Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 14:37:33 (7936)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[14:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Áður en ég hef yfirferðina — ég sé að hv. þm. Einar Már Sigurðarson er strax kominn með tilefni til andsvars við ræðu mína. Ég veit ekki hvort þessi fyrstu orð mín hafi verið þess eðlis.

Hæstv. forseti. Áður en ég hef yfirferðina um nefndarálit minni hlutans langar mig að bregðast aðeins við síðustu orðum hv. þingmanns, formanns menntamálanefndar, Sigurðar Kára Kristjánssonar. Það hefur aldrei neinn af minni hlutanum sagt nokkuð annað en gott um vinnubrögðin í nefndinni. Hv. þingmaður hefur fengið meira hrós frá stjórnarandstöðunni úr þessum ræðustóli vegna þessara þingmála en í annan tíma.

Nú gildir það sama um framhaldsskólafrumvarpið sem hér er til umræðu og hin tvö þannig að ég staðfesti það. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson stjórnaði vinnunni í nefndinni ekki með öðrum hætti varðandi framhaldsskólafrumvarpið. Hins vegar var mjög ljós grundvallarágreiningur hv. þingmanns og stjórnarflokkanna tveggja og stjórnarandstöðuflokkanna í nefndinni. Því til marks eru orð hv. þingmanns þegar hann sagði að það væri mat meiri hlutans að málin fjögur yrðu ekki slitin í sundur. Við í minni hlutanum óskuðum eftir því í tvígang og í annað skiptið formlega að þessu máli yrði frestað. Hin gætu farið í gegn og orðið að lögum enda mun betur unnin og um þau mun betra samkomulag meðal skólasamfélagsins. Hins vegar loga eldar undir þessu frumvarpi, um það er engin sátt. Nefnd sú sem falið var að semja þetta frumvarp náði ekki að skila sameiginlegu áliti. Upp úr samvinnu þeirrar nefndar slitnaði á vordögum 2007. Hún skilaði síðan af sér á haustdögum án þess að haldnir hefðu verið fundir allt sumarið. Ég vil því meina að vinnubrögð við undirbúning þessa frumvarps hafi verið allt önnur en við hin. Um þetta mál standa mjög miklar deilur og þær koma fram í nefndaráliti minni hlutans.

Mér finnst síðan dálítið merkileg yfirlýsingin frá hv. þingmanni, framsögumanni nefndarálits meiri hlutans og formanni menntamálanefndar. Hann segir eitthvað á þá leið að haldi menn því fram að hægt sé að fresta einu af þessum fjórum frumvörpum, sé það ómögulegt. Hann sagði að þau væru bundin slíkum böndum að þau yrðu ekki slitin í sundur enda væru gríðarlegir hagsmunir í húfi. Hvaða hagsmuni nefndi hv. þingmaður í máli sínu? Hann nefndi hagsmuni nemenda framhaldsskólanna og svo undirstrikaði hann hagsmuni kennara, réttindi þeirra og stöðu. Hann gerði það með slíkum þunga, hæstv. forseti, að ég ætla að leyfa mér að setja fram þá kenningu hér að um það hafi verið tekin ákvörðun, kannski fyrir löngu síðan, að stjórnarmeirihlutinn mundi standa vörð um nokkuð umdeildar kröfur kennara um að fá meistaranámið viðurkennt á öllum skólastigum. Við ræddum þessi mál hér inn í nóttina, sem mér finnst nú vera nýliðin, að staðinn yrði vörður um frumvarpið gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn fengi sinn framhaldsskóla, framhaldsskólann sem á rætur að rekja til skýrslunnar sem Verslunarmannafélagið gaf út 2002 eða 2003. Framhaldsskólann sem lýst var í bláu skýrslunni 2004, framhaldsskólann sem framhaldsskólakennarar hafa andæft frá því að hugmyndir um hann litu dagsins ljós. Það er sá framhaldsskóli sem verið er að lögleiða í því frumvarpi sem hér er til staðar. Ég mótmæli því, hæstv. forseti, að það sé óframkvæmanlegt að slíta þetta frumvarp frá hinum fjórum, fresta afgreiðslu þess, vinna það betur, koma því í það horf að um það geti ríkt sátt en jafnframt að lögleiða hin þrjú. Ef hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson heldur öðru fram þá er það vegna þess að hann er að þvinga í gegn framhaldsskóla sem enginn vill nema Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin núna sem er búin að leggjast flöt fyrir hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar.

Hæstv. forseti. Nú sé ég ástæðu til að hefja eiginlega yfirferð yfir nefndarálit minni hlutans sem lesa má á þskj. 1061.

Frumvarpið er, eins og allir vita hér í þessum sal, eitt fjögurra frumvarpa sem menntamálaráðherra leggur fyrir 135. löggjafarþing. Ásetningur hæstv. menntamálaráðherra var alveg klár í flutningsræðu hennar og ég tek undir hann að miklu leyti, þ.e. að það er heildstæð endurskoðun sem hér fer fram á skólastigunum þremur, leikskólastiginu, grunnskólastiginu og framhaldsskólastiginu. Í ofanálag er verið að endurskoða grundvöll kennaramenntunar í landinu og það frumvarp fylgir með í spyrðunni.

Það kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra í 1. umr. um málið 7. desember 2007 að hún teldi mikilvægt að þessi mál fylgdust að í gegnum þingið enda væri hér um heildstæða nálgun að ræða. Í máli ráðherrans kom fram að hún liti svo á að þetta væri afrakstur vinnu margra aðila, frumvörpin endurspegluðu sjónarmið og hugsjónir þeirra sem best þekktu til menntamála þjóðarinnar og það væri mikilvægt — og ég undirstrika það, hæstv. forseti — það væri mikilvægt að um málin ríkti víðtæk sátt. Hæstv. menntamálaráðherra var á því máli í 1. umr. að það væri mikilvægt að um málin ríkti víðtæk sátt. Ég treysti því að hún hafi meint um öll málin. Jafnframt sagði ráðherrann að skoðanir gætu verið skiptar um leiðir að þessu meginmarkmiði en meginmarkmiðið væri ljóst, að gera gott skólastarf og gott skólakerfi enn betra.

