Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 16:24:00 (7971)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:24]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek afsökunarbeiðni hv. þingmanns til greina. Það getur verið að ég hafi misskilið orð hans en hann talaði um áróður. Ég skildi hann þannig að við værum með áróður út í samfélagið og það skapaði þessi viðbrögð en mér finnst þar fulllangt seilst vegna þess að það hefur verið uppi ágreiningur frá því að bláa skýrslan kom út árið 2005. Það er ágreiningur sem hv. þingmaður veit mjög vel af og þekkir. Sá ágreiningur hélt áfram þegar slitnaði upp úr nefndinni. Þetta er eitthvað sem liggur ljóst fyrir og því skil ég ekki þessi orð um að við séum með áróður. Eins og ég kom inn á í stuttu andsvari mínu áðan var á engan hátt tekið tillit til nokkurra þeirra stóru ágreiningsmála sem þetta frumvarp snýst um og þess vegna getum við framsóknarmenn ekki verið sammála frumvarpinu.

Það kom fram í máli menntamálaráðherra við 1. umr. um málið þann 7. desember 2007 að hún teldi mikilvægt að málin fylgdust að í gegnum þingið, enda væri hér um heildstæða nálgun að ræða. Þá sagði ráðherra að málin væru afrakstur vinnu margra aðila og þau endurspegluðu sjónarmið og hugsanir þeirra sem best þekktu til í menntamálum þjóðarinnar og mikilvægt væri að víðtæk sátt ríkti um þau. Um þetta snýst einmitt málið. Þetta er í sjálfu sér ekki afrakstur vinnu margra aðila. Það á ekki að fara leynt með það að ósamkomulag hafi orðið sem leiddi til þess að nefndin hætti störfum og slitnaði upp úr því samstarfi sem reynt var að koma á með tíu punkta samkomulaginu. Síðan segir hún að þau endurspegli sjónarmið og hugsanir þeirra sem best þekki til í menntamálum þjóðarinnar. Hverjir vita mest um menntamálin á framhaldsskólastiginu? Eigum við ekki að gefa okkur að það séu framhaldsskólakennarar? Eigum við ekki að gefa okkur að það séu þeir sem eiga að vinna eftir þeim lögum sem við erum að setja á hinu háa Alþingi? Ég vil taka mjög skýrt fram að við erum að setja lög og lögin eiga að gilda samkvæmt orðanna hljóðan og eftir lögunum verður unnið. Það skiptir engu máli þótt hér séu lögð fram einhver nefndarálit sem stangast á við það sem kemur fram í greinargerðinni, enda eru nákvæmlega sömu orð í greinargerðinni og voru í bláu skýrslunni illræmdu á sínum tíma, rökin með styttingu stúdentsprófsins.

Um þessa óánægju vitnar fjöldi umsagna sem menntamálanefnd hefur borist þá liðlega fjóra mánuði sem hún hefur haft málið til umfjöllunar og svo virðist sem ekkert sé lát á óánægjunni. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir minntist á fjöldann allan af álitum frá kennarafélögum framhaldsskóla víðs vegar um land og ekki síst úr kjördæmi okkar, míns og hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, sem sýna hvað þetta mál allt er umdeilt. Svo sýnir, held ég, best opið bréf Félags framhaldsskólakennara, sem eru samtök kennara allra stóru framhaldsskólanna, að enn ríkir óánægja. Um þetta snýst málið og ég verð að segja að ég furða mig svolítið á því að stjórnarliðar komi hér hver á fætur öðrum og botni ekkert í málflutningi minni hlutans, þetta komi þeim algerlega í opna skjöldu. Hefur enginn hlustað á okkur? segja þeir. Er ekkert tillit tekið til þess hvað við segjum? Jú, jú, við tökum fullt tillit til orða þeirra en lög eru lög og eftir þeim þarf að fara og þeim hefur ekki í neinu verið breytt í þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn hefur gert.

