Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 17:19:55 (7982)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:19]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að endurtaka spurningarnar fyrir hv. þingmann af því að hann missti af þeim í fyrri lotunni. Ég spurði varðandi grenndarskólana — hv. þingmaður gerði athugasemdir sem hann hafði eftir athugasemdum Félags framhaldsskólakennara varðandi grenndarskóla á suðvesturhorninu. Það má vísa til þess að það sé einhvers lags form af hverfaskóla eða réttindi nemenda til að sækja skóla í sínu hverfi. Þannig skil ég athugasemdina og ég spurði hv. þingmann um hvaða afstöðu hann hefði gagnvart því.

Í öðru lagi spurði ég um gjaldtökur, hvernig hann læsi lögin, hvort um aukna gjaldtöku væri að ræða eða hvort verulega væri dregið úr. Það mátti skilja á máli hans að hér væri ekki um neinar breytingar að ræða. Varðandi landsbyggðarskólanna þá notaði hv. þingmaður einmitt það sem stendur landsbyggðarskólunum oft mest fyrir þrifum, að þeir geti ekki boðið upp á nám við hæfi. Þetta er einmitt orðalagið sem notað er þegar menn neita að opna deildir úti á landi (Forseti hringir.) og berjast gegn því að þjónustan verði bætt, að ekki sé hægt að bjóða upp á fullkomið nám, þannig að ég vara við þessari orðanotkun.