Ráðherrann vissi auðvitað sem var þann 7. desember sl. að megn óánægja var með eitt af þessum frumvörpum, nefnilega það sem hér er til umfjöllunar. Um þá óánægju vitnar fjöldi umsagna sem menntamálanefnd hefur borist á liðlega fjórum mánuðum sem hún hefur haft málið til meðhöndlunar og ekkert lát er á óánægjunni því að núna á lokaspretti vinnunnar streyma inn til okkar, ekki bara þingmanna í menntamálanefnd Alþingis heldur allra þingmanna eftir því sem ég best veit, ályktanir frá kennarafélögum framhaldsskólanna. Þegar þetta er ritað fyrir um það bil tveimur dögum síðan er þriðjungur framhaldsskóla á Íslandi búinn að senda þingheimi áskoranir um að þessu máli verði vikið til hliðar og það verði unnið betur. Þeir skólar eru: Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskóli Austurlands, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Ísafirði, Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Fjölbrautaskólinn í Vestmannaeyjum.

Síðan hafa mér borist í hendur — og nú skal ég ekki þvertaka fyrir að það gætu hafa komið fleiri en það sem ég hef áttað mig á — a.m.k. tvær áskoranir í viðbót. Þær eru frá Iðnskólanum, þ.e. trúnaðarmönnum Iðnskólans í Reykjavík og stjórn kennarafélags Iðnskólans í Reykjavík. Þau skrifa undir áskorun hér og svo er ályktun frá Kennarafélagi Menntaskólans á Egilsstöðum. Það streyma enn inn áskoranir frá framhaldsskólum landsins um að þingheimur vakni til vitundar um að þetta mál megi ekki verða að lögum. (Gripið fram í: VMA.) VMA er kallað fram í, já, Verkmenntaskólinn á Akureyri er líka búinn að senda okkur áskorun. Það er komið langt yfir þriðjung, það fer að nálgast að helmingur starfandi framhaldsskóla á landinu sendi okkur áskoranir. Heldur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að það sé bara allt í lagi með þetta frumvarp? Nei, auðvitað er ekki allt í lagi með þetta frumvarp ef hátt í helmingur kennarafélaga í framhaldsskólum landsins hvetur okkur til að vinna málið betur. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég vil segja að auðvitað eru margar af breytingartillögum meiri hlutans af hinu góða. Ég get alveg viðurkennt það og það viðurkenna framhaldsskólarnir. En aðrar eru ekki eins góðar og í heildina er málið ekki fullunnið.

En hver eru þá helstu ágreiningsefnin? Gagnrýnin á þetta frumvarp byggist á nokkrum meginatriðum sem eru talin upp á hnitmiðaðan hátt í grein eftir formann og varaformann Félags framhaldsskólakennara sem birtist í Fréttablaðinu 9. maí og ég vil leyfa mér að vitna til. Reyndar höfum við fengið nýja útfærslu af því frá Félagi framhaldsskólakennara sem birtist í Fréttablaðinu. Það er mun efnismeira og ég geri ráð fyrir að það bréf sem barst í gær verði til frekari umfjöllunar í ræðum annarra þingmanna á eftir. En meginatriðin eru þessi að félagið telur ýmislegt í frumvarpinu geta orðið efni í góða menntastefnu ef rétt er staðið að málum en leggur jafnframt áherslu á að það verði lagfært með tilliti til eftirfarandi sjónarmiða:

1. Fyrirætlanir um að draga eigi úr miðstýringu í námsframboði og námsskrárgerð þurfi að koma skýrt fram í nýjum lögum.

2. Það þarf að tilgreina námseiningafjölda til stúdentsprófs svo tryggt verði að nemendum bjóðist jafngilt og sambærilegt nám og nú er.

3. Skýra þarf tilgang þess að tekið skuli upp nýtt einingakerfi fyrir framhaldsskólastigið.

4. Skýra þarf tilgang þess að lengja skólaárið í framhaldsskólanum um fimm daga.

5. Bæta þarf forsendur skóla til að bjóða nemendum upp á nám við hæfi og sveigjanlega námsframvindu.

6. Tryggja þarf rétt nemenda og kennara til þátttöku í ákvörðunum um innra starf framhaldsskólans.

7. Tryggja verður rétt nemenda til fjölbreytilegs framhaldsskólanáms.

8. Tryggja þarf að skólar geti axlað aukna ábyrgð á vinnustaðanámi nemenda.

9. Tryggja þarf að ólögráða framhaldsskólanemendur njóti sambærilegs stuðnings ráðgjafar og þjónustu og ólögráða nemendur á öðrum skólastigum.

10. Markmið um aukna náms- og starfsráðgjöf fyrir nemendur þurfa að koma skýrar fram í nýjum lögum.

11. Tryggja þarf rétt ólögráða nemenda til framhaldsskólavistar í grennd við heimili sitt.

12. Setja þarf gæðaviðmiðun þjónustu við nemendur í fjar- og dreifnámi og tryggja jafnan aðgang þeirra að náminu.

13. Tryggja þarf að nám og námsgögn verði ólögráða nemendum að kostnaðarlausu.

Þetta er ekki stuttur listi, hæstv. forseti, sem Félag framhaldsskólakennara telur að sé ekki tryggt í lögunum. Margt af þessu segir meiri hlutinn í orði kveðnu og í meirihlutaáliti sínu að sé í lagi og verði í lagi. En kennararnir sem eiga að stýra þeirri vinnu sem fram fer í skólunum hafa enga vissu. Þeir telja sig ekki hafa neina vissu fyrir því að þau orð haldi, enda hafi málin ekki verið útskýrð með þeim hætti að það sé þeim skiljanlegt eða nægilegt veganesti inn í endurnýjaðan framhaldsskóla. Þetta er mjög alvarlegt og við verðum að hlusta á þessar raddir og ekki bara hlusta eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði áðan. Það hefur verið hlustað á alla, það er alveg rétt, það hefur verið hlustað á öll sjónarmið en það hefur ekkert verið gert með mjög mörg þeirra, mjög mörg veigamikil sjónarmið. (Gripið fram í: Þetta er ekki sanngjarnt.) Þetta held ég að sé fullkomlega sanngjarnt, hæstv. forseti. (Gripið fram í: ... breytingartillögu.)

