Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 21:35:25 (7999)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[21:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, spyr hvort ég hyggist sem formaður menntamálanefndar eða fyrir hönd nefndarinnar taka þetta mál til nefndar milli 2. og 3. umr. vegna þeirra athugasemda sem þingmenn hafa fengið í tölvupósti síðustu daga. Ég get sagt um það almennt: Það má vel vera. Ég tek alls ekki fyrir það að málið verði tekið til nefndar á milli 2. og 3. umr.

Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á að hér eru gögn málsins. Í þessari möppu eru þær umsagnir sem bárust nefndinni. Ég efast um að hv. þingmaður eða aðrir hv. þingmenn hér í salnum, fyrir utan hv. þm. Guðbjart Hannesson, hafi kynnt sér allar þessar umsagnir. Þær eru tilgreindar í nefndaráliti meiri hlutans. Ætli þær séu ekki í kringum 60, flestar mjög jákvæðar. Yfir þær var allar farið og reynt að bregðast við flestum þeim athugasemdum sem þar komu fram. Þær voru flestar jákvæðar í garð þessa máls.

Við höfum séð býsna margar umsagnir um þetta mál á síðustu sex mánuðum sem við höfum haft það í fanginu. Ég tel að þær athugasemdir sem hafa borist okkur í tölvupósti á síðustu dögum kalli ekki á það einar og sér að málið verði tekið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr., en ég útiloka það ekki, sérstaklega ef formaður Framsóknarflokksins biður mig fallega.