Mig langar til að lesa upp úr umsögn Kennarasambands Íslands sem segir svart á hvítu hvert starfið var að smíði frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er að hluta til byggt á vinnu starfshópa að 10 skrefa samkomulaginu og þá sérstaklega á skýrslu starfsnámsnefndar „Nýr framhaldsskóli“ (júní 2006) en mun minna á tillögum starfshópa um almenna braut og um sveigjanleika og fjölbreytni í skipulagi náms og námsframboðs grunnskóla og framhaldsskóla. Tillögur starfshóps um aukna náms- og starfsráðgjöf hafa ekki eðlilegt vægi í frumvarpinu og tillögur starfsnáms um fjar- og dreifnám eru í engu tilgreindar. Fullyrðing frumvarpshöfunda í inngangi greinargerðar með frumvarpinu um að náið tillit hafi verið tekið til allra tillagna og sjónarmiða stenst því ekki. Frumvarpið er að töluverðu leyti verk embættismanna menntamálaráðherra. Boðað var til lokafundar í endurskoðunarnefnd framhaldsskólalaga 5. nóvember 2007 en fullskipuð nefnd hafði þá síðast komið saman 18. apríl. Fulltrúar Kennarasambandsins höfnuðu að taka þátt í afgreiða frumvarpið úr nefndinni til menntamálaráðherra því engin sátt væri um það í veigamiklum atriðum og lögðu fram yfirlýsingu sem tilgreinir ástæður þessa.“

Hér hefur verið fjallað í þó nokkrum orðum um hið opna bréf Félags framhaldsskólakennara til þingmanna. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom aðeins inn á bréfið en sagði að gerð yrði betur grein fyrir innihaldi þess í ræðum annarra þingmanna og ætla ég því að leyfa mér að gera það, með leyfi forseta.

„Félag framhaldsskólakennara veitti menntamálanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til framhaldsskólalaga 28. janúar sl. Félagið telur ýmislegt í frumvarpinu geta orðið efni í góða menntastefnu ef rétt er staðið að málum. Þrátt fyrir það hefur félagið lagt mikla áherslu á að frumvarpið yrði fært til betri vegar í meðferð þingsins. Það er því sannarlega mikið áhyggjuefni að í áliti meiri hluta menntamálanefndar á frumvarpinu sem kemur fram á síðustu starfsdögum þingsins er ekki tekið á helstu ágöllum frumvarpsins. Þeir eru í stórum dráttum þessir:

Fyrirætlanir í 23. gr. um að draga eigi úr miðstýringu í námsframboði og í námskrárgerð eru ekki markvissar. Ráðherra á bæði að staðfesta námsbrautarlýsingar skólanna og setja þeim viðmiðunarnámskrár. Félagið telur að skólarnir eigi að fá skýrt umboð til að móta sínar áherslur eins og var fyrir lagasetninguna 1996.“

Síðan kemur það sem kannski mestu máli skiptir, og ég vil ítreka það vegna þess að hv. þm. Einar Már Sigurðarson orðaði það eitthvað á þá leið að menn læsu ekki það sem kæmi frá meiri hluta menntamálanefndar eða orð þeirra væru ekki skilin eða þau rangtúlkuð, en þetta bréf ber það með sér að farið hafi verið nokkuð vel yfir allar tillögur og álit sem komið hafa frá meiri hluta menntamálanefndar. Þar segir um stúdentsprófið.

„Í nefndarálitinu er talað gegn skerðingu á inntaki stúdentsprófsins og lögð áhersla á að útfærslan og vinnan í framhaldi af nýjum lögum eigi að miðast við það. Þessu ber að fagna. Félagið telur engu að síður mikilvægt að vinna gegn hættu á „útþynningu“ stúdentsprófsins sem háskólarnir hafa varað sterklega við.“ — Og ég ætla að koma aðeins inn á umsögn Háskóla Íslands um frumvarpið. — „Tilgreina verður lágmarksfjölda námseininga til stúdentsprófs.“

Það er í samræmi við málflutning minn í nefndinni eins og hv. þingmenn meiri hlutans kannast mjög vel við.