Við í minni hlutanum segjum í nefndaráliti, hæstv. forseti, að það sé í sjálfu sér ekkert undrunarefni þó að framhaldsskólakennarar skuli bregðast við með þeim hætti sem raun ber vitni. Í máli fulltrúa félagsins sem mætti á fund menntamálanefndar kom fram að vegna ágreinings um grundvallaratriði málsins hafi slitnað upp úr samstarfinu í nefndinni sem ég nefndi áðan sem falið var að semja þetta frumvarp sl. vor. Þá var hætt að boða fund í nefndinni. Hvað gerðist þá? Þar með var rofin sú sátt sem kennarar töldu sig hafa í farteskinu í þeirri vinnu sem þá stóð yfir eftir að 10 skrefa samkomulagið við menntamálaráðherra var gert.

Þannig standa málin enn í dag. Sáttin hefur verið rofin og ekki hefur verið bætt þar úr. Veturinn 2006 voru haldnir 11 fundir í nefndinni fullskipaðri. Sá síðasti var haldinn 18. apríl árið 2006. Síðan var ekki kallaður saman fundur fyrr en 5. nóvember 2006 og það var lokafundur nefndarinnar. Á þeim fundi lögðu fulltrúar Kennarasambands Íslands fram yfirlýsingu sem fylgir nefndaráliti þessu í fylgiskjali. Í vinnu menntamálanefndar hefur lítið sem ekkert verið gert til að koma til móts við félög framhaldsskólakennara ef frá eru taldar breytingartillögur varðandi starfsnámið sem ganga hvað lengst í áttina að sjónarmiðum sem framhaldsskólakennarar hafa talað fyrir og starfsnámsnefndin svokallaða. En í huga okkar í minni hlutanum hefur ekki verið gerð nein tilraun til að koma til móts við önnur meginágreiningsefni.

Hæstv. forseti. Því er haldið fram af hæstv. menntamálaráðherra að frumvarpið sé afrakstur víðtæks samráðs og að byggt sé á störfum starfshóps hins svokallaða tíu punkta samkomulags ráðherra og Kennarasambands Íslands. Til þess samráðs var stofnað þegar ráðherrann hafði tekið undir sjónarmið Verslunarmannafélags Reykjavíkur og fleiri aðila á vinnumarkaði um nauðsyn þess að stytta nám til stúdentsprófs í mikilli andstöðu við fagfélög kennara og ekki síður í mikilli andstöðu við námsmenn. Stofnaðir voru nokkrir starfshópar í kjölfar tíu punkta samkomulagsins og þeir skiluðu af sér efnismiklum niðurstöðum til ráðherra. Þegar þær niðurstöður eru bornar saman við frumvarpið sést að í veigamiklum atriðum er vikið frá leiðsögn starfshópanna. Nánar um það má lesa í umsögn Kennarasambands Íslands í sérstakri greinargerð sem sambandið vann fyrir nefndina þar sem tíundað er hvaða tillögur starfshópanna skiluðu sér inn í frumvarpið og hverjir ekki.

Nú skal ég taka það fram að ég er ekki að gera kröfu um að allar hugmyndir Kennarasambandsins hefðu átt að skila sér nákvæmlega eins og Kennarasambandið setti þær fram inn í frumvörpin. Hins vegar þykir mér mjög forvitnilegt, og ég tel að öðrum finnist það sem vilja fylgjast með þessu máli ofan í kjölinn, að sjá hvaða hugmyndir voru til staðar hjá Kennarasambandinu í þessari vinnu, hverjar af þeim hugmyndum náðu fram að ganga og hverjar ekki. Ég bið um að ekki verði farið að túlka orð mín á annan hátt en þann að ég legg þetta fram til upplýsingar um það hvernig málin hafa verið unnin og að hvaða leyti komið hefur verið til móts við sjónarmið kennara og að hvaða leyti ekki.

Í meðferð menntamálanefndar var svo sem ekki farið á neinn skipulegan hátt yfir þessa greinargerð en í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar er reynt að koma inn einhverjum tillögum starfsnámsnefndarinnar og raunar einhverjum fleirum sem eiga rætur í sjónarmiðum kennara í þessum efnum. Eins og ég sagði áðan er það auðvitað til bóta þó að það færi ekki nándar nærri nógu langt til að lægja hér öldur eða mynda sátt um þetta mál. Eins og segir í nefndarálitinu tel ég að allar þær tilraunir hafi verið til bóta en það hefur sem sagt ekkert verið gert í því að bera frumvarpið beinlínis saman við tillögur starfshóps sem almenna braut eða tillögur hópsins um sveigjanleika og fjölbreytni í skipulagi náms og námsframboðs. Þá eru sjónarmið starfshóps um náms- og starfsráðgjöf sniðgengin í frumvarpinu og ég tel það mjög miður og alvarlegt. Tillögur starfshóps um fjar- og dreifinám eru hvergi nefndar í frumvarpinu sem ég tel líka mjög miður. Ég tel að þingmenn landsbyggðarinnar verði að taka það til sérstakrar skoðunar.

Kennarasamband Íslands segir í umsögn sinni til menntamálanefndar að sú fullyrðing sem frumvarpshöfundar setja fram í greinargerð með frumvarpinu um að náið tillit hafi verið tekið til allra tillagna og sjónarmiða, standist ekki, frumvarpið sé að töluverðu leyti verk embættismanna menntamálaráðherra. Ég tel að það sé til umhugsunar í þessum sal hvernig þessari vinnu allri lauk og hverjir það voru sem á endanum pökkuðu henni inn og þá um leið hverra verk það eru sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar — sem töluðu mikið um menntamál í aðdraganda síðustu kosninga — blessa nú í þessari umræðu.

Það er mat minni hlutans í menntamálanefnd að í nefndarstarfinu hafi komið fram margir alvarlegir ágallar á vinnubrögð við undirbúning framhaldsskólafrumvarpsins sem full ástæða sé til að gagnrýna harðlega. Það má segja að áform menntamálaráðherra um styttingu náms til stúdentsprófs gangi aftur í frumvarpinu og því sé allt tal um sátt hvað það efni varðar orðin tóm, eða eins og einn gestanna orðaði það: Það er í þessu frumvarpi dulbúin stytting.

