Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 15:36:39 (7948)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[15:36]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, stúdentsprófin eru margs konar og þau verða enn þá fjölbreyttari með þessum lögum. Það er ekki slæmt.

Ég hef sagt það aftur og aftur, og menn mega ekki alltaf vera að gera manni upp skoðanir, að mikill ágreiningur er um þetta mál en það er margt í frumvarpinu sem ég hef tekið undir. Ég hef á mjög greinargóðan hátt í ræðu minni skýrt hvað það er sem ég hef á móti þessu en þá er bara sagt við mig að málflutningur eins og þessi sé ástæða þess að málið er í þessum hnút. Við verðum að reyna að tala um þetta mál á málefnalegan hátt. Það erum við að reyna að gera í menntamálanefnd. Okkur hefur ekki tekist að leysa þennan ágreining. Við treystum því ekki að það sem stjórnarliðar segja í málinu verði það sem upp á teningnum verði þegar út í lífið er komið.

Til staðfestingar á því höfum við sjónarmið Kennarasambands Íslands, Félags framhaldsskólakennara og Háskóla Íslands og fleiri háskóla og fleiri fagaðila þarna úti sem er þá eins farið eins (Forseti hringir.) og um þá sem hér stendur, skilja ekki á hvern hátt stjórnarliðar ætla að ná fram þeim (Forseti hringir.) veruleika sem þeir segjast ætla að ná fram.