„Í skýrslunni „Breytt námsskipan til stúdentsprófs“ (2004) komu fram áform um að stytta námstíma til stúdentsprófs um eitt ár með því að skerða námið. Til mótvægis var talað um að hægt væri að færa einhverja framhaldsskólaáfanga yfir til grunnskólans auk þess sem til stóð að lengja skólaárið um fimm daga. Í þingræðum á vordögum 2007 kom fram að öll slík áform hefðu verið lögð til hliðar. Taka þarf af tvímæli um að breytingarnar sem nú eru boðaðar með frumvarpinu feli í sér skerðingu á náminu. Ljóst er að færsla framhaldsskólaáfanga yfir til grunnskólans og lenging skólaársins um fimm daga vega ekki upp námseiningar sem svara til heils árs náms.“

Maður veltir því fyrir sér af hverju tekið er upp í greinargerð með framhaldsskólafrumvarpinu nánast orðrétt upp úr bláu skýrslunni sem ég minntist á. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Í anda þess aukna almenna sveigjanleika sem frumvarpið miðar að er gert ráð fyrir því að skólar muni vinna að því að undirbúa breytingar á skipulagi og tilhögun náms. Það leiðir m.a. af því að frumvarpið felur í sér lengingu skólaársins,“ — eins og segir í bláu skýrslunni — „en ekki síður af því að tilfærsla áfanga til grunnskóla, sem þegar er orðin, gefur færi á breyttu námsskipulagi.“

Þetta stendur þarna í rauninni án alls rökstuðnings. Ef ekki á að vinna að þessu markmiði eins og kom fram í bláu skýrslunni „Breytt námsskipan til stúdentsprófs“, af hverju er þetta þá í greinargerðinni? Þetta kemur beint frá menntamálaráðuneytinu. Við vitum hug menntamálaráðherra og Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum. Þetta var hart sótt á hinu háa Alþingi. Svo segir líka í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að einstakir skólar nýti þetta svigrúm til að útfæra mismunandi námsbrautir til stúdentsprófs, ekki síst í iðn- og verknámsgreinum, þannig að það nám sem stendur framhaldsskólanemum til boða sé sem fjölbreytilegast, geti verið mismunandi að inntaki og umfangi …“

Mér finnst þetta mjög skýrt. Það er verið að rýra og breyta inntaki stúdentsprófsins. Ég held að þrátt fyrir að meiri hluti nefndarinnar tali hátt um að þessu hafi verið breytt í nefndarálitinu þá vinni það einfaldlega gegn þessari greinargerð.

Ég vil aðeins koma inn á það að nefndarálit er ekki sama og lög og af því að hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur var tíðrætt um að nefndarálit meiri hlutans væri lögskýringargagn þá greip ég bókina Lögskýringar – kenningar, aðferðir og sjónarmið við skýringu og beitingu laga eftir Davíð Þór Björgvinsson, okkar virta dómara við Mannréttindadómstól Evrópu ef ég man rétt. Er það ekki? (ÓN: Jú, jú.) Jú, jú, segir hv. þm. Ólöf Nordal. Davíð Þór segir á bls. 160 og þá er hann að tala um almenna lögskýringu, með leyfi forseta:

„Þessi framsetning byggist á því að þegar tekið er svo til orða í dómum, að skýra beri ákvæði eftir orðanna hljóðan (þ.e. orðskýring sem svo hefur verið nefnd), í samræmi við almenna málvenju eða sérmálsvenju, þ.m.t. lögfræðilega, og atvik með því felld eða ekki felld undir ákvæði, …“