Hæstv. menntamálaráðherra talaði þann 7. desember, eins og ég sagði áðan, um hin göfugu markmið sem væru til staðar í þessu frumvarpi. Hún lagði mikla áherslu á að frumvarpið ætti að tryggja framhaldsskóla fyrir alla, m.a. með fræðsluskyldu til 18 ára aldurs, að námsframboð yrði stóraukið, náms- og starfsráðgjöf stórefld ásamt öðrum persónubundnum stuðningi við nemendur. Í því sambandi var sérstaklega nefndur aukinn stuðningur við fatlaða nemendur og nemendur með heilsutengdar sérþarfir. Allt þetta ætti að stuðla að því að minnka brottfall, enda mundu allir nemendur eiga kost á námi við hæfi. Ráðherra lofaði líka að gildi stúdentsprófsins yrði óskorað þótt inntak og skipulag prósenta yrði með mismunandi hætti. Á sama hátt hefur hv. þingmaður, formaður menntamálanefndar, sagt það hér í ræðustóli og hann undirstrikaði það ótal sinnum inni í nefndinni að það væri ekki meiningin að skerða nám til stúdentsprófs. Ég held að hann hafi sagt „stytta“, við verðum að hugleiða þessa orðanotkun líka. Stytting þarf ekki að vera sama og skerðing en skerðing náms til stúdentsprófs er mjög alvarleg.

Mér sýnist hins vegar að viðbrögðin við orðum hæstv. menntamálaráðherra þann 7. desember og þá um leið orðum hv. formanns menntamálanefndar núna séu með þeim hætti að fólk treystir ekki þessum orðum. Efnið sem að baki liggur, frumvarpið og það sem gefið hefur verið út á prenti í greinargerð með frumvarpinu, gerir það ekki að verkum að framhaldsskólakennarar eða framhaldsskólanemar treysti því sem sagt er.

Hæstv. menntamálaráðherra lofaði sérstaklega nýju einingakerfi í þessum ræðustóli þann 7. desember sl. og sagði að mikilvægt væri að dregið yrði úr miðstýringu á námsframboði og námskrárgerð. Ég tek það fram og þarf ekki að segja það að mörg af þeim markmiðum sem sögð eru vera með þessum frumvörpum eru göfug og rétt að stefna að þeim. Okkur greinir á um þær leiðir sem við þurfum að fara að þessum markmiðum.

Sjálfstæði skóla kemur inn í þessa umræðu vegna þess að mörg af þessum markmiðum eru þeirrar náttúru að sjálfstæði skóla er grundvallaratriði. Minni hlutinn tekur undir það og við tökum líka undir með Kennarasambandinu sem telur að markmiðin um sjálfstæði skólanna og aukið frelsi þeirra hljóti að verða marklaus ef stjórnvöld ætla að gera þrennt í senn: Í fyrsta lagi að setja viðmið í aðalnámskrá um námsbrautalýsingar skóla, staðfesta þær og setja þeim viðmiðunarnámskrár. Þetta þrennt, að setja viðmiðin í aðalnámskrár um námsbrautalýsingar, að menntamálaráðuneytið staðfesti þær og að menntamálaráðuneytið setji þeim viðmiðunarnámskrár, er umhugsunarefni í sjálfu sér. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að aðalnámskráin þurfi að fela í sér faglegar leiðbeiningar til skólanna um námsbrautalýsingar og að skólunum verði treyst fyrir þeirri vinnu. Með öðrum orðum að miðstýringaráráttan í frumvarpinu sé enn til staðar, að orðum hæstv. menntamálaráðherra frá 7. desember sl. um sjálfstæði sé ekki treyst því að klær menntamálaráðuneytisins eigi jafnframt að halda utan um námsbrautalýsingarnar. Ég nefni líka í þessu sambandi það sem sagt var í gær að í menntamálafrumvörpunum fjórum eru 43 reglugerðarheimildir, þ.e. það eru reglugerðarheimildir í 43 greinum, fleiri en ein í sumum. Í heildina nálgast því heimildirnar kannski sex tugi sem ráðherra fær með þessum fjórum frumvörpum til að setja reglur um hvernig útfæra eigi þessi lög. Þar með er löggjafinn að afhenda menntamálaráðherra, framkvæmdarvaldinu, allt of mikið vald til að útfæra þessa hluti. Það er ein ástæðan fyrir því að kennarar og skólafólk segja að hér séu hlutirnir óljósir og ótryggðir. Minni hlutinn bendir á allar þessar reglugerðarheimildir í nefndaráliti sínu.

Þá vil ég segja, hæstv. forseti, um fjármál framhaldsskólans að í gegnum árin hefur gengið erfiðlega að finna ásættanlegan fjárhagslegan grunn undir starfsemi íslenskra framhaldsskóla. Á hverju ári fara þingmenn yfir ágreiningsmálin er varðar reiknilíkan þar sem ráðuneytið notar til að deila út fjármunum sem ætlaðir eru til starfsemi skólanna á fjárlögum. Þó að mikið hafi verið gert til að lagfæra reiknilíkanið á undanförnum árum þá hefur því miður ekki enn fundist lausn sem hentar öllum skólum til fulls.

Í meðferð menntamálanefndar á framhaldsskólafrumvarpinu hefur umræðan um fjárhagsstöðu skólanna verið algerlega sniðgengin. Það er mat minni hlutans að slíkt hafi verið óábyrgt þar sem svo mikið veltur á fjármunum þeim sem verða til skiptanna ef takast á að efna mörg stærstu fyrirheit frumvarpsins. Má þar nefna aukið vægi náms- og starfsráðgjafar, aukinn stuðning við fatlaða nemendur og væntanlega fjölgun nemenda vegna þess nýmælis sem framhaldsskólaprófið verður. Aukinn rekstrarkostnaður við slíka braut er talinn nema a.m.k. 500 millj. kr. á ári og 120 millj. kr. betur ef aukin stoðþjónusta við slíka braut er talin með. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytis segir í umsögn sinni að margir óvissuþættir séu í kostnaðarmatinu, m.a. sá að erfitt sé að reikna þá fjármuni sem sparast með því að einhver hluti nemenda muni ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma en nú er. Með öðrum orðum, fjárlagaskrifstofan treystir sér ekki til að reikna út hagstærðina af því sem mundi sparast ef stór hluti nemenda færi í gegnum stúdentsprófið á þremur árum. Fjárlagaskrifstofan sér í gegnum frumvarpið að það er markmið að stór hluti nemenda eða að þeim fjölgi sem komi til með að nýta sé þann möguleika að taka stúdentsprófið á þremur árum. (Gripið fram í: En þú ert alveg á móti því.)

Minni hlutinn telur nauðsynlegt að vekja athygli á niðurlaginu í umsögn fjárlagaskrifstofu þar sem vakin er athygli á því að samþykkt ríkisstjórnarinnar um meðferð mála við 2. umr. fjárlagafrumvarps geri ráð fyrir að með frumvörpum, sem leiða til aukinna útgjalda, skuli fylgja tillögur um hvernig dregið verði úr öðrum útgjöldum á móti til að útgjaldarammi raskist ekki. Tillögur um slíkar mótvægisráðstafanir vegna þessa frumvarps liggja ekki fyrir af hálfu menntamálaráðuneytisins. Nauðsynlegt er að vekja athygli á niðurlaginu í umsögn fjárlagaskrifstofu þar sem vakin er athygli á því að samþykktir ríkisstjórnarinnar um meðferð mála við 2. umr. um fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir því að frumvörpum sem leiða til aukinna útgjalda skuli fylgja tillögur um hvernig dregið verði úr öðrum útgjöldum á móti til að útgjaldaramminn raskist ekki. Því er skemmst frá að segja að tillögur um slíkar mótvægisráðstafanir vegna þessa frumvarps liggja ekki fyrir af hálfu menntamálaráðuneytisins, svo það sé alveg ljóst.

Meira um skerðingu náms til stúdentsprófs. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði í ræðu sinni að í núgildandi lögum væri ekki tilgreindur einingafjöldi til stúdentsprófs og það er alveg rétt. Hann undrast því hversu hávær sú krafa er í umræðunni um þetta frumvarp að nú skuli menn endilega vilja tilgreina það í lögum. Svarið við því er afar einfalt. Menn treysta ekki orðum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar eða orðum hæstv. menntamálaráðherra vegna þess að bæði tvö hafa lýst sjónarmiðum áður um það að æskilegt sé að stytta nám til stúdentsprófs og það eigi að vera markmið í sjálfu sér. Hæstv. menntamálaráðherra ferðaðist um landið og heimsótti alla framhaldsskólana sumarið 2006, ef ég man rétt, og reið nú ekki feitum hesti frá þeim túr vegna þess hvernig hún talaði um styttingu náms til stúdentsprófs. Þess vegna óskar fólk eftir því nú að einingafjöldi til stúdentsprófs verði skilgreindur í lögum vegna þess að menn treysta ekki þeirri sleggju sem hér er á lofti, að stefnt sé að niðurskurði stúdentsprófs eða að skerðingu náms til stúdentsprófs.

Þau sjónarmið voru nokkuð skýr í máli starfsmanna menntamálaráðuneytisins sem komu fyrir nefndina, að ef tækist að koma fleiri nemendum gegnum skólakerfið á skemmri tíma spöruðust fjármunir. Og til hvers ætluðu starfsmenn ráðuneytisins að nota þá fjármuni? Hvað ætluðu þeir að gera til að selja okkur sem vorum andsnúin því að gera það að sjálfstæðu markmiði að fjölga þeim sem taka stúdentspróf á þremur árum? Jú, þessa fjármuni sem átti að spara átti að nota til að auka gæði skólastarfs fyrir þá sem þurftu lengri tíma til að ljúka náminu.

Þetta er reikningsdæmi, hæstv. forseti. Reikningsdæmið í ráðuneytinu lítur þannig út að það eigi að vera keppikefli að stytta nám þeirra sem geta tekið námið á þremur árum. Það eigi að vinna „aktíft“ að því og þá losni peningar sem hægt sé að nota til að auka gæði skólastarfsins fyrir þá sem þurfa lengri tíma. Í sjálfu sér er hægt að segja að það séu skiljanlegar hugmyndir á bak við þetta einangraða reikningsdæmi en það hefur enga þýðingu ef við horfum á heildina. Ef við horfum á alla framhaldsskólaflóruna og hversu ólíkir skólar þar eru. Og nú vil ég endilega undirstrika það, hæstv. forseti, út af frammíköllum við ræðu minni að ég er hlynnt því og hef aldrei andæft því, ekki í eitt einasta skipti, að til staðar eigi að vera sá möguleiki að ungir framhaldsskólanemar geti tekið stúdentspróf á þremur árum. Sá möguleiki er til staðar í kerfinu í dag og hann á auðvitað að vera áfram til staðar. Ég er að andæfa því að stýra eigi „aktíft“ námi framhaldsskólanema inn á þá braut að reglan verði sú að stúdentspróf sé tekið á þremur árum og að því leyti til skert nám.

Þessi sjónarmið starfsmanna ráðuneytisins sem ég lýsti áðan endurspegla að mínu mati þær áherslur sem menntamálaráðherra aðhylltist áður en 10 skrefa samkomulagið var gert við Kennarasamband Íslands. Það er mat minni hluta menntamálanefndar að stytting náms til stúdentsprófs sé innbyggð í það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Það byggist á þeirri staðreynd að frumvarpið tilgreinir hvorki einingafjölda né námstíma til stúdentsprófs. Núverandi stúdentspróf eru 140 námseiningar sem miðað er við að nemendur ljúki á fjórum árum en í fyrirmælum frumvarpsins er hvorki ljóst hversu margar nýjar einingar stúdentsprófið verður né heldur hve mörg námsár eru til stúdentsprófs.

