun áfram hafa þá stöðu að veita almennt aðgang að háskólanámi og sú breyting sem gerð er í frumvarpinu leiðir ekki til þess að háskólar krefji nemendur um að sitja undirbúningsnám fyrir inngöngu í deildir skólanna. Þá telur meiri hlutinn að með frumvarpinu hafi skólarnir jafngóða eða betri aðstöðu til að bjóða nemendum jafngilt og sambærilegt nám og nú. Þá mun frumvarpið að mati nefndarinnar styrkja svigrúm framhaldsskóla til að bjóða nemendum upp á nám við hæfi og sveigjanlega námsframvindu.

Virðulegi forseti. Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að tekið verði upp nýtt einingakerfi í framhaldsskólum sem byggist á vinnuframlagi nemenda. Það kerfi sem lagt er til að tekið verði upp samsvarar því kerfi sem gildir fyrir háskóla, ECTS-kerfi, og samkvæmt því færir ársvinna nemenda honum 60 einingar. Áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að vel takist til við innleiðingu frumvarpsins og að vanda verði til verka. Leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á að samráð verði haft við hagsmunaaðila, meðal annars framhaldsskólakennara og skólameistara, við jafnmikilvægt verkefni og þróun og upptaka nýs einingakerfis er, þar sem lögð verður áhersla á að framhaldsskólarnir verði samtaka við innleiðingu frumvarpsins.

Í 45. gr. er að finna ákvæði um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla. Telur meiri hluti nefndarinnar rétt að undirstrika að þeim gjaldtökuheimildum, sem þar er kveðið á um, er ekki ætlað að ná til annarra en opinberra framhaldsskóla. Aftur á móti gerir ráðherra þjónustusamninga við aðra framhaldsskóla en opinbera framhaldsskóla, skv. 3. mgr. 44. gr. þar sem fram kemur að í þjónustusamningum skuli meðal annars kveða á um gjaldtöku af nemendum og greiðslur fyrir aðra þjónustu sem veitt er á grundvelli viðkomandi samnings. Telur meiri hlutinn eðlilegt að sömu viðmið verði viðhöfð í þeim samningum. Leggur meiri hlutinn því ekki til breytingu á 44. gr. frumvarpsins. Enn fremur var umræða innan nefndarinnar varðandi nám utan reglubundins daglegs starfstíma skóla og fjarnám, sbr. 4. mgr. 45. gr. frumvarpsins. Telur meiri hlutinn að skýra þurfi upphæð gjalds sem framhaldsskólum verði heimilt að innheimta af nemendum sem stunda nám utan reglubundins daglegs starfstíma og í fjarnámi. Leggur meiri hlutinn til að gjaldið skuli miðast við að hámarki 10% af meðalkennsluframlagi á nemenda á framhaldsskólastigi samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám, að öðrum kosti skuli reikna gjaldið hlutfallslega miðað við fjölda námsgreina. Undirstrikar meiri hlutinn að hér er um heimild að ræða sem takmarkast fyrst og fremst við það að til falli raunverulegur umframkostnaður. Sé um slíkt að ræða er skólum þá einungis heimilt að taka gjald af nemendum að hámarki 10% meðalkennsluframlagi miðað við einstök fög. Miðast þetta þak við að um fullt nám sé að ræða. Sé nemandi í fjarnámi, stundi nám utan reglubundins daglegs starfstíma skólans eða ekki í fullu námi þá lækkar þetta þak í réttu hlutfalli við fjölda námsgreina. Meiri hlutinn áréttar að ákvæði laganna og reglur settar með stoð í þeim, til dæmis varðandi kröfur til náms, viðurkenningu á einingum og gæðaeftirlit gilda einnig um þá áfanga sem framhaldsskólar bjóða upp á í námi utan reglubundins starfstíma skólanna og í fjarnámi. Hvað varðar ákvarðanir um gjaldtöku í opinberum framhaldsskólum áréttar meiri hlutinn að þær skuli vera kæranlegar til ráðherra og meðferð slíkra kærumála skuli fara að reglum stjórnsýslulaga nr. 33/1997. Leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæði 45. gr. til samræmis því.

