Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 19:10:14 (7988)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[19:10]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hv. síðasti ræðumaður sem var í pontu, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, talaði um að mikill ágreiningur væri um framhaldsskólafrumvarpið og það er hárrétt hjá henni. Það er mikill ágreiningur um það eins og menn hafa orðið varir við í umræðunni og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði að það væri ekkert skrýtið að mikill ágreiningur væri um það af því að verið væri að gera róttækar breytingar á framhaldsskólastiginu, því væri eðlilegt að mikill ágreiningur væri um það. En ég hef skilið það svo að einnig sé verið að gera talsverðar breytingar á leikskólastiginu og grunnskólastiginu. Það var rætt í gær og þá ræddum við um þau frumvörp inn í nóttina. Þar er ekki ágreiningur uppi eða a.m.k. mun minni ágreiningur en er í þessu máli og ég leyfi mér að segja nokkuð góð sátt um þau mál. Það er því ekki svo að það sé sjálfsögð afleiðing af því þegar maður er að gera miklar breytingar að ágreiningur þurfi að vera um mál, alls ekki. Það er ágreiningur um þetta mál, virðulegur forseti, af því að stór hluti skólakerfisins, stór hluti m.a. kennara, er afar ósáttur við málið.

Mig langar í upphafi ræðu minnar að fara aðeins yfir ályktanir Framsóknarflokksins í sambandi við framhaldsskólastigið. Í gær kaus ég í ræðu minni að fara yfir ályktanir okkar bæði um leikskólastigið og grunnskólastigið. Reyndar átti í gær að tala um þetta frumvarp sem við erum að ræða núna inn í nóttina en sem betur fer var því afstýrt og ég vil fagna því að forsetadæmið, eins og það var kallað á fyrri tíð, þ.e. þeir sem stýra þinginu hafi að lokum tekið tillit til sjónarmiða minni hlutans og gefist upp á því að reyna að ræða framhaldsskólafrumvarpið í nótt. Þess vegna erum við að ræða það núna og mig langar á sama hátt og í gær að fara yfir ályktanir Framsóknarflokksins um framhaldsskólastigið. Þar segir að markmiðið sé að gera þurfi framhaldsskólana aðlaðandi með auknum sveigjanleika og aukinni nærþjónustu við nemendur.

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að framhaldsskólanám sé aðgengilegt ungu fólki frá lögheimili sínu daglega. Ekki kemur til greina að innheimta skólagjöld í opinberum framhaldsskólum og leggja þarf aukna áherslu á fjölbreytni framhaldsskólanna með sérstaka áherslu á starfsnám. Ég ætla að skjóta því inn í, virðulegur forseti, að ég skynja að reyna eigi að leggja áherslu á það í frumvarpinu, þótt deilt sé um hvort nægjanlega vel sé um það búið eins og frumvarpið lítur út. Svo segir áfram að tónlistarnám á framhaldsskólastigi verði viðurkennt af ríkinu á sama grundvelli og annað framhaldsskólanám.

Síðan kemur að leiðunum sem við teljum að beri að fara til að ná þeim markmiðum. Í fyrsta lagi að framhaldsskólum eða fjarkennslustöðvum frá þeim sem sinnir öllum byggðakjörnum verði komið á fót. Í öðru lagi að sérstök áhersla verði lögð á að auka framboð í starfs- og listnámi á landsbyggðinni sem höfðar jafnt til beggja kynja og verði raunhæfur valkostur fyrir alla. Í þriðja lagi að auka samstarf framhaldsskóla og grunnskóla. Það á sérstaklega við á landsbyggðinni þar sem fámenni kallar á aukna hagkvæmni í nýtingu mannauðs, húsnæðis og ferða. Ég skýt því inn í, virðulegi forseti, að það er eitt af markmiðunum með framhaldsskólafrumvarpinu og grunnskólafrumvarpinu, að reyna að koma þessu á. Í fjórða lagi að auka beri náms- og starfsfræðslu og að sporna gegn brottfalli úr framhaldsskólum. Í síðasta punkti er nefnt að sérstaklega þurfi að styðja nemendur af erlendum uppruna.

Það var einmitt rætt í gær og eðlilegt að draga það inn í umræðuna núna að mjög mikilvægt er að skólarnir styðji sérstaklega nemendur af erlendum uppruna af því að það getur svo sannarlega hjálpað öllum þeim nýbúum sem við blessunarlega höfum fengið að fá í samfélag okkar. Ég tel að æskilegt sé að blanda af fólki búi hér, það séu ekki bara ljóshærðir aríar, eins og einhver sagði einhvern tíma, heldur fólk sem hafi líka reynslu annars staðar frá og hafa verið að hjálpa okkur í mikilvægum störfum í samfélaginu, aðstreymi vinnufólks. Það þarf að sinna sérstaklega nýbúabörnum til að þau verði hluti af íslensku samfélagi sem fyrst.