Hann er með öðrum orðum að segja að það er lagatextinn sem gildir fyrst og fremst og því þurfi … (Gripið fram í.) Það er enginn, ég mun koma inn á það, hv. þingmaður, en það er lagatextinn sem gildir. Svo talar Davíð Þór Björgvinsson um nefndarálit og gildi þess sem lögskýringargagns og segir:

„Nefndir gera oft margvíslegar tillögur til breytinga á frumvörpum, smávægilegar eða veigamiklar eftir atvikum. Breytingartillögum fylgja iðulega skýringar sem geta verið hjálplegar síðar við skýringu á einstaka ákvæðum. Oft er þá látið nægja að skýra efni, tilgang og tilefni breytingartillagna í 2. umræðu um frumvarp þegar mælt er fyrir breytingartillögum.“

Hann segir, með öðrum orðum, að breyting á lagaákvæðinu þurfi að eiga sér stað til að nefndarálitið verði það lögskýringargagn sem gildir fyrst og fremst. Í þessu máli erum við einfaldlega annars vegar með greinargerð sem segir eitt og ekki er hægt að skilja öðruvísi en að rýra eigi inntak stúdentsprófsins vegna þess að þar er orðalagið tekið upp úr bláu skýrslunni og svo hins vegar nefndarálitið sem segir það vilja meiri hlutans að inntak þess sé ekki rýrt. Þess vegna segi ég að það hefði þurft að setja það skýrt inn í lagatextann. Það er verið að breyta umfangi og sveigjanleika stúdentsprófsins töluvert og um það snýst þetta mál.

Ég átta mig líka vel á því að í gildandi lögum eru ekki tilgreindar fastar einingar til stúdentsprófs en taka verður tillit til þess að hér er um gríðarlega mikla breytingu að ræða á stúdentsprófinu. Kjarnafögin eru minnkuð til mikilla muna og það liggur fyrir að við munum sjá mismunandi stúdentspróf og töluverðan fjölda af reglugerðum sem kannski má kalla reglugerðafargan.

Ég vona að ég hafi útskýrt mál mitt nægilega en ég býst ekkert sérstaklega við að meiri hlutinn taki undir hann, en það er von mín að svo verði. Það er líka von mín að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem komið hafa frá Félagi framhaldsskólakennara og af því að ég er einmitt að ræða það núna þá kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að hann óski eftir að fram fari vinna eftir að lögin hafa tekið gildi og að þá verði hægt að ná einhverri niðurstöðu. Það er einfaldlega verið að knýja framhaldsskólakennara til að setjast aftur að samningaborði þegar frumvarpið er orðið að lögum. Er þá ekki mál að taka undir kröfu okkar í stjórnarandstöðunni um að fresta málinu og klára það í haust — það eru þrír mánuðir til hausts og þangað til þingið kemur saman aftur — að setjast niður með framhaldsskólakennurum og vinna þetta í sátt og samlyndi? (Gripið fram í.) Það hlýtur að vera krafa frá þeim sem þurfa að vinna eftir lögunum að þeir viti um hvað þau snúast og það sé gert í sátt og samlyndi við þá. (Gripið fram í.) Það er sorglegt að svo sé. Ég ætla að halda áfram að lesa úr opnu bréfi Félags framhaldsskólakennara til þingmanna vegna þess að ég var bara búinn með þrjá punkta af 12, það er af nógu að taka í ábendingum þeirra. Þeir segja:

„Í frumvarpinu er ráðgert að lengja skólaárið um fimm daga. Af efni frumvarpsins verður ekki ráðið hvað á að gera við þessa daga.“

Væri ekki ráð að útskýra það og segja af hverju þarna eru tekin upp rökin úr bláu skýrslunni? Og áfram segir í bréfinu:

„Í frumvarpinu er ráðgert að taka upp einingakerfi evrópskra háskóla í íslenskum framhaldsskólum. Hugmyndunum um ECTS-einingarnar var kastað skýringalaust inn í frumvarpsvinnuna á haustdögum 2007 og fengust aldrei ræddar á þeim vettvangi þrátt fyrir ítrekaðar óskir kennarasamtakanna. Skýra þarf tilgang þess að ráðast skuli í þessa grundvallarbreytingu.“