Ef við víkjum þá að starfsfólki framhaldsskóla þá er í 8. gr. frumvarpsins fjallað um starfsfólk framhaldsskóla. Í fjölda umsagna voru gerðar athugasemdir við heiti greinarinnar og tekur meiri hlutinn undir þær athugasemdir að nota orðið starfsfólk framhaldsskóla í stað starfslið framhaldsskóla og leggur til að því verði breytt og samræmt í ákvæðum frumvarpsins og er þetta sambærileg breyting og nefndin leggur til varðandi starfsfólk í leikskólum og grunnskólum.

Ítarleg umræða fór fram innan nefndarinnar um starfsfólk framhaldsskóla. Hélst sú umræða í hendur við þá umræðu sem átti sér stað um starfsfólk leikskóla og grunnskóla. Í frumvarpi til laga um leikskóla má finna í 3. mgr. 6. gr. ákvæði um að óheimilt sé að ráða til starfa við leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Er jafnframt kveðið á um að við ráðningu skuli liggja fyrir sakavottorð eða heimild leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Sama ákvæði, sambærilegt, er að finna í frumvarpi til laga um grunnskóla, þ.e. að þeir sem ráðast til starfa í grunnskóla megi ekki hafa gerst brotlegir við XXII. kafla almennra hegningarlaga en rétt er að taka það fram að sá kafli inniheldur ákvæði sem lúta að kynferðisbrotum. Með vísan í álit nefndarinnar um 287. mál, frumvarp til laga um leikskóla, og þeirra sjónarmiða sem þar koma fram leggur meiri hlutinn til að tekið verði upp samhljóða ákvæði í frumvarp þetta. Áréttar meiri hlutinn að nemendur framhaldsskóla geta ekki síður orðið fórnarlömb einstaklinga sem gerst hafa brotlegir við kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Enn fremur undirstrikar meiri hlutinn að einstaklingur verður lögráða við 18 ára aldur, sbr. 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Jafnframt eru aldursmörk barnaverndarlaga 18 ár, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Helst þetta sjónarmið meiri hlutans í hendur við 32. gr. frumvarpsins þar sem réttur barna frá 16–18 ára til náms í framhaldsskólum er tryggður.

Í umsögn Kennarasambands Íslands var gerð athugasemd við 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins um skólanefndir. Bendir sambandið á að með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu að einn af þremur áheyrnarfulltrúum í skólanefnd skuli nú tilnefndur af skólafundi feli það í sér að ekki sé lengur tryggt að kennarar eigi þar áheyrnarfulltrúa, sbr. 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að rétt til setu á skólafundi eigi allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda. Tekur meiri hlutinn undir athugasemdir Kennarasambandsins og telur mikilvægt að tryggt sé að kennarar eigi áheyrnarfulltrúa á fundum skólanefndar umfram aðra starfsmenn framhaldsskóla og leggur í ljósi þess til breytingar á 1. mgr. 5. gr.