Varðandi fyrstu skrefin þarf samkvæmt stefnu Framsóknarflokksins að ljúka vinnu við háhraðanettengingar til að allir grunn- og framhaldsskólanemar eigi kost á að nýta sér nútímaupplýsingatækni við nám. Þetta er mjög mikilvægt atriði, virðulegi forseti. Einnig er nefnt að gerð verði heildaráætlun um uppbyggingu framhaldsskólanáms og fjarkennslumiðstöðva. Í lokin er sagt að kanna beri kosti þess að flytja framhaldsskólastigið til sveitarfélaganna. Þetta eru þær áherslur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt á framhaldsskólastigið í ályktunum sínum. Þá er spurning hvernig frumvarpið harmónerar við þessar áætlanir okkar. Í frumvarpinu kemur skýrt fram að markmiðið með því er að styrkja framhaldsskólastigið og auka samræmi í uppbyggingu þess og tengsl við önnur skólastig. En samhliða frumvarpi þessu eru lögð fyrir Alþingi frumvarp um leikskóla og frumvarp um grunnskóla. Í frumvarpinu er kveðið á um að fræðsluskylda verði til 18 ára aldurs, aukinn sveigjanleiki verði í námsframboði, námsgreinum fjölgað, námsframboð aukið, dregið verði úr miðstýringu á námsframboði og í námskrárgerð, starfsþjálfun verði í tengslum við verknám og aukinn sveigjanleiki til að klára stúdentspróf á skemmri tíma en nú er gert ráð fyrir.

Þetta eru markmiðssetningarnar í frumvarpinu en að mati minni hlutans og m.a. fulltrúa Framsóknarflokksins í menntamálanefnd, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, vantar að hans mati og okkar mati í stjórnarandstöðunni, a.m.k. þeirra sem skrifa undir minnihlutaálitið, nokkuð upp á að þeim markmiðum verði náð með frumvarpinu. Deilur eru um það eins og við höfum heyrt í dag.

Í nefndaráliti minni hlutans, sem ég mun kjósa að gera að meginumtalsefni hjá mér sem eðlilegt er, kemur fram að hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sagði við 1. umr. málsins, 7. desember 2007, og reyndar allra menntafrumvarpanna sem liggja í þinginu, að hún teldi mikilvægt að málin fylgdust að í gegnum þingið, enda væri um heildstæða nálgun að ræða. Þetta er örugglega ágætur útgangspunktur hjá ráðherra að vilja fá öll málin í gegnum þingið í einu. Ég skil alveg að ráðherrann vilji það gjarnan en við teljum að ekki ætti að klára þetta mál. Við teljum eðlilegt að hin málin klárist, leikskólinn, grunnskólinn og menntafrumvarpið svokallaða, en við teljum að ekki eigi að klára þetta mál samhliða, vegna þess að okkur þykir vanta talsvert upp á að sátt náist um málið eins og um hin málin. Þá er ég ekki að tala um sátt innan þingsins á milli stjórnmálaflokkanna heldur líka sátt við stóran hluta af skólasamfélaginu, við stóran hluta af kennurunum sem vinna í framhaldsskólunum. Það væri mjög æskilegt að ná sátt við þá en sú sátt er ekki fyrir hendi í augnablikinu.

Hæstv. ráðherra sagði að þessi mál væru afrakstur vinnu margra aðila og þau endurspegluðu sjónarmið og hugsjónir þeirra sem best þekktu til í menntamálum þjóðarinnar og mikilvægt væri að víðtæk sátt ríkti um þau en sú sátt er ekki fyrir hendi. Í byrjun desember í fyrra var strax mjög mikil óánægja með eitt af þessum skólafrumvörpum, þ.e. framhaldsskólafrumvarpið sem við erum núna að ræða. Sú óánægja endurspeglast í fjölda umsagna sem sendar voru til menntamálanefndar og ekkert lát er á þeirri óánægju. Málið er ekki að róast. Við í þinginu fáum talsvert mikið af yfirlýsingum sendar til okkar og ályktanir úr samfélaginu, frá kennarafélögum framhaldsskólanna sérstaklega. Það er því engin sátt, virðulegi forseti. Og það er svolítið merkilegt að hlusta á stjórnarþingmenn ræða um hvað málið sé frábært og æðislegt og þetta sé aldeilis stórkostlegt mál þá er það bara þannig, virðulegur forseti, að stór hluti kennarasamfélagsins er því ekki sammála og ekki við heldur.