Þetta eru mjög góð rök finnst mér. Af hverju eigum við, eina þjóðin í Evrópu, að taka upp þetta kerfi án raka? Ég man eftir þessari umræðu í menntamálanefnd og svarið sem stjórnarandstaðan fékk var: Af hverju ekki? Kannski eru það einu rökin fyrir þessu en ég vænti þess að það verði kannski útskýrt aðeins betur í ræðum stjórnarmeirihlutans á eftir. Næst segir :

„Í frumvarpinu þarf að birtast ótvíræður vilji stjórnvalda til að styrkja fjárhagslegt svigrúm og forsendur framhaldsskóla til að bjóða nemendum upp á nám við hæfi, fjölbreytt nám og sveigjanlega námsframvindu.“ — Ég tek undir það.

Þá segir einnig, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er óskýrt um framhaldsskólapróf og fræðsluskyldu til 18 ára aldurs. Hér verða að koma fram skýrari áform um að stjórnvöld ætli sér að taka aukna ábyrgð á námsvist og skólagöngu ólögráða nemenda. Með fræðsluskyldunni þarf að veita nemendum skilgreindan rétt til framhaldsskólavistar í grennd við heimili sitt. Það myndi ráða bót á þeirri miklu námsaðgreiningu nemenda sem ríkir á skólasvæði suðvesturhornsins.“

Ég tek undir þetta og spyr af hverju þær skyldur og réttindi sem við erum að lögleiða hér í leikskólum og grunnskólum skuli ekki ná upp í framhaldsskólann og þá til 18 ára aldursins sem fræðsluskyldan nær til. Það er eins og réttindi þessara nemenda hrapi niður um leið og þeir koma í framhaldsskóla. Hér hefði kannski verið tækifæri til þess að gera betur. En maður veltir því fyrir sér að nú er framhaldsskólinn á forræði ríkisins, hvort þarna vilji meiri hlutinn spara sérstaklega. Ýmsar spurningar vakna við það.

Þá segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu felast misjöfn tækifæri eftir landshlutum. Smærri skólar í dreifðum byggðum geta lent í erfiðleikum með að bjóða upp á þá breidd í námi sem þeir þurfa til að sinna sínu byggðarlagi. Gera þarf grein fyrir mótvægisaðgerðum gegn vaxandi aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis í þessum efnum.“

Þetta er því miður vandi sem hefði verið hægt að taka á en er ekki gert. Það sem maður óttast kannski við þessa miklu fjölbreytni, þessa tilraun í þessu framhaldsskólafrumvarpi er að nemendur fái ekki nám við hæfi nálægt heimili sínu. Maður finnur það mjög á fólki, sérstaklega í mínu kjördæmi, að það hefur áhyggjur af því að þurfa að senda nemendur sína langt í burtu til þess að fara í framhaldsskóla og það aðeins 16 ára gömul.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði að þeir hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefðu verið á fundi í Menntaskólanum á Laugum. Ég vona að hv. þingmaður verði þá með mér á morgun við útskrift frá þeim sama skóla. Ég veit að hann er vel tengdur inn í þann skóla, afskaplega vel tengdur. Þetta er vel rekinn og góður skóli og við viljum honum að sjálfsögðu allt hið besta. En ég vil líka benda á að mjög margir hafa áhyggjur af þessari framvindu þó að einhver sjái sér tækifæri í óstjórninni, vil ég leyfa mér að segja.