Í síðasta kafla þessa nefndarálits er vikið að nemendum. Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um nemendur framhaldsskóla. Ber þar helst að geta að í 32. gr. frumvarpsins er lögfestur réttur til að hefja nám í framhaldsskóla og stunda þar nám til 18 ára aldurs. Þeir sem eiga þennan rétt eru þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri. Er í þessari grein því lagt til að lögfest verði fræðsluskylda stjórnvalda fyrir börn að 18 ára aldri og er það álit meiri hlutans að hér sé stigið stórt skref til að vinna gegn brottfalli úr námi. Í skýringum við greinina kemur fram að þessi réttur til að stunda nám sé háður því að viðkomandi nemandi hlíti skólareglum en um þær er fjallað í 33. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að í skólanámskrám skuli settar reglur um réttindi og skyldur nemenda og um meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga fyrir brot á þeim. Í 2. mgr. kemur jafnframt fram að ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gildi við meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Er það álit meiri hlutans að hér sé um nokkuð íþyngjandi ákvæði að ræða og leggur hann til að gerðar verði breytingar sem kveða meðal annars á um að fylgja skuli reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð við ákvörðun skólastjóra um rétt eða skyldu nemenda, samkvæmt. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Með breytingunni er undirstrikað að ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem varða þá verulega og teljast til stjórnvaldsákvarðana í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga lúti reglum um málsmeðferð samkvæmt þeim lögum. Í því sambandi er rétt að fram komi að ákvæði stjórnsýslulaga byggja á því að kennsla falli almennt ekki undir stjórnsýslulögin né heldur ákvarðanir sem lúta að framkvæmd kennslu, svo sem um það hvaða námsefni skuli lagt til grundvallar við kennslu og fleira. Ákvarðanir um agaviðurlög og skyld úrræði geta aftur á móti fallið undir stjórnsýslulögin. Við nánari afmörkun á því hvort líta beri á ákvörðun sem stjórnvaldsákvörðun er meðal annars tekið fram í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum að líta verði til þess hvers eðlis ákvörðunin er, en ekki eingöngu til þess hver tekur ákvörðunina eða hvers efnis hún er. Í þessu sambandi hefur verið litið svo á, samanber álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 761/1993 og í úrskurðarframkvæmd menntamálaráðuneytisins, að hin vægari úrræði sem notuð séu til að halda uppi aga og almennum umgengnisvenjum teljist almennt ekki stjórnvaldsákvarðanir. Þannig munu ávítur og áminningar svo og brottvísun nemanda úr ákveðinni kennslustund eða það sem eftir er skóladags almennt ekki verða taldar stjórnvaldsákvarðanir. Á hinn bóginn hefur umboðsmaður Alþingis í fyrrgreindu áliti bent á að sú ákvörðun að meina nemanda að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi um nokkurt skeið eða víkja honum úr skóla í fleiri en einn skóladag teljist ákvörðun um réttindi og skyldur samkvæmt stjórnsýslulögum. Við mat á því hversu lengi hægt sé að meina nemanda um aðgang að fagi eða námsgrein verður að horfa til eðlis ákvörðunarinnar og þau sjónarmið sem að baki henni búa. Almennt verður að miða við að ákvörðun um að meina nemanda aðgang lengur en tvær vikur að kennslu í ákveðnu fagi eða námsgrein telst ákvörðun um réttindi eða skyldur í merkingu stjórnsýslulaga.

Þá er vikið í þessu nefndaráliti að nemendum með sérþarfir samkvæmt 34. gr. Ég vísa í þá umfjöllun. En með þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til er verið að koma til móts við þau sjónarmið og þær reglur sem fram koma í frumvarpi til laga um grunnskóla og hafa það að markmiði að styrkja stöðu nemenda sem þurfa á sérþjónustu að halda umfram það sem kveðið er á um í frumvarpinu eins og það var lagt fram.

Ég hef áður vikið að breytingum vegna íslensku, en í 35. gr. frumvarpsins er meðal annars fjallað um nemendur með annað móðurmál en íslensku. Telur meiri hlutinn að eðlilegt sé að gera þá kröfu að framhaldsskólar setji sér móttökuáætlun vegna nemenda sem hefja þar nám eða flytjast milli skóla. Er þetta ekki síst mikilvægt þegar kemur að móttöku nemenda með annað tungumál. Leggur meiri hlutinn til breytingar á greininni þar sem lögð er skylda á framhaldsskóla að setja sér áætlun um móttöku nemenda. Ákvæðið á sér samsvörun í 16. gr. frumvarps til laga um grunnskóla sem lagt er fram samhliða frumvarpi til laga um framhaldsskóla.

Mikil umræða átti sér stað innan nefndarinnar um rétt nemenda til náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskólum eins og reyndar í umræðum um sömu réttindi á öðrum skólastigum, þ.e. í grunnskólum. Grundvallaðist sú umræða fyrst og fremst á þeim hugmyndum sem frumvarpið sjálft byggist á, auknu frelsi skóla til að setja sér námsbrautarlýsingar og auknu frelsi nemenda til að setja nám sitt saman með mismunandi hætti. Áréttar meiri hlutinn að slík sjónarmið hljóti að haldast í hendur við rétt nemenda til að leita sér ráðgjafar um hvort tveggja nám og starf. Telur nefndin að kveða verði fastar að orði en frumvarpið gerir og leggur til breytingar þess efnis að nemendur skuli njóta náms- og starfsráðgjafar af til þess bærum sérfræðingum, þ.e. háskólamenntuðum í náms- og starfsráðgjöf. Er það álit meiri hlutans að hér sé komið á móts við kröfur og athugasemdir sem fram komu í umsögn Félags náms- og starfsráðgjafa.