Borist hafa áskoranir frá kennarafélögum, líklega frá helmingi framhaldsskóla í landinu, t.d. Menntaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskóla Austurlands, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Menntaskólanum við Sund, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Kvennaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskólanum í Vestmannaeyjum, Iðnskólanum, Menntaskólanum á Egilsstöðum og Menntaskólanum í Kópavogi. Einnig hefur borist opið bréf frá Félagi framhaldsskólakennara sem hefur verið gert að talsverðu umtalsefni í dag. Þetta opna bréf var sent í gær. Þar sem margir hafa gert það að umtalsefni ætla ég líka að leyfa mér að gera það, virðulegi forseti.

Þetta opna bréf ber titilinn: Opið bréf Félags framhaldsskólakennara til þingmanna. Það er alveg einbeittur vilji félagsins að þetta bréf rati til okkar í þingið, það er alveg greinilegt. Það var sent í gær, 22. maí 2008. Þar er farið yfir þá sýn sem Félag framhaldsskólakennara hefur á málið eins og það lítur út í augnablikinu. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að fara yfir bréfið og hafa eftir það sem í því stendur og tengja það svolítið við það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði í ræðu sinni. Hann sagðist vera miður sín yfir bréfinu, hann hefði tilheyrt því samfélagi, þ.e. Félagi framhaldsskólakennara, og var sleginn yfir bréfinu en færði síðan rök fyrir því að ósætti t.d. um styttingu til náms til stúdentsprófs, það ósætti sem var á sínum tíma væri einhvern veginn að rata inn núna og væri einhver misskilningur. Hv. þingmaður orðaði það svo að alltaf væri verið að vitna í einhver orð sem einhver sagði fyrir mörgum árum. Hann hefur þá væntanlega átt við hæstv. menntamálaráðherra sem gaf tóninn gagnvart styttingu náms til stúdentsprófs. En hér segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Félag framhaldsskólakennara veitti menntamálanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til framhaldsskólalaga 28. janúar sl. Félagið telur ýmislegt í frumvarpinu geta orðið efni í góða menntastefnu ef rétt er staðið að málum. Þrátt fyrir það hefur félagið lagt mikla áherslu á að frumvarpið yrði fært til betri vegar í meðferð þingsins. Það er því sannarlega mikið áhyggjuefni að í áliti meiri hluta menntamálanefndar á frumvarpinu sem kemur fram á síðustu starfsdögum þingsins er ekki tekið á helstu ágöllum frumvarpsins en þeir eru í stórum dráttum þessir:“

Félagið er ekki að senda opið bréf til þingmanna með einhverri sérstakri skoðun á frumvarpinu. Búið er að senda inn á fyrri stigum væntanlega slíka umsögn. Verið er að senda inn opið bréf til þingmanna þar sem verið er að dæma stöðu málsins eins og það er núna í þinginu, þ.e. eftir að álit meiri hlutans kemur fram, eftir að búið er að taka frumvarpið úr nefndinni. Þetta er því alveg glænýtt og verið er að dæma stöðuna eins og hún er í augnablikinu. Í bréfinu stendur, verið er að stikla á því hverjir eru mestu ágallarnir í frumvarpinu og þeir eru hér, með leyfi virðulegs forseta:

„Fyrirætlanir í 23. gr. um að draga eigi úr miðstýringu í námsframboði og í námskrárgerð eru ekki markvissar. Ráðherra á bæði að staðfesta námsbrautalýsingar skólanna og setja þeim viðmiðunarnámskrár. Félagið telur að skólarnir eigi að fá skýrt umboð til að móta sínar áherslur eins og var fyrir lagasetninguna 1996.“

Þetta er sýn Félags framhaldsskólakennara á þessari skrautfjöður sem mér heyrist að margir stjórnarliðar hafi dregið fram í umræðunni, þ.e. að verið sé að veita skólunum meira frelsi varðandi námsframboð. Hér eru færð rök fyrir því að efast megi um að það sé nógu skýrt eins og frumvarpið liggur fyrir núna, að það verði að veruleika.

