Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 20:37:37 (7993)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[20:37]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem mig langar til að varpa fram í spurningu til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Annars vegar það sem er kannski stóra ágreiningsmálið okkar varðandi þetta frumvarp sem er einingafjöldinn og sú fullyrðing að stúdentsprófið muni áfram verða fullgilt skírteini, ef ég skildi ræðu hv. þingmanns rétt, að það yrði áfram ófrávíkjanlega fullgilt til háskólanáms. Svo einföld er þessi mynd ekki vegna þess að þróunin hefur einmitt verið sú að stúdentsprófið hefur ekki verið algilt fyrir allar brautir háskóla og með því að hafa þetta jafnmikið í lausu lofti og gert er með þessu frumvarpi er enn frekar ýtt undir þá þróun að hér verði til margs konar stúdentspróf, misgild til háskólanáms, misgóð fyrir þá sem þeim hampa og að nemendur muni í auknum mæli reka sig á inntökupróf til að komast í það nám sem þeir kjósa að loknu stúdentsprófi.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvað telur hann að eigi að verða viðmiðið fyrir stúdentspróf hvað varðar einingafjölda? Því vonandi er ætlunin og það hefur komið fram að settar verði einhverjar reglur um það þótt það sé ekki bundið í þessum lagatexta eins og ég hefði kosið og eins og mjög margir umsagnaraðilar úti í samfélaginu hefðu líka kosið.

Hitt atriðið sem mig langaði til að spyrja um snýr að hinum gjaldfrjálsa framhaldsskóla og gjaldfrjálsum námsgögnum sem flokkur hv. þingmanns hampaði mjög í kosningabaráttunni. Og þá fer ég að velta fyrir mér hvort kosningabaráttan og sá málflutningur sem þá var hafður uppi sé sleginn út af borðinu með jafneinföldum hlut og þeim að skólameistarar hafi bent á að (Forseti hringir.) þetta sé kannski ekki það heppilegasta. Hvernig hefði verið að bera þetta undir skólameistara áður (Forseti hringir.) en farið var í kosningabaráttu?