Stimpilgjald

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 16:55:40 (8340)


135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[16:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera grein fyrir fyrirvara mínum við þetta mál. Hann kom reyndar fram í máli mínu við 1. umr. málsins. Hér er um það að ræða að koma til móts við þá sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn og er það í samræmi við sjónarmið okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að leita beri leiða til að gera einmitt það.

En í umfjöllun nefndarinnar kom fram að þetta er að mörgu leyti erfitt tæknilega séð og ég hef hreyft þeirri hugmynd og gerði það við 1. umr. og ræddi það í nefndinni líka að ef til vill hefði verið hyggilegra að lækka stimpilgjaldið almennt og leita síðan annarra leiða, t.d. í gegnum vaxtabótakerfið, til að koma til móts við þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn. Þetta var fyrirvari minn en ég styð frumvarpið.