Í öðru lagi segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í nefndarálitinu er talað gegn skerðingu á inntaki stúdentsprófsins og lögð áhersla á að útfærslan og vinnan í framhaldi af nýjum lögum eigi að miðast við það. Þessu ber að fagna. Félagið telur engu að síður mikilvægt að vinna gegn hættu á „útþynningu“ stúdentsprófsins sem háskólarnir hafa varað sterklega við. Tilgreina verður lágmarksfjölda námseininga til stúdentsprófs.“

Virðulegi forseti. Hér er verið að fara inn á einmitt það atriði sem mesta rifrildið eða mesta rökræðan hefur kannski orðið um í dag, þ.e. um stöðu stúdentsprófsins. Er verið að útþynna það eða ekki? Eins og framhaldsskólar skynja þá stöðu telja þeir að það verði m.a. að tilgreina lágmarksfjölda námseininga til stúdentsprófs. Þeir hafa því greinilega mjög mikinn vara á sér gagnvart því að það sé rétt að ekki sé verið að þynna út stúdentsprófið.

Í þriðja lagi segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í skýrslunni Breytt námsskipan til stúdentsprófs (2004) komu fram áform um að stytta námstíma til stúdentsprófs um eitt ár með því að skerða námið. Til mótvægis var talað um að hægt væri að færa einhverja framhaldsskólaáfanga yfir til grunnskólans auk þess sem til stóð að lengja skólaárið um fimm daga. Í þingræðum á vordögum 2007 kom fram að öll slík áform hefðu verið lögð til hliðar. Taka þarf af tvímæli um að breytingarnar sem nú eru boðaðar með frumvarpinu feli í sér skerðingu á náminu. Ljóst er að færsla framhaldsskólaáfanga yfir til grunnskólans og lenging skólaársins um fimm daga vega ekki upp námseiningar sem svara til heils árs náms.“

Hér er, virðulegi forseti, áfram haldið fram rökræðu um stúdentsprófið og félagið gefur í skyn og segir að taka þurfi af tvímæli um að breytingarnar feli ekki í sér skerðingu á náminu. Félag framhaldsskólakennara er því greinilega í óvissu með það og telur að það sé ekki ljóst eins og frumvarpið er sett fram. Og þrátt fyrir að félagið hafi séð hvað stendur í nefndarálitinu, sem stjórnarliðar hafa mikið vitnað í, þá er það upplifun félagsins á málinu að þetta sé alls ekki þannig að búið sé að taka tímann um að ekki eigi að þynna út stúdentsprófið.

Í fjórða lagi segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er ráðgert að lengja skólaárið um fimm daga. Af efni frumvarpsins verður ekki ráðið hvað á að gera við þessa daga.“

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók þessa athugasemd heldur óstinnt upp og færði rök fyrir því að ef þingið væri með leiðbeiningar um hvað ætti að gera við þessa fimm daga þá yrði því tekið sem íhlutun í innra starf framhaldsskólans. Ég skal ekki segja til um það en alla vega kemur þessi athugasemd frá Félagi framhaldsskólakennara hingað í opnu bréfi til þingmanna.

Þá segir í fimmta lagi, virðulegi forseti:

„Í frumvarpinu er ráðgert að taka upp einingakerfi evrópskra háskóla í íslenskum framhaldsskólum. Hugmyndunum um ECTS-einingarnar var kastað skýringalaust inn í frumvarpsvinnuna á haustdögum 2007 og fengust aldrei ræddar á þeim vettvangi þrátt fyrir ítrekaðar óskir kennarasamtakanna. Skýra þarf tilgang þess að ráðast skuli í þessa grundvallarbreytingu.“

Hérna eru framhaldsskólakennarar í félagi sínu að mótmæla því að taka eigi upp einingakerfi evrópskra háskóla inn í íslenska framhaldsskóla og telja sig ekki átta sig á því í hvaða tilgangi og þeir vilja fá skýringar af hverju verið er að leggja þetta til í frumvarpinu. Ég heyrði ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þar sem hún taldi sig hafa upplýsingar um það að hvergi væri í framhaldsskólum verið að notast við þessar ECTS-einingar í Evrópu. Kannski er það rétt, ég þekki það ekki, en ég hef a.m.k. ekki heyrt svör frá stjórnarmeirihlutanum um það hvort hér sé um eitthvert séríslenskt fyrirbæri að ræða, hvort við séum að fara inn í eitthvert sérkerfi sem ekki er notað annars staðar. Ég átta mig ekki á því, virðulegi forseti.

