Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 16:09:48 (7958)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:09]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nokkur orð um miðstýringu. Er miðstýring góð eða slæm, er mikil miðstýring í kerfinu eins og það er eða mælir frumvarpið fyrir um miðstýringu? Hv. þingmaður hældi fjölbrautakerfi framhaldsskólanna sem varð til innan þess kerfis sem nú er við lýði, (EMS: Nei, fyrir þá tíð.) fyrir þá tíð, sem gefur til kynna að ekki hafi verið mikil miðstýring í kerfinu þá, eða hvað? Þá hafi fjölbrautakerfið getað sprottið upp í því kerfi sem þar var til staðar. Miðstýringin í kerfinu er sem sagt ekki meiri en svo að fjölbrautakerfið gat orðið til.

Hann auglýsir svo eftir hóp sem stýri þróuninni, það vanti hér einhvern hóp. Það var reynt að koma þeim hópi saman í gegnum tíu spora samkomulagið. Afleiðingin varð nefnd sem átti að semja þetta frumvarp. Það varð trúnaðarbrestur í nefndinni, sáttin slitnaði. Þannig (Forseti hringir.) standa málin enn.