Svo að ég haldi áfram með bréfið þá segir þar, með leyfi forseta:

„Frumvarpið tryggir ekki ólögráða framhaldsskólanemendum sambærilegan stuðning, ráðgjöf og þjónustu og ólögráða nemendum á öðrum skólastigum. Mikilvægt er að taka upp sambærileg ákvæði um þessi atriði og í frumvarpi um grunnskóla þannig að litið verði á skólagöngu ólögráða nemenda sem eina heild frá upphafi skyldunáms til 18 ára aldurs.“

Ég hef nú þegar lokið að tala um einmitt þetta atriði. Þá segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu þarf að fjalla með skýrari hætti um tengsl milli grunnskóla og framhaldsskóla.“

Það er rétt. Ég held að það sé algjör misskilningur að ekki sé hægt að bíða með þetta frumvarp. Ég held að það sé algjör misskilningur. Mér finnst vanta öll rök fyrir því að ekki megi bíða með þetta en klára hin þrjú frumvörpin. Ég sé bara engin rök. Því er bara haldið fram statt og stöðugt í umræðunni að þessi frumvörp fylgist að. Ég held að það þurfi að koma fram sterk og skýr rök fyrir því. Ég sé að hv. þm. Guðbjartur Hannesson kinkar kolli og ég reikna með að hann sé sammála mér eins og svo oft í menntamálanefndinni.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið tryggir ólögráða nemendum ekki gjaldfrjálsa skólagöngu eins og margar tillögur starfshópa að tíu skrefa samkomulaginu gerðu ráð fyrir. Ákvæði frumvarpsins um að komið verði til móts við kostnað nemenda vegna námsgagna eru óútfærð.“

Þar erum við nú að bíða eftir kosningaloforðum Samfylkingarinnar. Ég man sérstaklega að á Akureyri var dreift ávísun til nemenda í framhaldsskólunum: Þetta fáið þið ef þið kjósið ... (Gripið fram í: Hvar eru barnakortin frá framsókn?) Þetta fáið þið ef þið (Gripið fram í: Hvar eru barnakortin?) ef þið ... Það var ekki ávísun á peninga. Þetta er eitthvert það lúalegasta kosningatrix sem ég hef upplifað á þó minni stuttu ævi og hef ég nú heyrt af mörgum. En við bíðum spennt eftir að Samfylkingin nái að efna þetta kosningaloforð sitt. Svo reyndi Samfylkingin hér í umræðunni um gjaldfrjálsa leikskóla einhvern veginn að skýra sína afstöðu. Þeir sögðu annars vegar að þetta væri málefni sveitarstjórnarstigsins og svo sögðu þeir hins vegar að það væri hægt að túlka þeirra álitsgerð í þessum efnum á mismunandi hátt, að þetta væri allt saman loðið. En maður spyr sig: Hver er stefna Samfylkingarinnar í einmitt þessu máli? Er það stefna þeirra að ólögráða nemendur fái gjaldfrjálsa skólagöngu eða ekki? Það er skýr stefna framsóknarmanna að við viljum að skólagangan sé gjaldfrjáls og við viljum að allir fái notið menntunar óháð efnahag, stöðu og búsetu.

Svo heldur hér áfram, með leyfi forseta:

„Setja þarf skýr gæðaviðmið um þjónustu við nemendur í fjar- og dreifnámi í 21. gr. og einnig að tryggja jafnan aðgang þeirra að náminu. Fjar- og dreifnám felur í sér breytingar á kennsluháttum sem munu hafa áhrif á gæði í skólastarfi til framtíðar.

Frumvarpið þarf að tryggja aukinn rétt nemenda og kennara til þátttöku í ákvörðunum um innra starf framhaldsskóla. Skilgreina þarf betur verksvið skólafunda og verksvið kennarafunda. Breytingarnar sem lagt er til að gerðar verði á verksviði kennarafunda miðað við núgildandi lög eru hvorki faglegar né skynsamlegar. Þær eru ekki heldur í samræmi við markmið frumvarpsins um aukið vægi kennarafunda í tengslum við námskrárgerð og stefnumótun skóla.“

Nú sé ég að hv. þingmenn Samfylkingarinnar ætla að koma hér í andsvör og þá gætu þeir kannski svarað þeirri spurningu um leið hvort þeir telji Félag framhaldsskólakennara ekki hafa lesið álitsgerðir og frumvörpin og lögin þegar þeir sömdu þetta bréf eins og ýjað var að hér áðan í máli hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar. (Gripið fram í: ... gera mönnum upp skoðanir, já ...) Það er ekki verið að gera. (Gripið fram í: ... í andsvari.)