Í sjötta lagi stendur í þessu opna bréfi til þingmanna, með leyfi virðulegs forseta:

„Í frumvarpinu þarf að birtast ótvíræður vilji stjórnvalda til að styrkja fjárhagslegt svigrúm og forsendur framhaldsskóla til að bjóða nemendum upp á nám við hæfi, fjölbreytt nám og sveigjanlega námsframvindu.“

Maður sér þetta oft þegar verið er að fjalla um frumvörp að hagsmunasamtök og þeir sem vinna í þeim málaflokkum sem fjallað er um hverju sinni í frumvarpasmíði kalla oft eftir verðmiða á því sem gera á samkvæmt frumvörpunum og hér er verið að kalla eftir því. Verið er að kalla eftir fjárhagslegu svigrúmi. Ég vil halda því til haga, virðulegi forseti, að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði hér mjög bratt í andsvari áðan að verulega mikið fjármagn — ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta var sagt, en alla vega voru sterk lýsingar- og áhersluorð notuð — yrði sett í framhaldsskólana. Það er ágætt að setja það á bak við eyrað til að rifja það upp síðar af því að maður ætlast þá til þess að ríkisstjórnarflokkarnir með Samfylkinguna sem aðalvopnið í þeirri baráttu, fyrst þessi yfirlýsing kom frá Samfylkingunni, styrki fjárhagslega allt framhaldsskólastarf í landinu. Þetta var það einbeitt yfirlýsing frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að við munum ekki gleyma henni og munum minna hv. þingmann á hana við þau tækifæri sem þar sem það á við.

Í sjöunda lið segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er óskýrt um framhaldsskólapróf og fræðsluskyldu til 18 ára aldurs. Hér verða að koma fram skýrari áform um að stjórnvöld ætli sér að taka aukna ábyrgð á námsvist og skólagöngu ólögráða nemenda. Með fræðsluskyldunni þarf að veita nemendum skilgreindan rétt til framhaldsskólavistar í grennd við heimili sitt. Það mundi ráða bót á þeirri miklu námsaðgreiningu nemenda sem ríkir á skólasvæði suðvesturhornsins.“

Gott og vel. Ég ætla að vinda mér beint í áttunda lið, með leyfi virðulegs forseta:

„Í frumvarpinu felast misjöfn tækifæri eftir landshlutum. Smærri skólar í dreifðum byggðum geta lent í erfiðleikum með að bjóða upp á þá breidd í námi sem þeir þurfa til að sinna sínu byggðarlagi. Gera þarf grein fyrir mótvægisaðgerðum gegn vaxandi aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis í þessum efnum.“

Hér kallar Félag framhaldsskólakennara eftir því að brugðist verði við vaxandi aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis í þessum efnum. Ég skil alveg að menn vilji kalla eftir slíku, en ég tel að það sé mjög erfitt að taka beint á því máli. Auðvitað viljum við hafa tækifæri á landsbyggðinni og hér á höfuðborgarsvæðinu sem líkust. En á sama tíma sjáum við að það er talsverður aðflutningur fólks frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Eðli máls samkvæmt verður erfiðara að bjóða upp á mikla breidd og mikla fagmennsku varðandi kennslu í framhaldsskólunum í fámenninu. Eðli málsins samkvæmt verður það erfiðara. Skoða þarf sérstaklega hvernig á að minnka aðstöðumuninn eða alla vega stöðva þessa þróun. Ég tel að það geti orðið ansi erfitt, því miður, virðulegur forseti. En þetta er tengt byggðavandanum sem er mjög flókinn í eðli sínu. Hugsanlega er hægt að taka á þessu með einhverjum hætti með vaxandi tækni en ég held að þetta verði mjög erfitt mál. En ég skil alveg að þessi krafa er gerð af Félagi framhaldsskólakennara.

Þá vil ég fara í næsta atriði, sem er níundi liðurinn í þessu bréfi. Ég vitna beint í það, með leyfi virðulegs forseta:

„Frumvarpið tryggir ekki ólögráða framhaldsskólanemendum sambærilegan stuðning, ráðgjöf og þjónustu og ólögráða nemendum á öðrum skólastigum. Mikilvægt er að taka upp sambærileg ákvæði um þessi atriði og í frumvarpi um grunnskóla þannig að litið verði á skólagöngu ólögráða nemenda sem eina heild frá upphafi skyldunáms til 18 ára aldurs.“

Hér er verið að benda á mjög mikilvægt atriði og ég tek undir það.

