Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 20:35:26 (7992)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[20:35]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega þannig að það geta líka verið vandamál af þessum toga, grenndarvandamál, á höfuðborgarsvæðinu þó að hv. þingmaður hafi í fyrstu skilið þetta sem sérstakan vanda sem landsbyggðin á við að glíma, sem ég ætla ekki að gera lítið úr og mun ræða aðeins betur um í ræðu minni á eftir. Þetta er ákveðinn vandi og það er alveg hárrétt sem þingmaðurinn bendir á að þessi miklu ferðalög eru mikið óhagræði og mikill kostnaður, bæði fyrir einstaklinginn, nemandann eða fjölskyldu hans, og líka fyrir samfélagið. Þessar ferðir eru ekki endilega bara að morgni dags og í lok skóladags, það geta líka verið ferðalög milli heimilis og skóla síðdegis eða að kvöldi til og því eru jafnvel fleiri en ein ferð fram og til baka suma daga. Þetta eru atriði sem ég tel mjög þýðingarmikið að við a.m.k. leiðum hugann að.

Ég tek heils hugar undir það með þingmanninum að það eru líka heilmikil verðmæti fólgin í því að skólarnir hér eru mismunandi að gerð, að við höfum þennan gamla hefðbundna menntaskóla, latínuskólann gamla með sínum hefðum og háttum og svo nýstárlegri menntaskóla með áfangakerfi, fjölbrautaskóla o.s.frv. Ég held að það sé mikilvægt að halda í það. Engu að síður tel ég að þarna sé viðfangsefni sem við eigum að takast á við með einhverjum hætti en það kann vel að vera að ekki sé auðvelt að setja það beinlínis inn í lagatextann. Spurningin er þá hvort til greina hefði komið að vekja athygli á svona viðfangsefnum í nefndaráliti með hugsanlega einhverjum ábendingum um vinnu á vegum menntamálaráðuneytisins til að taka á þessum verkefnum sem ég tel brýn.