Svo segir, með leyfi forseta:

„Þegar frumvörpin um skólastigin þrjú eru borin saman kemur greinilega fram að frumvarpið um framhaldsskólann boðar mestu og stærstu breytingarnar. Þær eru þó hreint ekki allar sýnilegar því gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji tugi reglugerða um ýmis atriði í nýjum lögum. Það hlýtur að vera réttmæt og eðlileg krafa að löggjafinn skýri betur einstök atriði í stað þess að setja ákvarðanir um þetta alfarið í hendur ráðherra.“

Ég ætla að stikla á stóru af því sem ég á eftir að fjalla hérna um þetta bréf sem kom frá framhaldsskólakennurum en vil þó segja þetta og taka þetta sérstaklega fram, með leyfi forseta:

„Hætta er á því, verði frumvarpið nú keyrt í gegnum þingið, að fólk standi uppi með lög sem endurspegla ekki álit og góðan vilja löggjafans. Nauðsynlegt er að gefa sér tíma til eðlilegrar þróunar á ýmsum greinum, samræmingar og annarra nauðsynlegra lagfæringa.

Mikilvægt er að frumvarpið verði ekki að lögum frá Alþingi nema í sátt við nemendur, kennara og skóla og að ekki fari á milli mála að ný lög um framhaldsskóla skili nemendum jafngóðri menntun og þeim stendur nú til boða.“

Þetta er í samræmi við áhyggjur umsagnar frá Háskóla Íslands sem ég ætla aðeins að koma hér inn á í þeim tíma sem ég á eftir.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Mikill ágreiningur var um mörg stór efnisatriði í vinnunni að samningu frumvarpsins og vegna vinnubragða.“

Svo segir hér að lokum, með leyfi forseta:

„Félag framhaldsskólakennara leggur fast að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla. Næstu mánuði ætti að nota til þess að sníða af frumvarpinu helstu gallana og ná sáttum um þessi mikilvægu mál. Eru kennarasamtökin fús sem fyrr að leggja góðum málefnum lið.“

Þetta eru stór orð, virðulegi forseti. Ég vona að þau hafi náð eyrum stjórnarmeirihlutans á Alþingi og að hann taki tillit til þessa bréfs og að þetta mál verði unnið í sátt og samlyndi við meiri hluta framhaldsskólakennara, þ.e. öll þau fjölmörgu erindi sem hafa borist frá félögum framhaldsskólakennara víða um land, ekki síst frá framhaldsskólum í okkar kjördæmi, Norðaustur kjördæmi, hv. þm. Einar Már Sigurðarson.

Háskóli Íslands kom með afar vandaða greinargerð um þetta frumvarp. Ég ætla að leyfa mér að lesa nokkurn kafla. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir mun sveigjanlegri námsskipan en nú er — og m.a. opnaður möguleiki á að stytta nám til stúdentsprófs, sem samkvæmt frumvarpinu er samheiti fyrir lokapróf úr framhaldsskóla sem gæti haft mjög fjölbreytt innihald. Í því samhengi skiptir miklu máli hvernig útfærslan verður í reynd er fram líða stundir, þar sem frumvarpið miðar m.a. að því, eins og fram kemur í greinargerð:

að gildi stúdentsprófs sem undirbúnings fyrir háskólanám verði óskorað, en framhaldsskólum gefinn kostur á að byggja upp sveigjanlegt námsframboð hvað inntak og skipulag náms varðar,