Í tíunda lið segir, virðulegur forseti:

„Í frumvarpinu þarf að fjalla með skýrari hætti um tengsl milli grunnskóla og framhaldsskóla.“

Í ellefta lið segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu þarf að fjalla með skýrari hætti um aukna náms- og starfsráðgjöf fyrir nemendur í framhaldsskólum.“

Gagnvart þessari röksemdafærslu er einmitt getið um það í nefndaráliti minni hlutans að náms- og starfsráðgjöf fyrir nemendur í framhaldsskóla — það er álit minni hlutans að ekki sé tekið nógu skýrt á þeim þætti í frumvarpinu. Hér kemur fram að Félag framhaldsskólakennara er sama sinnis.

Í tólfta lið segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Frumvarpið tryggir ólögráða nemendum ekki gjaldfrjálsa skólagöngu eins og margar tillögur starfshópa að tíu punkta samkomulaginu gerðu ráð fyrir. Ákvæði frumvarpsins um að komið verði til móts við kostnað nemenda vegna námsgagna eru óútfærð.“

Ég ætla ekki að taka upp tilvitnanir í beinan texta frá kosningaloforðum, m.a. Samfylkingarinnar, en í síðustu kosningabaráttu var Samfylkingin mjög brött gagnvart kostnaði nemenda vegna námsgagna á öllum skólastigum. Allt átti að vera ókeypis og verður gaman að sjá hvort koma eigi því kosningaloforði í höfn og hvenær það þá verður. Samfylkingin verður rukkuð um það við þau tækifæri sem gefast.

Í þrettánda lið segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Setja þarf skýr gæðaviðmið um þjónustu við nemendur í fjar- og dreifnámi í 21. gr. og einnig að tryggja jafnan aðgang þeirra að náminu. Fjar- og dreifnám felur í sér breytingar á kennsluháttum sem munu hafa áhrif á gæði í skólastarfi til framtíðar.“

Þetta er mjög mikilvægt atriði. Fjar- og dreifnám mun líklega aukast í framtíðinni. Það var ekki fyrir hendi fyrir örfáum árum síðan þannig að það er mjög spennandi. Hér er þeim ábendingum komið á framfæri að setja þurfi skýr gæðaviðmið varðandi þessa þjónustu svo að hún verði góð og væntanlega sem líkust um allt land.

Í síðasta liðnum í opnu bréfi til þingmanna frá Félagi framhaldsskólakennara segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið þarf að tryggja aukinn rétt nemenda og kennara til þátttöku í ákvörðunum um innra starf framhaldsskóla. Skilgreina þarf betur verksvið skólafunda og verksvið kennarafunda. Breytingarnar sem lagt er til að gerðar verði á verksviði kennarafunda miðað við núgildandi lög eru hvorki faglegar né skynsamlegar. Þær eru heldur ekki í samræmi við markmið frumvarpsins um aukið vægi kennarafunda í tengslum við námskrárgerð og stefnumótun skóla.“

Hér er verið að færa rök fyrir því að það þurfi að skýra þetta betur í frumvarpinu, virðulegur forseti.

Varðandi þetta atriði vil ég minnast á það sem fram kom í ræðu hjá, að mig minnir, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um hlutverk foreldra. Það er nýmæli í frumvarpinu að kveðið er á um það í frumvarpinu. Ég tel afar mikilvægt að samstarf við foreldra verði aukið gagnvart framhaldsskólanum og reyndar gagnvart öllum skólastigum en sérstaklega gagnvart framhaldsskólanum. Maður finnur það svolítið á eigin skinni að tengslin við framhaldsskólann eru talsvert minni en tengslin við leikskólann og grunnskólann. Þar er hægt að bæta verulega úr og það er ánægjuefni að vísbendingar eru um að við séum að stefna í þá átt, virðulegur forseti.

Í umræddu bréfi er meiri texti. Hann er nú ekki mjög langur en ég ætla að lesa hann af því að þar eru mjög einbeittar ábendingar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar frumvörpin um skólastigin þrjú eru borin saman kemur greinilega fram að frumvarpið um framhaldsskólann boðar mestu og stærstu breytingarnar. Þær eru þó hreint ekki allar sýnilegar því gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji tugi reglugerða um ýmis atriði í nýjum lögum. Það hlýtur að vera réttmæt og eðlileg krafa að löggjafinn skýri betur einstök atriði í stað þess að setja ákvarðanir um þetta alfarið í hendur ráðherra.“

Hér er komið inn á atriði sem fleiri þingmenn hafa gert að umtalsefni, að of mikil lausatök séu á því hvað hæstv. ráðherra getur sett mikið af reglugerðum. Þetta er ekki ný umræða. Þetta hefur verið dregið fram í fjölmörgum frumvörpum. Það er alltaf mjög erfitt að finna hinn gullna meðalveg í þessu. Hvað á að veita ráðherra mikið frelsi? Hvað á löggjöfin að vera skýr á því hvert hann vill fara? Það er ekki hægt að geirnegla allt niður. Alls ekki, það væri mjög óeðlilegt. En það er líka mjög óeðlilegt að þingið framselji of mikinn hluta af valdi sínu. Það er mikil jafnvægislist hvernig skera á þar á milli. En það er alla vega tilfinning Félags framhaldsskólakennara að verið sé að gefa ráðherra fullfrjálsar hendur. Ég skynja þessa ábendingu þannig, virðulegur forseti.