Ég vil síðan að lokum segja það, virðulegi forseti, að hlutverk nemendafélaga varð tilefni töluverðrar umræðu innan nefndarinnar en í ákvæði 39. gr. er ekki kveðið á um hlutverk þeirra. Að mati meiri hlutans er rétt að ítreka það hlutverk nemendafélaga að vinna að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæðinu til samræmis því.

Aðrar breytingar á frumvarpinu eru smávægilegar og varða einkum lagatæknileg atriði.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og liggja fyrir á sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit ritar sá sem hér stendur, og hv. þingmenn Einar Már Sigurðarson, Pétur H. Blöndal, Guðbjartur Hannesson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Katrín Júlíusdóttir. Hv. þm. Kjartan Eggertsson, sem sat fundinn fyrir hv. þm. Jón Magnússon sem áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja þetta. Ég hef mælt fyrir fjórum nefndarálitum menntamálanefndar í mikilvægum málum vegna frumvarps til laga um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og frumvarp um menntun og ráðningu kennara og starfsfólks þessara skólastiga. Þetta eru mikilvæg mál og ég leyfi mér að halda því fram að hv. menntamálanefnd hafi lagt gríðarlega vinnu í þessi mál. Við höfum hitt hundruð gesta og hlustað á afar mörg sjónarmið vegna þessara mála og ég leyfi mér að halda því fram að vinnubrögðin hafi verið góð við meðferð þessara mála og ég þakka þeim hv. þingmönnum sem sæti eiga í nefndinni fyrir samstarfið. Um þetta eina frumvarp af þeim fjórum sem ég nefndi er ágreiningur milli meiri hluta og minni hluta. Það þýðir hins vegar ekki að vinnubrögðin innan nefndarinnar við meðferð þessa máls hafi verið einhvern veginn öðruvísi heldur en meðferð frumvarpa um leikskóla, grunnskóla og menntun og ráðningu starfsmanna og kennara þessara skóla. Þau hafa verið nákvæmlega þau sömu og ég sem formaður nefndarinnar hef lagt mig fram um að reyna að verða við sjónarmiðum og hlusta á athugasemdir allra nefndarmanna vegna þessa máls eins og hinna. Ég þakka félögum mínum í nefndinni fyrir samstarfið en vil taka það fram að þrátt fyrir að ágreiningur sé um þetta þá fellst ég ekki á að vinnubrögðin í tengslum við það í nefndinni hafi verið einhver önnur heldur en varðandi hin málin.

Ég vil líka segja það vegna þess sem fram kemur í nefndaráliti minni hlutans, þar sem lagt er til að frumvarpinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, að frumvörp hæstv. menntamálaráðherra um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntunarmál kennara og starfsfólks þessara skóla haldast í hendur. Haldi menn að þessu frumvarpi verði frestað en hin málin verið afgreidd þá er það mikill misskilningur. Það er ómögulegt að fresta frumvarpi til framhaldsskóla til frekari meðferðar og afgreiðslu síðar en keyra hin málin í gegn. Þau eru bundin þannig böndum þessi frumvörp fjögur að ætli menn sér að leggja það til að frumvarpi til framhaldsskólalaga verði frestað þá fylgja hin í kjölfarið, þar á meðal frumvarpið um menntun og ráðningu kennara og starfsmanna í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Ég leyfi mér að efast um að þeir sem það leggja til geri sér grein fyrir þeim gríðarlegu hagsmunum sem í húfi eru fyrir nemendur í grunnskóla, nemendur í leikskóla og fyrir réttindi og stöðu kennara. Það er afar mikilvægt að þingheimur hafi þetta í huga.

Að svo búnu, hæstv. forseti, lýk ég umfjöllun minni um nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar.