Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 20:33:24 (7991)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[20:33]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að þegar ég sá þetta ákvæði upphaflega — ég var búinn að heyra af því áður en í þessu bréfi núna — um framhaldsskólavist í grennd við heimili sitt, þá skildi ég það sem landsbyggðarathugasemd. Ég skildi þetta sem það réttlætismál sem ég barðist fyrir í kosningabaráttunni, að nemendur ættu kost á að sækja nám í nágrenni við heimili sitt. Ég held að það sé afar brýnt þar, ég held að það sé mjög mikilvægt að nemendur þurfi ekki að fara um langan veg til að sækja framhaldsnám og þess vegna vorum við að ræða um dreif- og fjarnámið. En svo var ekki. Það var verið að ræða um suðvesturhornið og slíka skóla á höfuðborgarsvæðinu. Og ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að þetta er ákveðinn vandi. Það er ákveðinn vandi að unglingar í vesturbænum séu teknir inn í Menntaskólann í Reykjavík og Kvennaskólann eftir einkunnum og ákveðinn afgangur af hópnum þurfi að fara upp í Borgarholtsskóla eða fjölbraut í Breiðholti. Ekki vegna þess að ekki sé allt gott um þá skóla að segja en það er töluvert ferðalag. Það er töluverður kostnaður og ákveðin óhagkvæmni að verða að senda nemendur út um allan bæ. Ég viðurkenni að þetta er ákveðinn vandi.

Ég sé ekki með hvaða hætti á að taka á þessu í frumvarpinu. Ætlum við að reyna að stýra þessu með lögum? Ég held að við eigum að halda áfram að ræða þetta. Við eigum að halda áfram að ræða þetta og velta því fyrir okkur hvernig við getum tekið á þessu. Vandamálið er líka að við höfum leyft — og það er kannski ekki vandamál, það er líka styrkur en við verðum að taka afleiðingunum af því — að skólarnir séu ólíkir. Við erum að tala um menntaskóla þar sem eru Kvennaskólinn og MR og allt iðn- og verknámið annars staðar, hvort heldur það er í Breiðholti eða Borgarholti. Það er meira segja þannig að næsti framhaldsskóli er Menntaskólinn í Hamrahlíð þannig að menn verða að fara býsna langt ef þeir ætla að sækja iðnnám. Reykvíkingar verða þá að fara að ákveða hvort þeir vilja fá iðn- og verknámsskóla á vesturbæjarsvæðið, í Vatnsmýrina eða eitthvað slíkt. Þetta er vandamál sem þegar er til staðar og ég er ekki með tillögur um lausn og þess vegna treysti ég mér ekki til að móta það inn í lagatextann.