Til þess að tryggt verði að frumvarpið leiði ekki til skerðingar náms til stúdentsprófs þyrfti a.m.k. að tilgreina lágmarkseiningafjölda sem gert væri ráð fyrir að nægði til stúdentsprófs. Þá þyrfti einnig að ganga úr skugga um það hvernig kröfur háskólanna til nýnema eru að þróast og þetta er mjög mikilvægt atriði. Ekki var gerð nein tilraun til þess í vinnu menntamálanefndar við frumvarpið að grennslast fyrir um sjónarmið háskólanna hvað þennan þátt varðar að öðru leyti en því að við fengum umsögn frá Háskóla Íslands og reyndar fleiri háskólum. Það er sérstaklega umsögn Háskóla Íslands sem ég bendi fólki á að lesa og hún fylgir minnihlutaálitinu sem fylgiskjal. Það er mat minni hluta nefndarinnar að hætta sé á að stúdentspróf það sem frumvarpið mælir fyrir um mæti ekki kröfum háskóla hvorki hér á landi né erlendis og að það feli í sér hættu á að taka þurfi upp sérstakan undirbúning eða aðfaranám að fagnámi í háskólum. Slík niðurstaða yrði að okkar mati óásættanleg fyrir íslenska stúdenta og íslenska skólakerfið. Undir þetta sjónarmið var raunar tekið í menntamálanefnd þó svo að málið hafi verið afgreitt frá nefndinni með þessari innbyggðu hættu. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að lög um framhaldsskóla tilgreini með hvaða hætti tengsl og samstarf framhaldsskóla og háskóla eiga að vera hvað varðar námsundirbúning stúdenta.

Umsögn Háskóla Íslands um frumvarpið styður þessi sjónarmið, en í henni segir að þetta nýja fyrirkomulag muni kalla á sérstaka skoðun innan Háskóla Íslands með hliðsjón af þeim undirbúningi sem háskólinn telur nauðsynlegan til þess að nemendur geti tekst á við háskólanámið. Það vekur einnig athygli í umsögn Háskóla Íslands að ekki er tekin afstaða til þeirrar nýjungar sem fólgin er í því að framhaldsskólum verði heimilað að bjóða upp á viðbótarnám að loknum skilgreindum námslokum. Enda er það mat minni hlutans að sú hugmynd sé vanreifuð

Hæstv. forseti. Ég hvet áhugasama að lesa og kynna sér vel umsögn Háskóla Íslands en í henni kemur fram greining á því hvernig þær einingar sem þó eru tilgreindar í frumvarpinu og greinargerð með því koma út annars vegar í þriggja ára formúlunni og hins vegar fjögurra ára formúlunni og samanburður á þessum hlutfallstölum, þ.e. hvernig kjarnagreinar flétta sig annars vegar í gegnum þriggja ára formúluna og hins vegar í gegnum fjögurra ára formúluna, gæti bent til þess að námstími til stúdentsprófs verði samkvæmt hugmyndafræði frumvarpsins þrjú ár. Háskólinn tekur því undir þau sjónarmið sem framhaldsskólakennarar hafa haldið hér fram og við minni hluti menntamálanefndar sömuleiðis.

Frumvarpið gerir ráð fyrir nýju einingakerfi sem svarar til þess einingakerfis sem tekið var upp á háskólastigi með gildistöku laga nr. 63/2006, um háskóla. Rökin fyrir því eru að okkar mati afar veik og eiga sinn þátt í því að fullyrðingar í greinargerð um að slíkt einingakerfi sé nú í auknum mæli tekið upp í framhaldsskólum þeirra landa sem taka þátt í Bologna-ferlinu eru órökstuddar. Við höfum ekki fengið upplýsingar inn á borð nefndarinnar um einn einasta framhaldsskóla í Evrópu sem er að taka upp þessar háskólaeiningar. Og ég bið hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, formann nefndarinnar, að koma í þessari umræðu með dæmi um framhaldsskóla í Evrópu sem eru að taka upp þessar háskólaeiningar. Námseiningar þar sem miðað er við vinnuframlag nemanda, X-einingar eða hvað þær eru kallaðar og fylgja Bologna-ferlinu, og okkur er kunnugt um að háskólarnir eru að innleiða í auknum mæli og háskólasamfélagið skilur þær en það skilur enginn hvernig á að innleiða slíkar einingar inn í framhaldsskólann. Meiri hlutinn í menntamálanefnd leggur ekki fram eitt einasta dæmi um framhaldsskóla í Evrópu sem eru að taka upp þessar einingar. Ég krefst þess vegna að hv. þingmenn meiri hlutans leggi fram einhverja staðfestingu á því að einhvers staðar sé verið að hugsa þessa hugsun, kannski eru menn að hugsa hugsunina en ég tel mig vita að ekki sé enn dæmi um neinn framhaldsskóla sem hafi tekið þetta upp.

Hinu nýja einingakerfi er ætlað að mæla vinnuframlag nemenda, í stað kennslustunda sem miðað hefur verið við fram að þessu, en engu er slegið föstu um tímalengd náms til stúdentsprófs í frumvarpinu. Það kemur þó fram að hið nýja framhaldsskólapróf skuli vera 90–120 einingar, eitt og hálft til tvö námsár. Af því leiðir að stúdentspróf hljóti að vera lengra en 120 einingar. Það er því ýmislegt sem maður getur ráðið í, þetta eru dulrúnir sem maður getur ráðið í í frumvarpinu því að eitt er annað er sagt um einingar þó svo að menn skirrist við að segja hvað þeir ætli að hafa margar einingar til stúdentsprófs. Það er hins vegar ekki ljóst hvort dregið verði úr vægi kjarnagreina, en að okkar mati benda líkur til að svo verði. Þær líkur eru reiknaðar út í umsögn Háskóla Íslands sem ég gerði grein fyrir áðan.

Jafngilding bóknáms og verknáms er eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins, þ.e. að stúdentspróf af verknámsbrautum verði jafngilt prófi af bóknámsbrautum. Frumvarpið mælir hins vegar ekki í neinu fyrir um á hvern hátt þetta skuli tryggt. Í greinargerð frumvarpsins má lesa misvísandi sjónarmið hvað þetta varðar. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að efla þurfi verknám og starfstengt nám en svigrúm skóla til að móta nýjar og fjölbreyttar verknámsbrautir nægir ekki eitt og sér til að tryggja jafnstöðu stúdentsprófs af verknámsbrautum og bóknámsbrautum. Það hljóta menn að sjá í hendi sér. Í vinnu menntamálanefndar við frumvarpið var ekki gerð nein tilraun til að svara áleitnum spurningum á borð við það hverjar „almennar kröfur“ háskóla séu. Ekki heldur hvort stúdentspróf þar sem stór hluti af náminu er verkleg þjálfun veiti aðgang að Háskóla Íslands. Ekki heldur hvort jafngilding námsgreina geti auðveldað bóknámshneigðum nemendum að ljúka starfsnámi, t.d. sveinsprófi í iðngrein. Þessum spurningum var varpað til nefndarinnar en voru ekki ræddar.

Það er nokkuð ljóst, hæstv. forseti, og ég nefni aftur hér til sögunnar umsögnina frá Háskóla Íslands, að háskólar sækjast eftir hæfum nemendum og þeir vilja auðvitað almennt ekki takmarka aðgang eða gera mjög sérhæfðar inntökukröfur. Í umsögninni segir að þær leiðir sem gert er ráð fyrir að háskólinn geti farið til að taka inn nemendur séu ýmsar, m.a. samræmd inntökupróf í háskólann, ýmsar leiðir sem verði nær óhjákvæmilegar í þessu fjölbreytta umhverfi, því að ekki sé unnt að meta hvaða leið Háskóli Íslands muni fara fyrr en námsbrautalýsingar framhaldsskólanna liggi fyrir. En það sé nokkuð ljóst að breytingin kalli á mun meiri vinnu innan háskólans við að yfirfara umsóknir þar sem inntökuskilyrði geta verið mjög mismunandi milli deilda og námsgreina, skráning í eina deild eða námsgrein veiti ekki sjálfkrafa rétt til skráningar í aðra og því fjölbreyttari sem samsetning stúdentsprófanna verður því líklegra sé að háskólinn þurfi að vera með sérstakt inntökupróf til að tryggja að nýnemar hafi nægilegan undirbúning.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Háskóli Íslands segir að það kerfi sem hér er verið að innleiða í framhaldsskólann kalli á mjög aukna vinnu háskólans við það að taka inn nýnema. Og ég minni á það, hæstv. forseti, í þessari umræðu af því við erum einnig með til umfjöllunar á lokadögum þingsins frumvarp til laga um opinbera háskóla og þar hefur verið mjög umdeilt ákvæði um gjaldtökuheimildir. Þar er talað um skrásetningargjöldin, 45 þús. kr. sem nemum í opinberum háskólum er gert að greiða í skrásetningargjöld. Það kemur fram í umsögn Háskóla Íslands að að öllum líkindum verði að hækka þessi gjöld mjög fljótlega, um leið og farið verður að vinna eftir þessu frumvarpi meiri hlutans verður örugglega hækkun á skráningargjöldum í Háskóla Íslands af því að það verður miklu meiri vinna fólgin í því að greina hvert og eitt stúdentspróf. Sömuleiðis segir í frumvarpi til laga um opinbera háskóla varðandi gjaldtökuheimildirnar að háskóla sé heimilt að afla sér tekna með „gjöldum til að standa undir útgáfu staðfestra vottorða, gerð, fyrirlögn og yfirferð stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa“ — ég undirstrika orðið inntökuprófa. Verið er að innleiða gjaldtökuheimild í nýju lögin um opinbera háskóla fyrir háskólana til að setja í auknum mæli á inntökupróf. (Gripið fram í.) Þetta stendur í frumvarpinu um opinberu háskólana.

Hæstv. forseti. Framhaldsskólafrumvarpið gerir ráð fyrir auknu eftirliti af hálfu menntamálaráðuneytisins með skólastarfi í framhaldsskólum, þar með talið eftirliti með gæðum náms. Með hliðsjón af auknu námsframboði og auknu frelsi skóla til að setja á fót námsbrautir má að sjálfsögðu sjá í hendi sér að umfang eftirlits verður aukið og umfang þeirra starfa sem unnin eru í menntamálaráðuneytinu, sérstaklega hvað varðar eftirlit með gæðum náms, hlýtur að aukast. Að þessu getum við ekki gengið gruflandi, við verðum að gera okkur grein fyrir því að hér er um talsvert umfangsmikið starf að ræða ef vel á að vera úr garði gert.

Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að mjög öflug deild verði að vera til staðar innan menntamálaráðuneytisins til þess að vinna þá vinnu sem þetta gæðaeftirlit útheimtir. Þetta er tímafrekt eftirlit og þetta er mannfrekt verkefni og það verður ekki séð í okkar huga í minni hlutanum að forsendur fjárlagaskrifstofu hvað þennan þátt varðar séu raunsæjar, en þeir gera einungis ráð fyrir einu stöðugildi í menntamálaráðuneytinu. Tiltekinn fjöldi úttekta, sem nefndur er í kostnaðaryfirlitinu, dugir að okkar mati skammt ef námsbrautum fjölgar verulega á skömmum tíma. Hér teljum við því í minni hlutanum að það sé verulega vanáætlað sem sett er fram í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu. Það er einnig mat minni hluta nefndarinnar að grundvöllur nýrra námsbrauta sé aukin fagmennska í skólunum sjálfum fyrst og fremst og traust milli ráðuneytis og skólasamfélagsins og það sé hluti af því að tryggja gæði námsins að byggja undir þetta traust.

Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur orð um kaflann um náms- og starfsráðgjöf en frumvarpið gerir ráð fyrir auknu vægi náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskólum, en ekki er lagt til að fara þá leið sem tryggja mundi slíkt vægi til fulls að okkar mati. Þar er átt við lögverndun starfsheitis náms- og starfsráðgjafa. Mikillar tregðu gætir hjá stjórnvöldum varðandi fjölgun lögverndaðra starfsheita, en þegar ásetningur er um að minnka brottfall úr framhaldsskólum, og það er viðurkennt aftur og aftur að fullgildir náms- og starfsráðgjafar geti þar komið að mestu gagni í færni sinni og þekkingu, er það óskiljanlegt að mati minni hlutans að synjað skuli um slíka löggildingu fyrir náms- og starfsráðgjafa. Ég tel því að taka þurfi það til sérstakrar skoðunar hvers vegna þessi tregða er til staðar og hvort ekki sé hægt að vinna á henni einhvern bug. Mér hefur fundist samstaða í menntamálanefnd um mikilvægi starfa náms- og starfsráðgjafa, tekið er undir að öllu leyti í orði kveðnu þær kröfur sem náms- og starfsráðgjafar setja fram en ekki er tekið undir þá kröfu að þeir fái löggildingu sem tryggir þeim að þeirra mati stöður innan skólanna.

Að okkar mati í minni hlutanum skortir mjög á að í frumvarpinu séu skilgreind þau viðmið sem liggja eiga til grundvallar faglegri náms- og starfsráðgjöf og að frumvarpið endurspegli þá áherslu sem látið er í veðri vaka að eigi að leggja í þennan þátt í framhaldsskólunum. Það er mat minni hluta menntamálanefndar að tímabært sé að lögvernda starfsheiti náms- og starfsráðgjafa, og slík lögverndun sé forsenda þess að markmið frumvarpsins um aukið vægi náms- og starfsráðgjafar náist. Um þessar mundir er kjörið tækifæri til að stíga þetta skref. Hvers vegna? Jú, vegna þess að verið er að endurskoða MA-námið í náms- og starfsráðgjöf. Sú endurskoðun stendur nú yfir og það væri í samræmi við aukið vægi kennaramenntunar, sem er í vændum samkvæmt því frumvarpi sem var hér til 2. umr. í nótt, og er eitt þeirra fjögurra mikilvægu frumvarpa sem nú stendur til að gera að lögum, að fara í þessa lögverndunarvinnu nú samhliða þessari endurskoðun á MA-náminu.

Breytingartillaga meiri hlutans hvað þetta atriði varðar er góðra gjalda verð. Hún lýsir ákveðnum vilja en hún hefur að mati okkar í minni hlutanum harla litla þýðingu vegna þess að ekki er kveðið skýrt að orði um það hverjum er ætlað að sjá um þá ráðgjöf sem 37. gr. frumvarpsins kveður á um. Til þess að greinin nái tilgangi sínum þyrfti að taka fram að nemendum standi til boða náms- og starfsráðgjöf ásamt fræðslu um nám og starfsval. Slíka þjónustu ættu náms- og starfsráðgjafar að veita. Jafnframt þyrfti að geta þess í skólanámskrá á hvern hátt skóli telji þessu hlutverki best sinnt og hvernig standa eigi að miðlun upplýsinga um nám og námsleiðir til nemenda og foreldra eða forráðamanna þeirra.

Hæstv. forseti. Varðandi gjaldfrjálsan framhaldsskóla, sem er hugmynd sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram tillögur um, er hér kafli þar um í áliti minni hlutans. Ég minni engu að síður á þingsályktunartillögu frekar en frumvarp sem lagt er fram af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni sem 1. flutningsmanni. Hún hefur verið lögð fram á þessu þingi, hefur trúlega ekki verið afgreidd enn til nefndar en mætti skoða þau sjónarmið sem þar er fjallað um og lögð eru til í samhengi við það sem við leggjum til í minni hluta menntamálanefndar.

Þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að gjaldtöku í 45. gr. frumvarpsins uppfylla að okkar mati ekki kröfuna um gjaldfrjálsan framhaldsskóla. Það er mat minni hlutans að framhaldsskólinn skuli vera gjaldfrjáls fyrir alla nemendur, að allir þættir í starfi framhaldsskólanna sem leiða af lögbundinni þjónustu þeirra skuli vera án gjaldtöku. Það eru mikil vonbrigði að meiri hluti nefndarinnar skuli ekki einu sinni gera tillögu um að framhaldsskólinn verði gjaldfrjáls fyrir ólögráða nemendur, þ.e. til 18 ára aldurs. Það er mat minni hlutans að gjaldtaka sú sem frumvarpið kveður á um auki misrétti til náms og nauðsynlegt sé að gera áætlun um gjaldfrjálsan framhaldsskóla hið fyrsta.

Þetta er miður í ljósi yfirlýsinga Samfylkingarinnar í aðdraganda kosninga. Ég hefði haldið að þessi sjónarmið ættu bandamenn innan Samfylkingarinnar og þess vegna hefði ég haldið að þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem starfa í menntamálanefnd hefðu átt að berjast fyrir þessum sjónarmiðum í nefndinni en við urðum ekki vör við að mikilli væri orku eytt í það.

Það er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að þeir nemendur sem ekki eiga kost á að sækja framhaldsskóla daglega frá heimili sínu fái notið hærri dvalarstyrks og aðgengis að gjaldfrjálsu fjar- og dreifnámi. Til að ná þeim markmiðum þarf að tryggja að hvorki verði innheimt innritunargjald né efnisgjald eða gjald fyrir nám utan daglegs starfstíma eða utan reglubundins starfstíma að sumri, en ákvæði frumvarpsins hvað gjaldtökuheimildir varðar um þessa þætti eru alveg skýr. Þessu erum við mótfallin í minni hlutanum og teljum að gjaldtökuheimildirnar stríði gegn sjónarmiðum minni hluta menntamálanefndar um jafnrétti til náms burt séð frá aldri og búsetu.

Það er niðurstaða okkar í þessu nefndaráliti að mörg af yfirlýstum markmiðum frumvarpsins um framhaldsskólann séu góð, þau gefi möguleika á endurnýjun framhaldsskólastigsins. Hins vegar liggi ljóst fyrir að margar þeirra leiða sem mælt er fyrir um í frumvarpinu stríði beinlínis gegn þeim markmiðum. Stærstu ágreiningsatriðin hafa verið talin upp hér að framan, en um önnur er vísað til fjölda efnismikilla athugasemda sem menntamálanefnd bárust á þeim tíma sem málið var til skoðunar í nefndinni. Þá er ljóst að mistekist hefur að skapa nauðsynlega sátt um frumvarpið meðal skólafólks, en slík sátt er grundvöllur þeirra róttæku breytinga sem stjórnvöld hafa hug á að gera á framhaldsskólanum. Auðvitað eru róttækar hugmyndir um breytingu framhaldsskólans, í framhaldsskólanum sjálfum, innan framhaldsskólans, meðal kennara, meðal nemenda og meðal stjórnarandstöðu hér á þinginu, en ekki í þeim anda sem settur er fram í frumvarpinu. Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt hlýtur minni hlutinn að vara við því að málið verði keyrt með meirihlutavaldi í gegnum atkvæðagreiðslu á Alþingi. Þess vegna er það sem minni hlutinn leggur til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem færð hafa verið gild rök fyrir því að:

a. sú lagasetning sem í frumvarpinu felst muni ekki hafa í för með sér þá eflingu framhaldsskólastigsins sem að er stefnt,

b. að ekki liggur fyrir trúverðug greining á kostnaði við lagasetninguna eða fyrirheit af hálfu stjórnvalda um nægilegt fjármagn til framhaldsskólastigsins til að standa undir metnaðarfullum umbótum leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.“