að skipulag skólastarfs miðist við kröfur og væntingar nemenda, þar sem sveigjanleiki námsskipulags verði stóraukinn, námsleiðum fjölgað og skilyrði sköpuð fyrir fleiri til að ljúka skilgreindu námi og þar með draga úr brottfalli,

að veita framhaldsskólum frelsi til að þróa sérstakar námsbrautir sem byggjast á sérstöðu þeirra og styrkleika og spurn eftir sérhæfðum námsleiðum og úrræðum,

að mat á vinnu nemenda í öllu námi á framhaldsskólastigi, þar með töldu í iðn- og verknámi, verði gagnsætt og sambærilegt og stúdentspróf á bóknáms- og verknámsbrautum jafngilt,

að fela menntastofnunum aukna ábyrgð á að þróa námsframboð á mörkum skólastiga til að auka sveigjanleika og möguleika nemenda við flutning þeirra milli skólastiga,

að gæði náms verði tryggð með því að efla innra og ytra mat á skólastarfi og með stuðningi við umbætur í skólastarfi.

Allt eru þetta efnisatriði sem vonandi horfa til bóta fyrir menntun nemenda við hæfi hvers og eins — en um leið munu þau kalla á sérstaka skoðun innan HÍ með hliðsjón af þeim undirbúningi sem háskólinn telur nauðsynlegan til þess að nemendur geti tekist á við háskólanámið.“

Síðan er fjallað í umsögn Háskóla Íslands um kjarna og inntak stúdentsprófs. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að verði frumvarpið að lögum verður stúdentsprófið mun fjölbreyttara en áður. Samkvæmt frumvarpinu verða einungis um 45 (nýjar) einingar (ein og hálf önn) í kjarnagreinum, auk þess sem prófið á að uppfylla almennan hluta námskrár fyrir framhaldsskóla. Staðfesting ráðherra á námsbrautalýsingu einstakra skóla á líka að tryggja að prófið uppfylli „almennar kröfur háskóla“ og dugi til inngöngu í háskóla í nágrannalöndunum.

Núverandi stúdentspróf er 140 námseiningar (samkvæmt gildandi námseiningakerfi í framhaldsskólum) og miðað er við að nemendur ljúki þeim á fjórum árum. Í fyrirliggjandi tillögum er hvorki ljóst hvað margar (nýjar) námseiningar stúdentsprófið felur í sér, né heldur hve mörg námsár eru til stúdentsprófs.“

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra að þessu sinni en mun taka aftur til máls seinna í umræðunni. Ég vil að lokum segja að vinnan í menntamálanefndinni var á margan hátt til mikillar fyrirmyndar og það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það var gefinn nægur tími til þess að vinna þetta mál. Engu að síður kom það mjög snemma fram að ef ekki yrðu gerðar breytingar á lagaákvæðinu sem mesti ágreiningurinn snýst um yrði ekki samstaða um þetta frumvarp eins og rakið er mjög skilmerkilega í áliti minni hluta menntamálanefndar.

Eins og ég rakti áðan eru mörg af yfirlýstum markmiðum frumvarpsins um framhaldsskóla góð og gefa möguleika á endurnýjun framhaldsskólastigsins. Hins vegar liggur fyrir að margar þeirra leiða sem mælt er fyrir um í frumvarpinu stríða beinlínis gegn þeim markmiðum. Ég hef farið yfir stærstu ágreiningsatriðin og ætla ekki að gera það hér meira.

Það liggur líka fyrir að mistekist hefur að skapa nauðsynlega sátt um frumvarpið meðal skólafólks, en slík sátt er grundvöllur þeirra róttæku breytinga sem stjórnvöld hafa hug á að gera á framhaldsskólanum. Í ljósi þessa hlýtur minni hlutinn að vara við því að málið verði keyrt með meirihlutavaldi gegnum atkvæðagreiðslu á Alþingi. Leggur minni hlutinn því til að frumvarpinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá.