Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 16:04:47 (7954)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:04]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var svolítið merkileg ræða sem hér var flutt. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson kaus að taka eitt álit sem hingað hefur borist, opið bréf til þingmanna, og rífa það niður og tæta með dæmalausum hætti. Það er opið bréf Félags framhaldsskólakennara til þingmanna. Hv. þingmaður sagðist miður sín, og ítrekaði það margoft í ræðu sinni, og dró það fram að hann hefði tilheyrt þessu samfélagi, þ.e. þessum samtökum.

Félag framhaldsskólakennara sendir frá sér bréf í gær, opið bréf til þingmanna. Það bréf er afar harðort og því lýkur á því að lagt er fast að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla. Næstu mánuði ætti að nota til að sníða af frumvarpinu helstu galla og ná sáttum um þessi mikilvægu mál.

Þetta er ekki eina félagið sem segir þetta, það eru líka (Forseti hringir.) skólarnir, m.a.s. Menntaskólinn á Egilsstöðum sem er í kjördæmi hv. þingmanns. Það að segja hér að (Forseti hringir.) minni hlutinn fari með rangt mál stenst ekki, virðulegur forseti.