Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 16:13:08 (7961)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:13]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í hnút. Í ágreiningi. Ég taldi mig í ræðu minni hafa fjallað nokkuð um ástæðurnar sem ég tel vera fyrir því að ekki reyndist hægt að ná þessu saman í hv. menntamálanefnd. Ég lifi enn í þeirri bjartsýni að það breytist í umræðunni. Það er kannski borin von vegna þess að þær forsendur sem komið hafa fram, m.a. í nefndaráliti minni hlutans og í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, gefa manni ekki mikla von um að slíkt takist.

Gefin var skýring á því af hverju þetta hefur ekki tekist. Umræðurnar í nefndinni voru nefnilega nákvæmlega þær sömu, við vorum að reyna að finna sameiginlegan texta um það til þess að koma í veg fyrir að t.d. væri hægt að skilja það svo að menn ætluðu að skerða stúdentsprófið. Það var ekki nokkur leið því miður. Minni hlutanum var boðið upp á að koma með texta en við höfum ekki séð hann enn þá. Svona er það nú, virðulegur forseti.

Varðandi náms- og starfsráðgjöfina bendi ég á að í nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar segir að verið sé að tala um háskólamenntaða náms- og starfsráðgjafa. (Forseti hringir.) Í nefndarálitinu er útskýring á orðalaginu í greininni og það er það sama og verið hefði ef um löggildingu hefði verið að ræða.