Síðan kemur hér áfram, með leyfi virðulegs forseta:

„Þegar frumvarpið fór inn á þing á jólaföstu átti það töluvert langt í land með að verða að nothæfum lagaramma fyrir skólastigið. Svo er enn, núna þegar örfáir dagar eru til þess að þingið geri hlé á störfum sínum. Hætta er á því, verði frumvarpið nú keyrt í gegnum þingið, að fólk standi uppi með lög sem endurspegla ekki álit og góðan vilja löggjafans. Nauðsynlegt er að gefa sér tíma til eðlilegrar þróunar á ýmsum greinum, samræmingar og annarra nauðsynlegra lagfæringa.“

Hér er nokkuð bratt farið hjá Félagi framhaldsskólakennara en sýnir að félagið hefur trú á því að góður vilji sé til staðar hjá löggjafanum en frumvarpið endurspegli það ekki og nauðsynlegt sé að gefa sér tíma til að gera breytingar á því.

Ég held áfram að vitna í bréfið, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að frumvarpið verði ekki að lögum frá Alþingi nema í sátt við nemendur, kennara og skóla og að ekki fari á milli mála að ný lög um framhaldsskóla skili nemendum jafngóðri menntun og þeim stendur nú til boða. Auk þess er grundvallaratriði að nægt fjármagn verði tryggt til að standa undir öllum kostnaði sem til fellur vegna þeirra breytinga sem ný lög munu hafa í för með sér.

Mikill ágreiningur var um mörg stór efnisatriði í vinnunni að samningu frumvarpsins og vegna vinnubragða. Stefnumótunarvinnu ýmissa fjölskipaðra nefnda sem unnu að tíu punkta samkomulagi KÍ og menntamálaráðherra frá 2. febrúar 2006 og sem hafa átti til hliðsjónar við frumvarpsvinnuna var í raun ýtt til hliðar. Fulltrúar KÍ í endurskoðunarnefndinni treystu sér ekki til að standa að skilabréfi nefndarinnar til menntamálaráðherra vegna þessa og sögðu sig frá vinnunni.“

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gera þetta að löngu umtalsefni. Aðrir hv. þingmenn hafa farið yfir það hér hvernig þetta bar allt að. En það er ljóst að sú undirbúningsvinna sem var eðlileg og sjálfsögð sprakk á framhaldsskólafrumvarpinu og þess vegna sitjum við uppi með þennan ágreining hér enn.

Það fer að líða að lokum þessa bréfs. Hér segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Að lokum skal minnt á einfalda staðreynd. Núverandi áfangakerfi framhaldsskóla, sem kom til fyrir rúmum 30 árum, varð til vegna atorku og hugsjóna þeirra sem störfuðu í skólunum. Nú þegar ætlunin er að færa skólunum aftur það umboð sem þeir eitt sinn höfðu til að móta sínar áherslur til hagsbóta fyrir nemendur og skólastarfið er lykilatriði að sátt ríki hjá starfsmönnum skólanna sem munu bera uppi breytingastarfið.“

Ég vil taka undir þetta. Það er mjög óheppilegt að ekki ríki sátt um frumvarpið. Ég tek það fram að það er ekki bara Félag framhaldsskólakennara sem er ósátt. Við höfum fengið ábendingar frá fjölmörgum skólum þar sem kennararnir vinna, þetta er talsverður hópur. Reyndar eru þeir kennarar meira og minna í félaginu. En þetta eru þeir kennarar sem starfa á því skólastigi sem verið er að fjalla um og álit þeirra hlýtur að vega mjög þungt í umræðunni.

