Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 22:38:46 (8007)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[22:38]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, það er komið að lokum þessarar umræðu um frumvarp til laga um framhaldsskóla. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns um að það sé annar svipur á því að fá að ræða mál af þessu tagi í dagsbirtu og fá að gera það heilan dag án þess að þurfa að horfa fram á ofbeldissvip eins og við töldum okkur sjá í gær. Þá töldum við að að þvinga ætti málið á dagskrá í skjóli nætur þannig að ég fagna því og þakka fyrir að þetta skuli nú vera með þessum hætti eins og raun ber vitni.

Ég ætla svo sem ekki að halda langa ræðu hér í lok umræðunnar, hæstv. forseti. Mig langar bara aðeins til þess að tæpa á þeim atriðum sem ég hef áhyggjur af í þessum efnum. Ég hef sannarlega áhyggjur af því að hér sé ekki nægilega vel fyrir séð að ýmsu leyti. Ég rakti mjög vel í fyrri ræðu minni á hvern hátt ég óttast um stúdentsprófið, þ.e. gengisfellingu þess og útþynningu. Ég rakti sömuleiðis óskiljanlega hugmynd um háskólaeiningar á framhaldsstigi. Ég hef ekki frétt að spurningu minni sem ég lagði fram hafi verið svarað. Ég hef ekki verið hér í húsi í allan dag en hefur mér ekki borist svar við henni. Spurningin var þessi: Getið þið nefnt mér eitt dæmi um framhaldsskóla í Evrópu sem hefur innleitt þessar háskólaeiningar?

Ég geri ráð fyrir því að málin verði tekin inn í nefndina á milli 2. og 3. umr. og ég kem til með að óska eftir svari við þessari spurningu þegar nefndin tekur málið til umræðu. Mér finnst það skipta verulegu máli af því að því er haldið fram að framhaldsskólar í Evrópu séu að taka upp þessar háskólaeiningar en við höfum ekki fengið að sjá eitt einasta dæmi um það og skólafólk segir okkur að þetta sé uppspuni, það er hreinlega bara þannig.

Það sem ég talaði ekki um í fyrri ræðu minni voru áhyggjur mínar af nemendum með sérþarfir. Ég hef áhyggjur af því að það verði t.d. ekki nægilega vel fyrir séð aðgengismálum í skólum. Ég hef áhyggjur af deilunni sem stendur á milli Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisvaldsins varðandi skyldu sveitarfélaga í þessu tilliti að reisa og láta lóðir í té undir framhaldsskóla. Sú deila er ekki leyst og ég sé ekki að það séu nein merki um að verið sé að reyna að leysa hana. Ég hef mjög miklar áhyggjur af tónlistarskóladeilunni og tónlistarnámsdeilunni og allri listnámsdeilunni sem hefur verið hér í hnút árum saman. Hæstv. menntamálaráðherra hefur verið með sveðjurnar á lofti, vil ég meina. Við tókumst hraustlega á í þessum þingsal þegar Listdansskóli Íslands var lagður niður. Ég sé ekki að það séu neinar úrbætur í gangi sem sómi er að fyrir þessa ríkisstjórn hvað varðar listnámið. Menn flagga hér alls kyns hugtökum og búa til alls kyns tálsýnir varðandi listnámið í tengslum við þetta frumvarp en þeim hefur ekki tekist að leysa deiluna sem stendur um tónlistarnámið. Ég sé því ekki fyrir mér að þessir hnútar sem bundnir hafa verið muni losna þó að þetta frumvarp verði að lögum.

Ég hef áhyggjur af heyrnarlausum nemendum í framhaldsskólum, ég hef áhyggjur af útlendum nemendum í framhaldsskólunum og fjölskyldum þessara nemenda. Ég spyr: Hvað verður t.d. um unga nýbúa á framhaldsskólaaldri, t.d. í dreifðum byggðum landsins, segjum á Vestfjörðum? Hvernig eiga ungir nýbúar sem eru komnir á framhaldsskólaaldur að fá tryggðan rétt sinn til framhaldsskólasetu til 18 ára aldurs? Engri af þessum spurningum hefur verið svarað.

Það er á þessu máli allt annar bragur en á hinum málunum þremur, eins og við höfum vikið hér að í löngu máli. Enda sýnir gagnrýni Sambands ísl. sveitarfélaga það og jafnframt gagnrýni Félags framhaldsskóla og kennarafélaganna í framhaldsskólunum. Þau eru orðin ansi mörg sem eru búin að senda okkur ályktanir um að vísa eigi þessu máli til frekari vinnu í sumar og flýta sér hægt í þessum efnum.

Ég hef áhyggjur af því að hugmyndafræði eins og sú sem Samtök atvinnulífsins tala fyrir í umsögnum sínum til okkar sé hugmyndafræðin sem þetta frumvarp öðrum fremur byggir á þegar skoðuð eru þau fjögur frumvörp sem við fjöllum um. Mig langar til að vitna hér til umsagnar Samtaka atvinnulífsins til gagns fyrir þá sem hafa áhuga á því að setja sig í samband við þá hugmyndafræði. Samtök atvinnulífsins gefa almenna umsögn um frumvörpin þar sem þau telja þau almennt horfa til framfara í skólastarfi. Þau telja frumvörpin í meginatriðum í samræmi við stefnumótun atvinnulífsins í menntamálum.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Menntakerfið, skólar og fræðslufyrirtæki, er mikilvægt þjónustutæki til að byggja upp og viðhalda þekkingu sem nýtist í atvinnulífinu. Öll skólastig skipta máli.“

Örlítið neðar segja Samtök atvinnulífsins í þessari umsögn sinni:

„Halda þarf áfram að innleiða hugsunarhátt samkeppni um þjónustu, gæði og velferð nemenda.“

Já, um allt skal nú keppa.

