Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 16:10:59 (7959)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:10]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Örlítill misskilningur hjá hv. þingmanni. Þegar fjölbrautakerfið var að þróast var þessi miðstýring ekki til staðar. Þá voru eingöngu til lög um menntaskóla og það var síðan á einni undanþágugrein sem Fjölbrautaskólinn í Breiðholti var settur á stofn og síðan var það nýtt til þess að stofna hina skólana. Síðan hafa verið sett lög um framhaldsskóla. Eins og þau eru í dag er miðstýringin að mínu mati of mikil og hún er of mikil að mati þeirra sem standa að frumvarpinu, hún er m.a.s. of mikil að mati menntamálaráðuneytisins.

Það er hins vegar sorglegt að þegar mál eru komin inn í þingið séu hlutir sem gerast í nefnd sem er utan þings nýttir til að rökstyðja það að ákveðnir hlutir geti ekki gengið í þinginu. Ég held að þingið hljóti og eigi að taka heildarhagsmuni fram yfir og geta verið yfir það hafið að nota slíkt til þess að afsaka það að halda ekki áfram. (Forseti hringir.) Trúnaðarbresturinn er jafnslæmur þrátt fyrir það.