Svo er hér rúsínan í pylsuendanum, a.m.k. fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, en ég er nú ekki viss um að stjórnarþingmönnum þyki svo vera. Ég ætla að vitna í síðustu setningarnar í þessu bréfi, með leyfi virðulegs forseta. Þetta er sem sagt bein áskorun á þingmenn:

„Félag framhaldsskólakennara leggur fast að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla. Næstu mánuði ætti að nota til þess að sníða af frumvarpinu helstu gallana og ná sáttum um þessi mikilvægu mál. Eru kennarasamtökin fús sem fyrr að leggja góðum málefnum lið.“

Undir þetta skrifa Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður og Magnús Ingólfsson, varaformaður Félags framhaldsskólakennara, Kennarasambandi Íslands.

Í niðurlagi þessa bréf er áskorun á þingmenn. Félagið leggur fast að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla og skorar á þingmenn að nota næstu mánuði til þess að sníða af frumvarpinu helstu gallana og ná sáttum um þessi mikilvægu mál. Kennarasamtökin vilja aðstoða við það.

Ég trúi ekki öðru en að hægt sé að ná sátt um þetta. Ég held varla að málið sé þess eðlis að útilokað sé að ná sátt um framhaldsskólann frekar en að hægt var að ná sátt um grunnskólann og leikskólann sem eru líka geysilega mikilvæg og merkileg skólastig. Ég trúi ekki öðru en að hægt sé að ná sátt um þessi mál.

Það er mat mitt, virðulegur forseti, að eðlilegast væri að bíða með þetta mál og færð eru rök fyrir því í nefndarálitinu að vísa málinu frá vegna þessa ósættis. Auðvitað má deila um hvort vísa eigi málinu frá yfirleitt. Það er alla vega ekki hægt að segja að málið hafi komið inn korteri fyrir þinglok. Það kom fram í desember og hefur verið í menntamálanefnd í góðan tíma og fengið þar hefðbundna meðferð, umsagnir, gesti á fundi — langur listi yfir gesti sem komu á fundi er hér í nefndaráliti þannig að búið er að liggja talsvert yfir þessu máli. En það hefur greinilega ekki breyst nógu mikið í meðförum nefndarinnar til þess að minni hlutinn telji eðlilegt að afgreiða það. Stór hópur framhaldsskólakennara er afar ósáttur og skorar á þingið að bíða með málið, keyra það ekki í gegn heldur setjast betur yfir það og reyna að leysa þann ágreining sem er uppi.

Ég á nú frekar von á því að málið fari inn í nefnd milli 2. og 3. umr. í ljósi þess að mikill ágreiningur er um það. Þá verður nefndin bara að ræða hvað hún vill gera við málið. Það getur svo sem skapað eitthvert uppnám hér á síðustu dögum þingsins, bæði þetta mál og auðvitað önnur stórmál sem eru hér í skoðun og sem ég býst við að meiri hlutinn vilji afgreiða á síðustu dögum þingsins.

Ég vil líka í lok ræðu minnar tala um kostnað. Það er mjög óljóst hvað þetta allt kostar. Þó segir í umsögn fjármálaráðuneytisins að t.d. muni sú nemendafjölgun sem verður vegna þess að fræðsluskyldan hækkar upp í 18 ára aldur kosta 500 millj. kr. og að fjölgun vinnudaga um fimm daga á skólaári muni kosta allt að 350 millj. kr. Það eru sem sagt færð rök fyrir ákveðnum fjárútgjöldum — ég ætla nú ekki að fara að lesa alla kostnaðarumsögnina en það er alveg ljóst að þetta frumvarp kostar heilmikla fjármuni.

Það kemur líka fram — og það er regla sem ríkisstjórnin sjálf hefur sett sér að eigi við um meðferð mála við 2. umr. fjárlagafrumvarps — að gert er ráð fyrir því að með frumvörpum sem leiða til aukinna útgjalda skuli fylgja tillögur um hvernig dregið verður úr öðrum útgjöldum á móti til að útgjaldaramminn skekkist ekki. En tillögur um slíkar mótvægisráðstafanir vegna þessa frumvarps liggja ekki fyrir af hálfu menntamálaráðuneytisins. Ráðuneytið viðurkennir þó að þetta muni kosta fjármagn. Það hlýtur bara að vera, það blasir við að þetta mun kosta talsverða fjármuni. Það eru þó engar ábendingar um mótvægisráðstafanir til þess að taka þá fjármuni inn annars staðar. Ríkisstjórnin kemur ekki með neitt slíkt.

En það er ekki einsdæmi, virðulegur forseti. Þetta hef ég séð með fjölmörgum frumvörpum sem hæstv. dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) hefur flutt hér inn. Það er talað um útgjöld en ekki neinar mótvægisaðgerðir eins og ríkisstjórnin sjálf hefur sett sér að gera.