Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 15:29:12 (7941)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[15:29]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að skerðing á námi til stúdentsprófs væri alvarlegt mál. Þar erum við hjartanlega sammála. Það er þess vegna sem í frumvarpinu og í nefndaráliti meiri hlutans er hvergi kveðið á um neina skerðingu.

Í lögskýringargagni, sem gengur framar orðum sem höfð eru eftir fólki frá því á árum áður, sem liggur hér fyrir þinginu, segir, með leyfi forseta:

„Af þessu má ráða þann skýra tilgang þessa frumvarps að styrkja stoðir stúdentsprófs sem undirbúnings undir nám á háskólastigi. Áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að nám til stúdentsprófs sé ekki skert með frumvarpi þessu.“

Þetta er lögskýringargagn, virðulegi forseti, og ef hv. þingmaður heldur því fram, eins og hún gerði í ræðu sinni, að orð manna í fjölmiðlum eða á fundum úti í bæ séu rétthærri (Forseti hringir.) lögskýringargögnum hefur hún ekki lært nokkurn skapaðan hlut um virkni lýðræðis og þingræðis í landi okkar á þeim árum sem hún hefur starfað hér.