Síðan segja þeir:

„Hraðfara hnattvæðing gerir kröfur um sveigjanlegt og viðbragðsfljótt menntakerfi. Gera þarf einstökum skólum kleift að bera sig saman við aðra skóla með velferð nemenda að leiðarljósi. Skólar eiga að veita sem besta þjónustu og starfsemi þeirra þarf í auknum mæli að miðast við ólíkar þarfir nemenda.“

Allt er þetta göfugt og við getum tekið undir þetta.

Svo segir:

„Möguleiki þarf að vera fyrir hendi til að umbuna framsæknum og þjónustumiðuðum skólum og kennurum. Eðlilegt er að árangur kennara verði metinn ekki síður en nemenda.“ (Gripið fram í.)

Áfram er haldið:

„Með gæði, þjónustu og velferð einstaklinga að leiðarljósi ber stjórnvöldum að kaupa þjónustu á sviði fræðslu og menntunar af þeim fræðslufyrirtækjum sem neytendur þjónustunnar helst kjósa. Rekstrarform slíkra fyrirtækja getur verið með ýmsu móti en stjórnvöld setji reglur um starfsemi skóla og veiti þeim aðhald og eftirlit.“

Þetta stendur ekki í frumvörpunum, nei, en þetta er hugmyndafræði sem hæstv. menntamálaráðherra hefur talað fyrir. Hún talar ekki eins skýrt fyrir þeim hér úr þessum stóli og kannski ekki eftir að þessi frumvörp komu fram. En áður en þau komu fram var þessi hugmyndafræði eldsneytið sem hæstv. menntamálaráðherra notaði í ræður sínar um menntamál. Ég er algjörlega sannfærð um að þessi hugmyndafræði kraumar undir. Það er þessi hugmyndafræði sem á eftir að móta skólastarfið á næstu árum í framhaldsskólunum.

Ég skal lýsa því fyrir fólki hvernig ég sé fyrir mér að þetta muni gerast: Breytingarnar verða ekki á einni nóttu, þær verða jafnvel ekki á einu ári, þær munu gerast smátt og smátt. Þær munu verða með þeim hætti, eins og reyndar var tekið undir af tilteknum gestum nefndarinnar, að smám saman og kannski fljótar en okkur grunar, verður meginreglan sú að stúdentsprófið verði þrjú ár, það verður meginreglan. Einstaka skólar eins og einhverjir sérviskuskólar sem fá haldið úti sínu fjögurra ára bekkjarkerfi eins og Menntaskólinn í Reykjavík fá kannski að halda sínu fjögurra ára námi enn um sinn en smám saman verður dregið úr fjármunum hins opinbera til þeirra skóla sem eru eitthvað að paufast við það að hafa fjögurra ára nám. (Gripið fram í.) Mjög fjölbreytt stúdentspróf, flóra stúdentsprófa verður mikil og eins og ég sagði í fyrstu ræðu minni, ég lasta það ekki, ég fagna því. En þau verða með svo fjölbreyttu sniði að það verður ómögulegt fyrir háskólana að meta þessi stúdentspróf.

Þá munu háskólarnir gera hvað? Setja á inntökupróf í auknum mæli, setja mjög strangar kröfur eins og við t.d. þekkjum í Danmörku og Noregi, mjög strangar kröfur, miklar, háar girðingar. Hvað gerist þá? Þá spretta upp þjónustufyrirtæki Samtaka verslunarinnar. Þá spretta upp fyrirtækin með ehf-ið fyrir aftan sem bjóða aðfararnám til háskólaprófs. Fjölskyldur og foreldrar framhaldsskólanema þurfa að draga upp pyngjuna til þess að borga fyrir börnin sín eins til tveggja ára nám sem verður aðfaranám að háskólanámi. Þetta er hugmyndafræði Samtaka atvinnulífsins og þetta er sú hugmyndafræði sem kraumar undir þessu frumvarpi. Þetta er markaðsvæðing menntakerfisins. Hægt og bítandi skal hún innleidd.

Menn reka hér upp stór augu en tölum saman eftir tíu ár. Ég er algerlega sannfærð um að ef Alþingi hefur ekki vit á því að segja já við þeirri tillögu sem við komum til með að bera hér upp í atkvæðagreiðslu á mánudaginn, þ.e. að þessu máli verði vísað frá, þá er sú mynd sem ég er hér búin að vera að draga upp sú mynd sem á eftir að blasa við okkur. Mér þykir það mjög miður. Það er ekki menntakerfi sem við Vinstri hreyfingin – grænt framboð viljum sjá, það er ekki menntakerfi sem við stjórnarandstaðan á Alþingi Íslendinga í dag vill sjá í nánustu framtíð.